1.8.2007 | 06:50
Vegas baby !
Ég er grasekkja þessa viku og næstu. Hvaðan kemur þetta orð, grasekkja? Á ég að borða gras á meðan maðurinn minn er ekki heima? Á ég að sitja úti á grasinu og bíða eftir því að hann snúi heim? Ég átta mig ekki á þessu orði, ef einhver á góða útskýringu má hinn sami koma því áleiðis til mín. Ég skil ekki.
Allavega, Alex er í Las Vegas á námskeiði, annað árið í röð sem þetta lífsnauðsynlega (???) námskeið er haldið í Las Vegas. Einhvernveginn læðist að mér sá grunur að ef námskeiðið væri haldið td. á Færeyjum væri það kannski ekki alveg eins ótrúlega mikilvægt að fara. Og hann myndi eflaust ekki fara heilum 4 dögum áður en námskeiðið hefst, "bara svona til að undirbúa mig og þannig skiluru." Það var reyndar frekar skondið að fylgjast með undirbúningnum að þessu námskeiði, þeir eru 4 félagarnir sem fara saman, og í 3 vikur áður en haldið var af stað gekk síminn rauðglóandi á milli þeirra. Samtímis reyndi Alex að sýna mér smá umhugsun, hann hélt eflaust að ég væri afbrýðisöm. Sem ég vel að merkja er ekki, júlí í eyðimörkinni er ekki neitt sem heillar mig neitt sérstaklega. En allavega, hann áttaði sig samt á því að mig langar líka til að gera eitthvað skemmtilegt og hann vildi ekki sýna OF mikla gleði, just in case. Svona voru dagarnir áður en hann fór:
A: Ooooooo, nú þarf ég að fara að fara á þetta námskeið bráðum. Ooooooo, það verður SVOOOOOOO leiðinlegt (smá stuna og andvarp)
M: Heldurðu ekki að þú eigir eftir að skemmta þér vel, fara í casino og svoleiðis?
A: Nei, ætli þaaaaaaaaað..... Ooooooo, þetta verður bara svooooo leiðinlegt (meiri andvarp, en ég sá glampan og dollaramerkin í augunum).
Svo hringir síminn enn einu sinni og einn af félögunum tilkynnir að hann sé sko búinn að vera að gúgla og að það séu hvorki meira né minna en 7 (!!!) sundlaugar á hótelinu. Alex tapar sér af æsing, hugsar sig svo um og hóstar eitthvað um að honum finnist hvort sem er alveg glatað að synda (hann var júníor meistari í sundi......)
Strákahópurinn sem undirbjó sig í ferðina til Disneyland allra karlmanna minnti mig á sjálfa mig þegar ég var ca. 15 ára, þegar það var hringt í vinkonuhópinn á 5 mín. fresti til að ræða geysilega mikilvæg mál einsog td. stráka, föt og söngvara/leikara sem maður var ástfanginn af. Það var virkilega fyndið að fylgjast með þeim, í 4 daga fyrir brottför snérust símtölin allra helst um það hvað ætti að taka með sér af fötum ("en sko, bara stuttbuxur og bolir eru kannski ekki nóg, hvað ef það er svona "dresscode" á einhverju kasínóinu? Geturðu gúglað það?").
Hann hringdi fyrst frá Philadelphia þar sem þeir millilenntu, og þá voru þeir félagarnir búnir að sporðrenna sitthvorri "Philly Steak" sem er vísst eitthvað kólesteról dæmi. Lýsingarorðin rigndu yfir mig, og bara til að stríða honum hvíslaði ég með mikilli mæðu "já en gaman, við Tumi vorum að borða makkarónur". Smá þögn. "Æi, þetta var kannski ekki neitt svooo gott sko, kjötið var eiginlega frekar þurrt" (smjatt smjatt, munnvatn sem lekur, meira smjatt).
Svo var hringt frá Vegas, og þá gleymdi hann allri tillitsemi, slík var geðshræringin. "Elskan, hæ, sko, veistu hvað (hér var aðeins stoppað til að anda í hálfa sekúndu), ég bara rétt settist við eitt borðið og svo var ég búinn að vinna 250 dollara, fattaru (hér fylgdi nákvæm lýsing af hvaða hönd hann hafði verið með og að í póker er þetta rosalega flott hönd og hann bara VISSI að nú myndi hann aldelis vinna, aðeins stoppað til að anda aftur), heyrðu annars, ég verð að þjóta, Gunnar er að fara að spila líka......"
Auðvitað uni ég honum þetta, ég veit að hann skemmtir sér rosalega vel, og þetta námskeið er örugglega svolítið mikilvægt. Eða allavega ekki algjör tímasóun. Það er allavega á hans sviði, þetta námskeið. En þar sem ég sit heima með Tuma sem er gjörsamlega að tapa sér í "terrible two´s" skeiðinu (svakalega gaman að þessu), og Davíð sem vex svo ört að hann verður fluttur að heiman fyrir jól held ég, og matarlystin er eftir því, við erum að upplifa vætusamasta sumar í mannaminni, verð ég að gera eittvað til að lyfta mér upp. Og þá stríði ég honum smá. Og dunda mér við að senda honum meil með innkaupalistum.
Og ég fæ Victoria Secret´s Body splash þegar hann kemur heim, la la la la la, hann má alveg fara til Vegas. Það er líka minni þvottur á heimilinu á meðan hann er burtu!
Athugasemdir
Maja mín...ég efast ekki um að við eigum einhvertíma eftir að fara saman á svona "námskeið"....örugglega húsmæðraskóli þarna í Vegas sem við gætum nælt okkur í aukna þekkingu á heimilisstörfunum ( eða þannig )...
Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl, 1.8.2007 kl. 11:26
Erla mín, ég var einmitt að lesa um námskeið í bakstri og hreingerningum sem verður haldið í Mall of America. Þurfum við ekki að læra meira???
María Tómasdóttir, 1.8.2007 kl. 15:07
Svo lengi lærir sem lifir...við þurfum pottþétt að fara á þessi námskeið...Sá líka eitt mjög fróðlegt námskeið í baðhreingingartækni á Bahamas núna í haust...
Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl, 2.8.2007 kl. 22:04
Hvar get ég skráð mig á það ??
María Tómasdóttir, 2.8.2007 kl. 22:17
www.bahamascleaningclub.com
ekki klikka á "basic course" þegar þú ferð inn á síðuna, heldur "advanced course". "Basic couse" er bara fyrir barnlausa og þá sem búa ennþá hjá mömmu sinni..
Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl, 3.8.2007 kl. 09:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.