26.6.2007 | 19:08
Gella í æfingu
Halla vinkona var hér um helgina. Á föstudaginn var átti að hleypa mér út, og 5 vikum eftir barnsburð var ég alveg til í að yfirgefa húsið í smá stund án þess að vera með eitthvað barnið hangandi einhversstaðar á mínum þreytta líkama. Þegar dagurinn rann upp var ég einsog á afmælisdegi í gamla daga, eitthvað stórkostlegt, spennandi og framandi var að fara að gerast! Nú jæja, það átti að taka sig til. Stóra spurningin er jú oftast klæðnaður, en þetta stuttu eftir meðgöngu og fæðingu er spurninguni auðveldlega svarað. Maður fer í það sem maður kemst í, og lætur það duga! Svo var það andlitið. Nú skulum við sjá, einhversstaðar átti ég snyrtitösku. Eftir brjálæðislega leit var taskan dregin fram, hún opnuð og ég stóð einsog spurningamerki frammi fyrir þessari litadýrð. Öll þessi smyrsl, krem, allir burstarnir, litlu sætu dollurnar og pennarnir, meikflöskur og annað. Hvernig var það nú aftur, átti maður að byrja eða enda á maskaranum? Varaliturinn fyrst og svo varalitapenninn, eða var það öfugt? Ég hófst allavega handa, og sparslaði af bestu getu. Eftir 3 góðar tilraunir til að blinda sjálfa mig með því að reka maskaraburstan af krafti á bólakaf INN Í augað (hann á sem sagt ekki að fara þangað) var ég frekar sátt með afraksturinn. Þá átti ég bara eftir hárið, með tilheyrandi rót sem ég allt í einu rak mitt eina auga í. Ekkert við því að gera núna, svo ég dró fram fleiri brúsa, dollur, túbur og úðara, öllu skellt í hárið og allt saman þurrkað lengi. Svo var það sléttujárnið. Einu sinni gat ég í nokkrum örfáum múvs sléttað allt hárið OG sett það í ágæta greiðslu OG verið frekar kúl á meðan ég var að þessu. Ekki lengur. Vopnuð eldheitu sléttujárninu byrjaði ég að strauja nokkra lokka, og endaði með stórt brunasár á eyranu. Eyrnasnepillinn á sem sagt ekki að fara INN Í sléttujárnið, ég veit það núna. Ótrúlega sárt.
Pabbinn horfði áhyggjufullur á fjaðrafokið sem átti sér stað á meðan á þessu stóð. Hann átti sem sagt að vera EINN heima með TVO stráka, og þetta reiknisdæmi var einfaldlega ekki að ganga upp í hans haus. Hann setti upp sinn strangasta svip, og með hendurnar á mjöðmunum reyndi hann að setja mér nokkrar lífsreglur. Ég mátti ekki koma heim of seint, og alls ekki full því að ég mátti alveg búast við því að 1) allir væru vakandi 2) alllir væru snælduvitlausir 3) allir væru á barmi taugaáfalls og 4) ég myndi þurfa að laga þetta allt saman. Hann hefur ekki allt of mikla trú á sjálfum sér aumingja maðurinn.... Heim kom ég, í fyrri laginu, næstum því edrú og allir voru sofandi. Veit ekki með taugaáfallið, mér fannst hinn hrjótandi faðir sem ég fann á sófanum vera ansi mæðulegur á svip. Og jú, hann hefur verið roooooooosalega góður við mig síðan !! Íbúðin var hinsvegar á hvolfi, og ekki í fyrsta sinn undraðist ég hvað maðurinn þarf mikið dót til að gera einföldustu hluti. Það er alls ekki óalgengt hjá okkur að það fari 4 pottar, 2 pönnur, og öll áhöld eldhússins til að hita spakk og hakk. Samt er það ofast of soðið eða ekki nógu soðið....
Kvöldið með Höllu var dásamlegt, víða farið enda margt á okkar daga drifið. Synd að allar bestu vinkonurnar búi einhversstaðar annarsstaðar en ég... Laugardeginum eyddum við svo ásamt mömmum okkar og sonum á Skansen í rigningu.
Ég ætla núna að föndra mér skilti, einsog þessi "Ökukennsla" skilti aftan á bílunum. Aftan á mér á núna að hanga skilti sem á stendur "Gella í æfingu", og mun það vonandi útskýra rauðbólgið auga sem úr lekur maskaraklessur, meikrendur sem 13 ára stelpur væru stoltar af, og varalitur sem er meira en bara smá fyrir utan....
Athugasemdir
Lol...elskan mín...ég held nú að þú verðir ekki lengi að koma þér í æfingu ( enda algjör AN-GELLA ...smá húmor frá því við vorum 15 ára...) svo geturðu alltaf fengið mitt skilti lánað...og spegil. Kannski var bara málið að þú gleymdir að nota svoleiðis þegar þú varst að mála þig??
Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl, 26.6.2007 kl. 20:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.