Að tryggja eftirá...

Ég hef oft upplifað mig yngri en árin hafa sagt til um, og kannski verið óábyrg í mörgu. Flestar vinkonur mínar fóru af stað í sambúð og barneignir töluvert áður en ég fann þroska til, og það er í raun fyrst núna sem mér finnst ég vera fullorðin í alvöru. 

Með því að vera fullorðin kemur ábyrgð, og sem tveggja barna móðir fer maður að hugsa um framtíðina og ýmislegt hvað því tengist. Þá meðal annars tryggingar. Ég er að sjálfsögðu með bílinn, heimilið og börnin tryggð á allan hátt sem hægt er, en fyrst í dag áttaði ég mig á því að ég er ótryggð. Hringdi því í tryggingarfélagið mitt, og þóttist vera afar ábyrg og fullorðin manneskja þegar ég settist niður með símann sem mitt verkfæri. Sölumaðurinn sem ég fékk samband við var mér sammála að sjálfsögðu og vildi ólmur selja mér allar þær tryggingar sem til eru.

Svo þegar hann fer að tala um sjúkratryggingar segi ég að það sé kannski ekki það auðveldasta þar sem ég því  miður greindist með ólæknandi sjúkdóm, Multiple Sclerosis (MS) fyrir tæpum 4 árum. Þá fylgir löng og vandræðaleg þögn sem sölumaðurinn góði brýtur loks með því að ræskja sig vel og lengi. "Skooooo", stamar hann, "ég get ekki boðið þér neina tryggingu því miður".

Nenni ekki að rekja allt samtalið sem fylgdi, en niðurstaðan er sú að tryggingarfélagið (og ég hringdi í fleiri til að kanna stöðuna sem er sú sama allsstaðar hérlendis) álítur mig vera ótryggingarhæfa. Sem sagt neita þeir að selja mér líftryggingu sem og slysatryggingu, og sjúkratryggingu er bara að gleyma. Í þeirra augum er ég greinilega miklu líklegri til að td.  lenda í beinbroti eða td. að skera mig á gleri. Jafnvel þó ég sé farþegi í bíl og lendi í bílslysi vilja þeir ekki tryggja mig. Ég spurði ítrekað hvort það væri ekki hægt að tryggja mig þá gegn öllu sem er ekki tengt mínum sjúkdómi, en þeirra staða er sú að fyrst ég er með þennan sjúkdóm þá er ég bara gölluð og þeir vilja ekki hafa mig sem kúnna. 

Ef MS væri banvænur sjúkdómur gæti ég skilið þetta með líftrygginguna kannski, en svo er nú ekki tilfellið. Eins þetta með að þeir telja líkurnar á því að ég lendi í einhversskonar slysi svo miklu hærri, það finnst mér bara fáránlegt. Ég vil líka taka það fram að ég er enn sem komið er (7, 9, 13 og allt það) í raun alveg laus við allan varanlegan skaða af þessum bölvaða sjúkdóm og er heilsuhraust. En að sjálfsögðu gæti ég lennt í slysi alveg einsog allir aðrir.

Ég hef verið óttarlega reið útaf þessu sem ég álít vera ósanngjarnt og frekar sárt. En vildi samt deila þessu með þeim sem lesa þetta, til að minna á að maður tryggir ekki eftirá.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst þetta viðurstyggileg vinnubrögð og ótrúlegt að tryggingafélög fái að komast upp með þetta. Mér hefur reyndar skilist að það þurfi minna að koma til svo að fólk fái ekki tryggingar, mér finnst eins og frænka mín sem er með forstig að sykursýki hafi ekki heldur fengið að tryggja sig!

En gaman að þú sért byrjuð að blogga, mun nú refresha síðuna mörgum sinnum á dag meðan ég býð eftir nýjum færslum ;)

Stína 20.6.2007 kl. 00:26

2 Smámynd: Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl

Segir þetta ekki allt sem segja þarf um tryggingarfélög??? Algjörlega útí hött. Maður verður bara reiður...hugsa til þín snúllan mín..

Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl, 20.6.2007 kl. 01:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband