17.6.2007 | 19:36
Helgin okkar
Nú er helgin að lokum og ekki get ég nú borið neinar stórfenglegar fréttir. Í dag fórum við Tumi og Davíð og héldum upp á 17. júní heima hjá mömmu, þar borðuðum við pönnukökur og einhverja hnallþóru sem ég sletti saman í morgun. Veðurguðirnir hérlendis ákváðu að hafa íslenskt þema í dag, það hefur rignt allan daginn og það meira að segja mikið á sænskum mælikvarða. Ekki létum við það nú draga úr hátíðarhöldunum og héldum út á rólóvöllinn með strákana. Tómas er að verða smádýrabani mikill og elti skelkaða maura og ánamaðka út um allt, og hóf svo fjöldamorð á sniglum. Við mamma reyndum að útskýra að þetta væri nú ekki alveg sú hegðun sem ætti að hvetja, nokkuð sem hann virtist taka til umhugsunar. Við mæðgur vorum frekar sáttar við þann skilning sem barnið sýndi okkur, og kinkuðum við kolli og þóttumst mjög klárar í að ala barnið upp. Það var ekki laust við að við táruðumst aðeins og fengum sitthvort vægt móðursýkiskast yfir gáfum og tilfinninganæmni barnsins. Þangað til að við uppgvötuðum að hann hafði bara breytt um modus operandi og hafði nú tekið upp á því að grafa sniglana lifandi með því að hella yfir þá sandi sem hann bar í þar til gerðri fötu.
Um næstu helgi verður Halla vinkona og ofurgella stödd hér í Stokkhólmi og eigum við okkur deit á föstudagskvöldi. Alex verður því einn heima með skriðdrekann og átvaglið, og það í fyrsta sinn (einn þ.e.a.s). Hann er mikið stressaður yfir þessari hugdettu minni, að fara ein í bæinn og skilja hann eftir með strákana, sérstaklega þar sem þeir virðast stunda nýja íþrótt sem nefnist synchronized crying and soiling of diapers.... Tómas hafnar líka öllum tilraunum föðursins til að svæfa, svo þetta lofar áhugaverðu kvöldi. Ég hugsa mér samt gott til glóðarinar, og hver veit nema maðurinn sýni mér aukinn skilning eftir þetta kvöld. Hann fær kannski smá insýn í afhverju ég er ekki alltaf í sólskynsskapi á kvöldin þegar hann kemur heim...
Athugasemdir
Ha ha ha ha... þetta eru alveg snilldarskrif! Vona að þú njótir "frelsisins" og eigir yndislegt kvöld með Höllu vinkonu þinni!
Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl, 17.6.2007 kl. 21:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.