Helgin búin og gólfið lagt og allt er Ísrael að kenna

Helgin okkar var dásamleg. Hún byrjaði í raun á fimmtudeginum þegar við hjónakornin komum skriðdrekanum (Tómasi) fyrir hjá mömmu, og skunduðum í IKEA, mekka allra svía. Þar keyptum við gólf. Hvorki meira né minna. Það fylgir þessu (að sjálfsögðu) smá saga...

Þegar ég gekk með Tómas heltók mig löngun til að gera allt fínt fyrir komu barnsins. Hreiðursgerð (nesting á ensku) á hæsta stigi. Það var rifið út úr skápum, brotið saman og flokkað eftir litum. Það var endurskipulagt, fægað, pússað, þvegið og pússað á ný. Svo fékk ég hugljómun. Væri nú ekki íbúðin okkar þúsund sinnum flottari og betur á sig komin ef við værum með flísar í forstofuni, ganginum og eldhúsinu?! Eftir að hafa smjattað á þessari hugmynd í einsog 7 mín. komst ég að þeirri niðurstöðu að ég hljóti að vera snillingur. Ég fór því í flísabúð og keypti 25 fermetra af terracotta flísum, rosalega flottar og afskaplega Miðjarahafslegar. Því þannig skapi var ég í þann daginn. Já, hugmyndin, ákvörðunin og innkaupin voru á sama degi. Þegar Alex kom heim fór hann strax að tala um hvort það væri ekki örugglega hægt að skila þessu drasli sem stóð núna í aukaherberginu og beið (við erum að tala um fúgamassann og allt sko), ég þar sem ég var ólétt á þennan hátt sem maður er þegar maður gengur með fyrsta barnið grét ég hástöfum yfir tilfinningaleysi, kulda og hrottaskap í eiginmanninum mínum. Á milli ekkasogana krafðist ég að vita AF HVERJU honum væri svona slétt sama að íbúðin okkar væri með svona ÓGEÐSLEGT gólf þegar litla barnið okkar kæmi í heiminn ???? Hann benti á að barnið kæmi nú væntanlega ekki í heiminn Á gólfinu og flissaði smá yfir því hvað hann var fyndinn, sem orsakaði enn meiri tár og hysteríu í hinni verðandi móður. 

Við eigum okkur góðan vin sem vinnur í byggingavinnu og segist kunna allt sem snýr að home improvements. Það var því hringt í hann, og hann staðhæfði að flísalagningar væru í raun hans sérkunnátta. Æðislegt, hann gat þar að auki komið strax um næstu helgi. Sem hann og gerði og það var hafist handa. Nú er rétt að minnast á að maðurinn er frá Beirút. Það má kannski áætla að eftir áratuga stríð og spengingar eru gólfin í Berút ekki endilega slétt. Þau virðast halla all skelfilega. Sama gildir greinilega um hversu beinar flísarnar eiga að liggja. Og fúgarnir þurfa augljóslega ekki að vera sérstaklega smekklega settir heldur geta fúgaklessur vellt yfir á flísar hér og þar. Flísar þurfa ekkert að vera sérstalega fastar á gólfinu heldur, kannski ef maður þarf að flýja um miðja nótt getur verið gott að kippa með sér flísunum sem vega salt á gólfinu. Kannski fer flísalagning fram þannig að maður slettir smá jukki á gólfið, svo flísunum á gólfið í hendingskasti áður en maður þarf að skutlast niður í kjallara því að það er að fara að spengja húsið. Ég veit það ekki... En ég held það.

Með plastbrosið vandlega klínt framan í mér þakkaði ég vini okkar fyrir hjálpina og kvaddi, leit svo á Alex og áður en hann gat sagt hvað hann var að hugsa ákvað ég að gráta smá, sem forvörn. Ég var nefnilega ekki alveg eins ánægð með Miðjarahafslúkkið og ég hafði hugsað mér... Aumingja ófædda barnið okkar sem myndi þurfa að koma heim í þetta. Gólfið var hörmulegt, og við hjónin fórum snemma að kalla það Terracrappa og ekki Terracotta. Þetta er búið að vera eitt af þessum óumræddu hlutum sem sum hjón hafa. Sum hjón minnast aldrei á meint hliðarspor annars aðilans, sum hjón tala aldrei um vandamál í svefniherberginu og svo framvegis, við kusum að tala aldrei um Gólfið og hvar sökin átti að liggja. Ég efast ekki um að Alex kennir mér alfarið um Gólfið. Ég hinsvegar hugsa einsog ólétt kona (þó ég sé ekki ólétt núna, það er bara svo gaman að nota ólétturökin) og hef ákveðið að kenna Ísraelsmönnum um. Ég held að ef þeir hefðu ekki látið svona ílla þá hefði flísalagningakunnátta allra Líbana verið miklu betri og þar með hefði gólfið mitt verið æðislega flott !

En nú tilheyrir það liðinni tíð, því við rifum gólfið (eða öllu heldur lyftum flísnum upp þar sem þær riðluðu hér og þar) og í dag var fenginn smiður (alvöru smiður frá Stokkhólmi sem hefur aldrei upplifað annað en bein og jöfn gólf og hefur því sama gildismat og við á þeim punkti) og parkettið lagt. Íbúðin er unaðsleg, gólfið er fullkomið og loksins er ég ánægð. Er samt smá fúl útí Ísraelsmenn, mig langaði í flísar.....

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl

Þú ert snillingur..ég er búin að vera í kasti yfir lestrinum! ...Geymdirðu annars ekki eina flís?..svona til minningar??

knús elskan! 

Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl, 17.7.2007 kl. 20:44

2 Smámynd: María Tómasdóttir

Jú jú, við eigum nokkrar terracrappa flísar eftir. Sem við munum samt aldrei tala um! 

María Tómasdóttir, 17.7.2007 kl. 20:48

3 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Hvað? áttu heima í Svíþjóð eða flaug þessi smiður frá Stokkhólmi

Gunnar Helgi Eysteinsson, 17.7.2007 kl. 22:16

4 Smámynd: María Tómasdóttir

Nei ég bý í Stokkhólmi.

María Tómasdóttir, 17.7.2007 kl. 22:25

5 identicon

Mig langar að sjá myndir af nýja flotta gólfinu!

Og hvenær eigum við að grilla?

Stína 19.7.2007 kl. 23:02

6 Smámynd: Erna Lilliendahl

Til lukku með gólf flötinn og lengi lifi parketið!!!

Erna Lilliendahl, 20.7.2007 kl. 00:03

7 identicon

Hæ skvís  Þú ert og verður alltaf snillingur. Það er ekkert lítið skemmtilegt að lesa bloggið þitt. Þú ert einfaldlega frábær penni. Ég hlakka geðveikt til að koma til þín í september og fá að hlæja með þér "life".

Knús og kossar frá fróni........ Heiða

Heiða 21.7.2007 kl. 00:17

8 Smámynd: Halla Rut

Gaman að lesa skrif þín. Þú ert góður penni og skrifar skemmtilega.

Halla Rut , 21.7.2007 kl. 17:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband