9.7.2007 | 19:07
Sólargeislar í rigningu
Hingatil hefur þetta verið óskaplega vætusamt og hálf leiðinlegt sumar. Við höfum þessvegna hangið frekar mikið heimafyrir, rútínan er ekki alveg komin í gang ennþá eftir komu litla krílis en við reynum af bestu getu að dunda okkur saman og gera eitthvað sniðugt á hverjum degi.
Það er ekki hægt að kalla dagana okkar leiðinlega, stundum erfiða og oft þreytandi, en leiðinlegt er það ekki. Ég get hinsvegar verið frekar leiðinleg finnst mér, þreytt og oft stressuð, með þá tilfinningu hangandi yfir mér að ég nái aldrei að fyllilega gera það sem ég ætlaði mér, né gera það eins vel og ætlunin var. Ég er td. búin að láta mér detta í hug ca 45 sniðugar og að mínu mati áhugaverðar og barasta ansi fyndnar blogfærslur, en þegar sá elsti er sofnaður á kvöldin er ég komin með bæði heilateppu og puttaharðlífi....
Stundum finnst mér einsog hver dagur sé ekkert nema hálf volg endursýning af deginum áður, þvotturinn virðist aldrei bara fylla þvottakörfuna heldur er einsog eldgos inni á baðherbergi með skítugum fötum allsstaðar, maður er annaðhvort að tæma eða raða í uppþvottavélina, með litla hangandi framan á mér og þann stærri að þvælast fyrir fótunum á mér. Og ég er ekki ein af þessum húsmæðrum sem eru stífmálaðar og ógeðslega happí allan daginn, ó ekkí. Ég er í frekar lummó innibuxum, oftast með hárið í tagli, sjaldan máluð og ekkert neitt sérstaklega happí. Ég hlakka til að þessu 3ja mánaða tímabili líkur, þegar sá minnsti er ekki alveg eins brothættur, þegar sá eldri er farinn á leikskólann og ég get séð fram á að komast ferða minna aðeins meira.
Nei, ég er ekkert skemmtileg akkúrat núna, og stundum er ég alltof óþolinmóð og grá í skapinu. En svo gerist allt í einu eitthvað til að snúa hlutföllunum við og koma þeim á réttan stað aftur, einsog sólargeisli sem brýtur sig í gegnum dökkt skýið. Einsog um daginn, þegar maðurinn minn gerði nokkuð svo einfalt og í raun ómerkilegt en á sinn einlæga og yndislega hátt, að ég varð bálskotin í honum alveg upp á nýtt. Allt í einu hvarf gráa þokan sem hafði hangið yfir þreyttu höfði mínu í marga daga, og ég áttaði mig á því að þakka fyrir það sem ég hef í staðin fyrir að kvarta yfir því sem ég hef ekki. (Verð samt að viðurkenna að ég hef ekki orku í að skrifa þessa brjálæðislega fyndnu færslu sem hefur verið í fæðingu hjá mér í rúma viku.... )
Stundum er gott að aðeins stoppa og líta í kringum sig (gjarna þá passa sig að vera ekki nálægt þvottakörfuni sem gýs fötum útum allt), og kannski aðeins slaka á kröfunum. Ég veit ekki um neinn sem hefur dáið útaf smá drasli eða ótæmdri uppþvottavél. Ég veit hinsvegar um einn 2ja ára strák sem varð rosalega glaður þegar mamma hans sleppti öllum "ég verð bara aðeins..." í dag og lék sér við hann á gólfinu í langan tíma. Og ég veit líka um einn 35 ára eiginmann sem er ekki lengur alveg eins hræddur við grýluna sem hann giftist.
Ég þvæ kannski bara á morgun....
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.