5.8.2007 | 21:27
Blóðþyrstur morðingi vs. hormónar
Ég var að hugsa um þetta með hormónana um daginn. Nú er ég búin að vera annaðhvort ólétt, nýbúin að eiga, eða föst í mjólkurþokunni í tæp 3 ár. Það er langur tími. Hormónarnir geta gert frekar ljúfa konu að algjörri Grýlu, og ég neita því ekki að ég hef verið skapstór á köflum þessi ár. Hormónasullinu er kennt um allt, en ég veit að einn góðan veðurdag get ég ekki notað þá afsökun lengur, og þá á Alex kannski eftir að átta sig á að ég ER bara svona....
En hormónarnir geta líka komið manni í smá klandur. Einsog þegar við fjölskyldan fórum í smá leiðangur, ég var kas kas kas (já, maður getur verið óléttur og svo MIKIÐ óléttur og ég var definately það seinna þann daginn) og enduðum í verslun sem var nýbúið að opna. Verslunin heitir Media Markt og er eitthvað þýskt skrímsli sem selur ALLT sem tengist rafmagnsvörum og svoleiðis. Ég átti semsagt ekkert erindi þangað, en Alex hafði dreymt um þessa búð svo lengi að ég lét mig hafa það. Á meðan hann vafraði um og fékk hvert kastið á fætur öðru yfir öllum þessum snúrum og tækjum var Tómas farinn að verða frekar pirraður í kerruni sinni svo ég fór og fann sjónvarpstækjadeildina, og þar var verið að sýna uppáhaldsmyndina "Cars" á 50" plasma sjónvarpi. Frábært, ég bruna þangað og strákurinn róast strax.
Ekki var samt Adam lengi í Paradísi, allt í einu upplifum við sólmyrkva þarna inni í búðinni. Ímyndið ykkur Esjuna í leðurjakka, og þá sjáið þið fyrir ykkur flykkið sem birtist. Maður (ef mann skal kalla, þetta minnti frekar á naut á sterum) kemur gangandi, stynur eitthvað um plasma sjónvörp, og stillir sér svo beint fyrir framan mig og drenginn, skyggir á gjörvallan sjónvarpsskerminn, og stendur bara þarna. Ég endurtek: beint fyrir framan mig og drenginn. Tómas verður strax ókyrr á ný þar sem hann hafði ekki hugsað sér að stara á eitthvað ofvaxið hné, og ég bókstaflega finn hvernig blessuðu hormónarnir nálgast suðumarkið. Ég reyni að leggja smá hömlur á skapið og ræski mig all hressilega, en það hefur væntanlega ekki náð til eyrana á bolanum, fyrir allri hnakkafituni. Svo að ég geri það eina rétta í stöðuni, ég kippi í kerruna og undirbý brottför okkar, og segi hátt og snjallt við 1,5 ára son minn eitthvað um ókurteysi, einkarétt á plássi bara vegna þess að maður er byggður einsog tveggjahæða hús, og eitthvað fleira með algjöru "attitúdi" í röddini. Svo strunsa ég af stað. Eða sko, ég kjaga af stað en reyndi að kjaga með svona strunsi. Sé Alex nokkrum metrum frá og kalla nógu hátt til hans til að Flykkið heyri "helvítis dónaskapur í fólki, barnið okkar má ekki sitja í friði og horfa á sjónvarpið, það er nú ekki einsog það vanti plássið hérna" og set nefið upp í loft.
Þá sé ég hvernig maðurinn minn (sem er svosem ekkert af minni gerðinni heldur) fölnar upp, bendir mér að þegja og gerir alls kyns merki út í loftið sem áttu að segja mér að halda KJ. En hormónarnir voru búnir að ná völdum, ég hélt áfram að rífast og skammast yfir frekjuni í Flykkinu og kallaði hann nokkrum vel völdum nöfnum, og skammaðist svo aðeins í Alex fyrir að vera að sussa á mig, þetta var jú barnið okkar sem fékk ekki að horfa á Cars. Barnið ! Hugsaðum um barnið !! (Ólétta konan alveg að upplifa sig sem ljónynju á sléttuni í Afríku). Ég hlýt að hafa stoppað aðeins til að ná andanum, því einhvernveginn kemur hann því til skila að hann viti hver þessi maður sé.
Flykkið heitir vísst Mustafa (!!) og er frá Rúmeníu, og er einn af hættulegustu mönnum í undirheimum Stokkhólms. Það ganga ýmsar sögur um afrek þessa manns, og hann á sér vísst langann og litríkan frama innan "lem þig í klessu" geirans. Hann var kannski að leita að einhverjum rafmagnsgræjum til að auðvelda sér vinnuna, svona pyntingartæki eða eitthvað. Hvað veit ég, en Alex stóð þarna og svitnaði og stamaði og með titrandi röddu spurði hann hvort ég hefði sagt eitthvað við Flykkið. Ég játa því, og flissa eiginlega bara því mér fannst þetta allt frekar fyndið allt í einu. Ég meina, ég er 164 cm, komin 7 mánuði á leið og í laginu eftir því, og þarna er ég, Strumpurinn með magann, að rífa mig við einhvern blóðþyrstann rúmena. Mér fannst þetta alveg fáránlega fyndið, og fyndnast var að Alex var alveg viss um að ég væri dauðans matur.
Við sikk-sökkuðum í flýti að útganginum, og Alex lét einsog hann væri Bruce Willis í Die Hard. Ég beið bara eftir því að hann færi að kasta sér á gólfið og rúlla að næsta gangi, rífandi upp umbúðir og kastandi dóti til að villa fyrir Mustafa. Sem var svosem ekkert að elta okkur, en Alex þessi elska getur verið svolítið paranoid. Hann var alveg viss um að nú hefði skapið í mér loksins komið okkur í klandur, að Mustafa myndi ekki þola svona framkomu og uppsteyt á opinberum vettfangi, og krefðist hefndar. Hvort Alex ætlaði að fórna mér eða kannski hitta Mustafa úti á bílastæðinu veit ég ekki.
Ekki var hræðslan útaf yfirvofandi slátrun minni meiri en sú að Alex þurfti að kaupa eitthvað með snúrum, svo við stöndum í biðröð að kassanum þegar skugginn færist yfir okkur aftur. Mustafa mættur. Ég lít upp og mæti blóðsprengdum augum hans, verð að viðurkenna að hér varð ég kannski pínulítið stressuð.
"Stóð ég fyrir framan þig?" rymur hann. "Já, eiginlega fyrir framan son minn sem var að horfa á sjónvarpið" svara ég. Haldið þið ekki að morðinginn brosi, "fyrirgefðu" segir hann, blikkar mig og segir svo "þú ert ansi töff", og labbar svo burt.
Mér fannst þetta alveg æðislegt, en Alex heldur því fram enn í dag að ég hafi alveg eins getað orðið að hakkebuff þann dag. Ég minni hann þá á að Mustafa, "vini mínum í morðingjabransanum" finnist ég ansi töff.
Athugasemdir
hahahahahahahahahaha þessi er alveg mögnuð !
Ragnheiður , 5.8.2007 kl. 21:47
ha ha ha! ...Maja mín ...þú ERT töff. Var eiginlega farin að vorkenna rúmenska morðingjanum um miðjan lesturinn...hann vissi greinilega ekkert við hvaða konu hann var að díla!!
Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl, 5.8.2007 kl. 23:13
Þú ert mögnuð
Einar Bragi Bragason., 6.8.2007 kl. 02:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.