Alls kyns bull

Þetta gengur ekki lengur. Ég verð að fara að hitta fleiri fullorðna. Ég stóð mig að því í morgun þegar sonur minn var að horfa á morgunsjónvarpið að uppgvöta að Glanni Glæpur er rosalega fyndinn. Ég hló einsog vitleysingur að honum, og ekki leið á löngu áður en ég var farin að ímynda mér hvað það hlyti að vera gaman að þekkja hann. Og þá er ég ekki að tala um Stefán Karl, heldur Glanna.

Nú er aðlögunin í leikskólanum að baki, og sonur minn orðinn leikskólastrákur. Mér finnst að hann mætti alveg þykjast sem það sé leiðinlegt þegar ég fer frá honum á morgnana, en hann ýtir mér bara frá sér og hleypur af stað í bíló. Ég meina, halló ?!?!? Frumburðurinn og fyrsti alvöru aðskilnaðurinn, og hann hleypur bara af stað og eftir stend ég, voteygð og hrærð yfir þessu öllu saman. Jæja, það er ennþá smá von með þann yngri, kannski að honum eigi eftir að þykja það smá leiðinlegt þegar mamma hans setur hann á leikskóla....

Eitt fór ég að hugsa um á meðan við vorum þarna í aðlöguninni á hverjum degi, og það er þetta með tungumálin. Ég hef alltaf og engöngu talað íslensku við Tómas, það er eina vonin til að hann læri tungumálið okkar, og það er mér rosalega mikilvægt að svo verði. En það hefur líka þýtt nokkur frekar skondin atvik. Einsog þarna á leikskólanum, ég þurfti að skreppa afsíðis einn morguninn og útskýri það fyrir honum að nú þurfi ég aðeins að skreppa frá, "mamma ætlar bara að pissa, svo kem ég." Allt í lagi með það svosem, nema að fóstran horfði frekar undarlega á mig og þegar ég labba fram man ég það að "pissa" á sænsku er frekar gróft orð, svipað einsog að tilkynna barninu sínu að nú sé mamma að fara að míga... Ekki skrítið að fóstran hafi undrast aðeins. Svo gerðist það einusinni þegar hann var rúmlega árs gamall, að við vorum stödd saman á kaffihúsi og borðið okkar var orðið sérstaklega sóðalegt. Ég fer aðeins að ganga frá og hjala við hann "subba ertu, voðalega getur þú verið mikil subba, já, subba subba subba" og svo framvegis. Það var glápt á mig úr öllum áttum, og þá meina ég að fólk glápti. Ég hugsa að sjálfsögðu að það hljóti að vera af því ég er með svo ótrúlega fallegt barn, brosi smá til aðdáendana og held áfram "já, hver er litla subban hennar mömmu sinnar, subba subba subba ertu, já, þú ert bara subba". Pakka öllu saman og labba af stað, og man það að "subba" á sænsku er virkilega ljótt orð yfir hórur. Ég var semsagt að kalla son minn hóru, og það margoft meira að segja. Ehhhh, obbosí....

Frægasta atvikið hef ég nú reyndar sagt frá áður, en það má alveg endurtaka. Tómas fékk útbrot yfir allt bakið og magann, og ég hafði smá áhyggjur af þessu. Talaði við mömmu um þessi útbrot og okkur kom saman um að tala við lækni, svo ég hringi á læknavaktina. Svissa semsagt yfir á sænsku þegar ég hringi þangað, einhver hjúkka svarar og ég kynni mig og segi "min lilla son har utbrott" og að ég hafi áhyggjur. Það er bara það að "utbrott" á sænsku er ekki útbrot, heldur er það brjálæðiskast. En af því að það heyrist ekkert á framburði mínum að ég sé í raun útlensk hélt konan bara að ég væri svona rugluð og væri að hringja útaf frekjukast í barninu. Ég tala og tala og masa og masa og segi henni að hann sé með frekjukast og að ég hafi bara aldrei séð svona frekjukast áður og að mamma mín hafi ekki heldur séð svona frekjukast áður og að kannski sé hann bara með eitthvað ofnæmi fyrst hann fái svona frekjukast og að ég viti bara ekkert í minn haus og hvort að það sé ekki bara best að fara á bráðavaktina og láta lækni athuga þetta með frekjukastið.... Ég roðna þegar ég hugsa tilbaka, hvað ætli hjúkkan hafi haldið ???

Svo var það pabbi þessi elska, sem ætlaði að kalla okkur systkinin inn þar sem Snoopy var að byrja í sjónvarpinu (mörg ár síðan þetta gerðist), en á sænsku heitir sá karakter "Snobben". Pabbi stóð á svölunum og galaði "Maja, Breki, kom kom, titta på (=horfa á) snoppen, vi skall titta på snoppen nu". Ekki snoBBen heldur snoPPen.

Það þýðir typpi....


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl

Þú ert óborganleg elskan mín.. Voru þið annar ekki þekkt sem "skrýtnu Íslendingarnir"???? Hlýtur eiginlega að vera...allavega innan læknastéttarinnar..

Ég man líka eftir því þegar Mummi sagði okkur frá Íslending sem ætlaði að hafa samband við sjúkrasamlagið í Svíþjóð ( eins og það hét hérna í gamla daga ) . Hann var ekki alveg með þetta á hreinu og hringdi og bað um sjukklingesamlaget ( ókei, ég veit ekkert hvernig það er skrifað á sænski...bear with me ). En allavega þá varð konan á símanum eitthvað voða skrýtin og gaf honum samband við landbúnaðarráðuneytið. Þar kom í ljós að hann var að biðja um upplýsingar er varða kjúklingasamfarir...

Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl, 30.8.2007 kl. 11:08

2 Smámynd: María Tómasdóttir

Erla mín, mikið rétt, við vorum "skrítnu útlendingarnir". Mömmurnar í hverfinu höfðu áhyggjur af þessu mikla typpaglápi sem pabbi stóð fyrir heima hjá okkur !!

Sjukklingesamlaget, einmitt það já !! Samlag = samfarir á sænsku, þetta hefur oft þótt mikið grín.

María Tómasdóttir, 30.8.2007 kl. 11:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband