Fussumsvei

Í dag var svo komið að fimmtu svæfingu Davíðs. Einhvernveginn hélt ég þegar þetta ferli fór af stað, að þetta yrði auðveldara með tímanum. Eða að ég yrði sjóuð, og harðari af mér. Svo er ekki tilfellið. Dagurinn í dag var erfiðastur allra hingaðtil. Samt voru niðurstöðurnar alveg allt í lagi, þrýstingurinn mældist 15 (vinstri) og 14 (hægri) sem er ekki það besta (sem er 8) en langt frá því að vera það versta (30 er það hæsta hingaðtil). Það var ekkert gert í dag, ekkert skorið eða neitt, við höldum bara áfram með alla þessa dropa og sjáum svo til eftir mánuð. Alveg ágætis niðurstöður, en samt var ég einsog taugahrúga þarna á sjúkrahúsinu í dag.

Það sem mér finnst eiginlega vera það erfiðasta, er þegar þarf að stinga hann til að koma nál í æð, svo hann geti fengið næringavökva, og einnig er sprautað svæfingalyfinu í þá æð þegar við komum inn á skurðstofu. Það þarf að koma þessu röri á sinn stað, en það er erfitt að stinga lítið barn. Þessvegna er ég búin að taka það fram aftur og aftur að ég vilji ekki neinn nema þann besta, bara sú sem er vön og örugg má koma nálægt honum. Það eru ekkert allir sem geta komið nál í æð á svona litlu barni. Ég vil ekki þurfa að sitja með hann, halda honum föstum, á meðan hann öskrar og grætur, og láta stinga hann á báðum höndum og báðum fótum áður enn þetta tekst. Ég byrjaði á því í morgun að taka þetta fram, að ég færi fram á það að þetta yrði haft í huga og að honum væri sýnd sú virðing. En ég fann það strax að þetta myndi ekki ganga, sú sem tók á móti okkur var örugglega búin að vera að vinna sitt starf í einsog 100 ár og greinilega búin að missa alla mýkt og tilfinningu fyrir hræddum börnum og óttaslegnum foreldrum. Sumir starfsmenn innan sjúkrahússins eru svo greinilega búnir að sjá of mikið. Allavega, hún sagði nú á svona frekar hrokafullan hátt að þetta yrði nú ekkert mál og að hún væri nú búin að stinga svo mörg börn í gegnum árin....

Þetta fór til fjandans. Algjörlega, hún stakk í gegnum æðina svo hann er enn einusinni kominn með hrikalega stóran marblett á fótinn (þar sem hún stakk), og hann barðist um á hæl og hnakka, grét og grét og öskraði af hræðslu og reiði. Ég get ekki komið því frá mér, hversu hræðilegt mér finnst að þurfa að gera þetta, aftur og aftur og aftur og aftur. Að sitja með hann, halda honum föstum, reynandi að hvísla huggandi orðum í eyrað hans á meðan. Truntan gafst upp á þessum fæti og ætlaði að fara að reyna hinn fótinn en þá brotnaði ég saman. Davíð stóð á öndini, það lak blóð eftir fætinum hans, og ég titraði af reiði og vanmætti. Fór fram á gang og settist þar með hann og grét frá mér öllu viti held ég. Aðstoðarhjúkrunarkonan kom fram og reyndi að hugga okkur, og ég gat bara snöktað "ég vil ekki vera hérna, ég vil þetta ekki, ég vil þetta ekki.....". Greyið konan, hún gat ekkert sagt, en ég náði mér nú saman á ný eftir þetta. Stundum er líka gott að brotna saman. Alex var heima á meðan, til að skila Tómasi á leikskólann, ég held ég vilji ekki vera ein þarna uppeftir aftur. 

Davíð var gefið dálítið róandi lyf til að hjálpa honum að slaka á eftir þetta, og svo fór ég fram á að hann yrði svæfður með gasi í þetta sinn. Það er ekkert betra í raun og veru, ég hef sjálf verið svæfð með svona grímu og maður fær innilokunartilfinningu sem er ekki skemmtileg. En hann var kominn í svo rosalega mikið uppnám að það var samt betri kosturinn af tveimur slæmum. 

Svæfingalæknirinn var dásamlegur, og mælir með því að Davíð fái þetta róandi lyf í framtíðini áður en hann verður stunginn. Hann varð hálf fullur af þessu og afskaplega mikið þægilegri (Davíð þeas, ekki svæfingalæknirinn...) 

Hér sit ég svo, báðir stubbarnir mínir sofandi, hlið við hlið í stóra rúminu okkar. Tómas beið spenntur eftir litla bróður sínum þegar heim var komið, kyssti hann samviskusamlega og klappaði honum. Reif svo af honum alla plástrana og sagði að hann skyldi vera læknirinn hans, og tróð upp í hann kexköku! Alex skrapp sér á Casino með vinnufélögum sínum, vona að hann skemmti sér vel. Við förum svo fáránlega sjaldan út, og enn sjaldnar saman. Við verðum að fara að gera eitthvað í þeim málum, finnst einsog við séum bæði orðin afskaplega leiðinleg og gömul... Að vísu hefur verið erfitt að fara frá Davíð, vegna þess hversu ílla honum hefur liðið hefur hann ekki fengist til að borða, aðeins móðurmjólkin hefur dugað. Og þá get ég jú ekki verið að taka hans einu fæðulind og hrista jussurnar á dansgólfum borgarinnar !! En nú er það allt á réttri leið og hann bæði drekkur og borðar einsog hann á að gera. Dansgólf, here I come !! Oft hefur verið þörf, en nú er nauðsyn að sletta aðeins úr klaufunum og koma sér í gott skap. 

Á meðan ég man, fyrsta tönnin leit dagsins ljós í fyrradag. Ég var farin að halda að drengurinn yrði tannlaus að eilífu, en nú er hann semsagt komin með tönnslu !!  

Eigið góða helgi !  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erna Lilliendahl

Það er ekkert yndislegra en að eiga þessi börn...en líka ekkert erfiðara en að standa vanmáttug þegar þeim líður illa...

En þú ert að standa þig eins og hetja og það er nauðsynlegt að leyfa tilfinningunum að brjótast fram, þú gerir illt verra með að halda þeim inni, á endanum springur þú. Og það er líka nauðsynlegt að vera bara þú einstaka sinnum, án ábyrgðar, til að rækta þína innri manneskju, því þegar henni líður vel, líður öllum vel í kringum þig! Knús af Klakanum til þín mín kæra

Erna Lilliendahl, 29.2.2008 kl. 18:25

2 Smámynd: Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl

Elsku Maja mín; þú býrð yfir meiri styrk en margur, en stundum er gott, eins og Erna sagði hér að ofan, að fá útrás. Leyfa tilfinningunum að brjótast fram svo þú hreinlega springir ekki. Ég man svo vel eftir tilfinningunni þegar Ísabella fór í aðgerðina. Það var sífellt verið að gefa henni sprautu, taka blóðsýni og þar fram eftir götunum. Hegðunin sem þú lýstir hjá starfsmanninum hljómaði mjög kunnuglega. Það er nefnilega alveg merkilegt að læknar skuli ekki hafa það fyrir reglu að nota Emblu plástrana. Ég man að ég þurfti að biðja sérstaklega um þá þegar Ísabella lá á spítalanum, sem ég bara skil ekki. Þeir einfalda lífið svo mikið, sérstaklega fyrir ungabörn...svo ég tali nú ekki um starfsfólk sjúkrahúsanna. Það bara hlýtur að minnka álagið á öllum ef það er hægt að taka blóðprufur/svæfa/gefa lyf án sársauka og gráturs!

Ef ég væri þú þá myndi ég hiklaust krefjast þess að fá þessa plástra til að nota á Davíð. Þeir eru settir á það svæði þar sem á að sprauta. Þetta er gert hálftíma fyrir sprautunina. Á þeim tíma deyfist svæðið og barnið finnur ekkert fyrir stungunni.

Ég vona að þið hafið það annars gott um helgina elskurnar mínar. Risaknús og kossar yfir hafið

Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl, 29.2.2008 kl. 18:56

3 Smámynd: María Tómasdóttir

Erna mín takk, ég ætla að fara út á lífið um næstu helgi og hrista mig upp !

Erla, takk! Veistu, við fáum þessa Emblu plástra deginum fyrir svæfingu, og plástrum hann bak og fyrir um morguninn áður en við förum á sjúkrahúsið. Samt gengur þetta alltaf jafn ílla. Ég held að það sé svo erfitt fyrir hann að honum sé haldið svona föstum, eða þá eru þessir Emblu plástrar ekki að virka. Ég veit það ekki, en við notum þá allavega. Kannski er hann ekki að finna fyrir miklum sársauka, en eitthvað er það því hann brjálast alveg. Og ég verð svo stressuð, og það auðveldar ekki heldur....

Vona að þið skemmtið ykkur vel á morgun, hlakka mikið til að sjá myndir !!! Knús til ykkar beggja, það er gott að eiga ykkur að :-)

María Tómasdóttir, 29.2.2008 kl. 19:03

4 identicon

Það er ekkert eins erfitt og að horfa upp á börnin sín hrædd og veik, svo ég tali ekki um þessar fjand.... nálar.

Ég þurfti að ganga í gegnum svona "nál í æð" tímabil með Þorsteini mínum þegar hann var pínu pons....... ég lærði það fljótt, að maður þarf að vera helmingi ákveðnari en allar þessar gömlu hjúkkur til samans.

Ég gaf aldrei eftir, það fékk engin og ég meina engin, nema færasti barnalæknir eða svæfingalæknir að koma nálægt æðunum í barninu mínu.

Stattu á þínu, þetta er þitt barn og þú ræður.

Gangi þér vel.

Carola 29.2.2008 kl. 20:27

5 Smámynd: Einar Indriðason

Ái!  Ég hefði alveg skilið það ef þú hefðir sparkað í rassinn á þessari gömlu skonnortu, ég meina ... júffertu, fyrir að fara svona hranalega fram.

Einar Indriðason, 29.2.2008 kl. 21:01

6 identicon

Úff, það eru greinilega stór og erfið verkefni sem þið eruð að takast á við. Var að lesa nokkrar færslur aftur og get vel ímyndað mér að þessu fylgi mikið álag og sársauki, sérstaklega að þurfa að horfa á barnið sitt hrætt og finna til.

Gangi þér sem allra best. Er alveg sammála þér í því að stundum er það besta sem maður gerir fyrir sjálfa sig að leyfa sér að gráta og létta þannig aðeins af hjartanu...

Auður H Ingólfsdóttir 29.2.2008 kl. 21:46

7 Smámynd: María Tómasdóttir

Carola, góð ábending þetta með svæfingalækninn. Næst ætla ég að krefjast þess að hann komi inn á deild og sjái um þetta. Takk !

Einar, já, ég var komin ansi nálægt því að sparka í rassinn á henni !! Geri það bara næst :þ

Auður, takk fyrir góðar kveðjur. Grátur er góður, og sérstaklega læknandi finnst mér ! Vona að þú sért sterk í sálartetrinu þínu líka !

María Tómasdóttir, 1.3.2008 kl. 20:43

8 Smámynd: Einar Indriðason

Ef þú sparkar, og færð bágt fyrir, segðu bara... "Ég las þetta á netinu"

(gæti virkað)

Einar Indriðason, 1.3.2008 kl. 22:35

9 Smámynd: María Tómasdóttir

Já einmitt !! Eða þá segi ég bara að fólk skuli passa sig, ef sonur minn fellir eitt einasta tár þá fær viðkomandi spark í rassinn !! Ætli við yrðum vinsæl á sjúkrahúsinu ??

María Tómasdóttir, 1.3.2008 kl. 23:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband