Lukku Gláki

Áður en lengra er haldið, er líklegast rétt að útskýra betur hvað það er sem hrjáir Davíð minn. Ég hef ekki farið út í það í neinum smáatriðum, og margir sem skilja ekki hvað það er sem er að.

Here we go... Í auganu er nokkuð sem nefnist fellingabaugur, sem framleiðir stöðugt vökva sem nefnist einfaldlega augnvökvi. Þessi vökvi rennur inn og út úr auganu í stöðugu flæði, hann rennur í gegnum augað og svo út um síuvef. Í tilfelli þar sem um meðfædda gláku er að ræða (einsog hjá Davíð), kemst vökvinn ekki út úr auganu þar sem götin á síuvefnum eru allt of þröng, eða hreinlega ekki til. Þegar vökvinn kemst ekki út eykst hann að sjálfsögðu inni í auganu, þetta myndar þrýsting og þar með myndast gláka. Þessi hækkaði þrýstingur í auganu veldur dauða taugafrumnanna í sjóntaug, og þetta leiðir til að sjónsviðið skerðist og getur að sálfsögðu leitt til blindu ef ekki tekst að halda þrýsting í lágmarki. Hækkaður þrýstingur veldur þar að auki miklum óþægindum, til dæmis má nefna mígreni og ógleði, sjóntruflanir og mikil ljósfælni ("regnbogasjón") eru meðal þess sem truflað hefur Davíð hvað mest. Hornhimnan hans verður mött og gráleit, vegna þess að það myndast bjúgur þegar vökvinn kemst ekki út úr auganu, hann sér þessvegna allt í móðu þegar þetta gerist. 

Þrýstingurinn í litlu barni einsog Davíð á að vera á bilinu 8 til 10. Hann er búinn að rokka á milli 13 og 30 síðastliðna 3 mánuði. Í síðustu viku var hann virkilega slæmur og þá var hann skorinn á ný, en þrýstingurinn mældist í 30 þann dag. 3 dögum seinna var hann kominn niður í 13, og honum líður að sjálfsögðu afskaplega mikið betur núna !

Hann hefur gengist undir tvær mismunandi aðgerðir, sú fyrsta var til að víkka frárennslið og sú seinni til að hæga á framleiðslunni af augnvökvanum. Víkkunnin á síuni tókst vel, en vandinn er sá að þetta á til að lokast aftur, þessvegna þarf að endurtaka þessa aðgerð nokkrum sinnum. Svo er hann líka hafður á augndropum sem lækka þrýstinginn, og svo er hann á kortísóndropum.

Jæja, hérmeð lýkur vísindahorninu á þessari bloggfærslu !

Allt gengur vel hjá okkur, Davíð líður vel þessa dagana og virðist keppast við að taka stóra vaxtakippi á meðan allt er einsog það á að vera með augun hans. Ljósmóðirinn sem við erum með á ungbarnaeftirlitinu er sjúklega metnaðarfull, svona hálfpirrandi over-achiever... Hún hefur viljað fylgjast nánar með honum þar sem hann hefur staðið í stað hvað varðar þyngd og þannig, ég hef í raun engar áhyggjur af þessu enda skil ég það ósköp vel að hann vilji ekki borða mikið þegar þrýstingurinn er búinn að vera þetta mikill. Ég meina, hver vill borða þegar maður er með stöðugann hausverk og ógleði ?!? Hann gerir þetta bara í sínum takti, og núna td. er han borðandi allan daginn. Allavega, hún er hringjandi og vill fá okkur í eftirlit oftar og þannig, sem er svosem alveg gott og blessað. 

Ég er búin að finna húmorinn minn á ný, en hann hefur verið fjarri mér í nokkra mánuði. Í gær td. var ég að sækja Tómas á leikskólann, og skildi Davíð eftir úti í kerru á meðan ég elti Trukkinn út um allann kofa til að koma honum í útifötin. Fóstran hafði orð á því hvað Davíð væri prúður og rólegur þarna úti í kerruni sinni, aleinn og bara hress. Ég kom sjálfri mér á óvart með því að glopra út úr mér "já, hann sér ekki svo vel, ætli hann fatti nokkuð að ég sé farin!". Fóstran brosti bara og sagði að það væri hressandi að heyra mig gera grín á ný. Ég var bara ánægð með mig, húmorinn hefur oft verið mitt besta vopn og ágætt að finna það að ég sé að sætta mig við ný hlutskipti og nýtt líf.

Sl. helgi fórum við í bollukaffi há Stínu vinkonu og hennar strákum (og manni að sjálfsögðu). Rosalega góðar bollur, og skemmtilegt að hitta skemmtilegt fólk. Tómas hagaði sér vel og sagði ekki einn einasta kúkabrandara. Er viss um að hann geymir þá bara þangað til hann kynnist þeim aðeins betur..... Stína lánaði mér "Næturvaktina" diskana sína, og ég er búin að liggja veinandi á gólfinu síðan. Mér til mikillar ánægju kom í ljós að Alex skilur mun meira í íslensku en ég gerði mér grein fyrir, hann flissaði og hló að þessum þáttum með mér í allt gærkvöld! Hann hringdi meira að segja í mig áðan og sagði "Sæll ! Eigum við að ræða þetta eitthvað ?". Eða sko... ég held að hann hafi verið að segja það allavega, ég verð að æfa hann aðeins í framburðinum.... Greyið maðurinn, íslenskuorðaforðinn hans er nú ekki upp á marga fiska, hann kann að blóta einsog hafnarverkamaður (mér að kenna), og svo kann hann þessa algengustu frasa heimilisins: "oooo, ertu búinn að kúka ??", "hættu þessu" og "ekki GERA ÞETTA !!". Jú, svo er það "villtu kaffi elskan" en það er alltaf það fyrsta sem heyrist þegar við kíkjum til mömmu !! Verð að vinna aðeins í þessu áður en við komum heim í júní, vil ekki að hann spurji vini og ættingja hvort þeir hafi kúkað nýlega.... 

Vikan framundan, eða það sem eftir er af henni, er frekar róleg, allar hinar mömmurnar í fæðingarorlofi eru annaðhvort veikar eða heima með veik börn svo ég hef vísst enga afsökun og neyðist til að vera heima og kannski taka til og hugsa að öllum þessum litlu verkefnum sem hafa fengið að sitja á hakanum. Alex er búinn að fá fullt af aukaverkefnum og er að dunda sér í þeim á kvöldin. Góðar aukatekjur þar, og svo er þetta allt hlutur af hans stærri áformum fyrir framtíðina en helst vill hann vera sjálfstæður ráðgjafi og þá koma sér þessi verkefni sem hann er að fá mjög vel. Ég krefst þess að fá ráðningu sem einkaritari, og hann lofar því. Spurning hvert ég snúi mér ef hann áreitir mig kynferðislega??

Framundan er svosem ekkert neitt merkilegt, en það er samt alltaf eitthvað að gerast. Ekkert sem er nærri því nógu spennandi til að segja frá .... 

Að lokum vil ég óska besta vini mínum til hamingju með afmælið - elsku pabbi minn, ég vona að þú fáir góðan afmælisdag !! 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erna Lilliendahl

Gott að heyra að aðgerðin gekk vel og húmorinn er nauðsynlegur í daglegu amstri, gott að vita að þú fannst hann :)

Og ef þú kíkir eitthvað á lífið þegar þú kemur með hersinguna til landsins, ættirðu kannski að kenna manninum þínum að svara brókarsóttar stelpunum;

"Nei takk, ég aðhyllist félagsskap heldri manna"

...bara hugmynd ;)

Erna Lilliendahl, 13.2.2008 kl. 20:18

2 Smámynd: María Tómasdóttir

Hahahah, eða einsog Hlín vinkona sem losnar við of áhugasama karlmenn með því að segjast hafa mikinn áhuga á því að ræða betur við þá í næði, en verði fyrst að vita hvort þér séu búnir að taka á móti jesú Krist Frelsaranum í lífi sínu... Þeir hverfa ansi hratt þá....

María Tómasdóttir, 13.2.2008 kl. 20:28

3 Smámynd: Erna Lilliendahl

Brill!!! Verð að nýta mér þessa setningu :D

Erna Lilliendahl, 14.2.2008 kl. 00:21

4 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Gott að það gengur betur og að húmorinn er fundin

Einar Bragi Bragason., 14.2.2008 kl. 10:55

5 Smámynd: Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl

Yndisleg lesning elsku vinkona. Er alltaf að hugsa til þín ..og svona bara fyrir mig..plís!...ekki vera neitt að fikta í þessum orðaforða hjá Alex....hlakka mikið til að hitta hann, bjóða honum kaffi og ræða hægðir..

Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl, 14.2.2008 kl. 11:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband