1.11.2007 | 21:16
Kærleikur
Ég hef rosalega gaman af því að fylgjast með strákunum mínum, bræðrunum, vinunum, elsku litlu köllunum mínum. Tómas er orkumikill og kröftugur, hann geysist hér um í bíla-og lestarleikjum og sviðsetur hin óskaplegustu slys með klessuhljóðum, ískri og tilheyrandi skransi í farartækjunum. Hann er upp á hlutum, undir þeim, klifrandi og ýtandi stólum að eldhúsbekknum til að sulla aðeins í vaskinum. Honum dettur ótrúlegustu hlutir í hug, fyrr í kvöld var hann allt of þögull í smá stund svo ég þorði ekki annað en að rannsaka, og þá var hann búinn að klæða sig úr öllu og stóð allsber, búinn að príla ofan í stígvél sem ná mér upp að hnjám, honum upp að mjöðm. Ekki hafði honum þótt þetta alveg duga, því hann sveiflaði handtöskunu minni sem hann hafði hengt utan um hálsin á sér, og var kominn með Spidermann húfu eldri bróður síns. Kostuleg sjón.
Hann er upprennandi leikari held ég, með alls kyns stæla og takta, og ekki vantar dramatíkina í hann. Hann er svona persóna sem upplifir hlutina með fullum styrkleik, hann er annaðhvort ótrúlega glaður eða ótrúlega leiður, enginn getur grátið einsog hann þegar honum finnst gengið á sinn hlut. Hann verður svo sááááár. Hann getur líka orðið hrottalega reiður, og þá má alveg búast við kinnhest. Alex greyið verður fyrir reglulegum barsmíðum, en Tómas leggur sjaldan í mig af sama afli. Svo getur hann af sama krafti elskað mann í tætlur, hann kemur stundum þjótandi að mér, kastar sig á mig, grípur um andlitið mitt og öskrar "MAMMA", smellir einum föstum og blautum kossi á mig og þýtur svo af stað. Svolítið einsog að hafa lennt í kærleiksfellibyl þegar hann vill elska mann í smá stund. Oftast hefur hann þó hvorki tíma né áhuga á þannig ástarlotum, það er heill heimur sem þarf að uppgvöta og plokka sundur. Maðurinn minn segir að Tómas sé einsog Emil í Kattholti, og ég verð að vera honum sammála. Uppátækjasamur, prakkari og svolítið stríðin, rosalega mikill strákur, og einstaklega mikill sjarmör.
Davíð litli er svo algjörlega önnur útgáfa. Svo rólegur og blíður, glaður og bjartur. Tómas nennti aldrei að knúsast eða bara liggja í rúminu og hjala, hann fæddist reiðubúinn til að rannsaka heiminn. Davíð hinsvegar malar af ánægju og gleði þegar við kúrum okkur saman, hann leggur litlu hendurnar á mig og brosir einsog til að segja "ooooo hvað þetta er gott." Hann hefur alveg frá fæðingu sofið rosalega vel, lengi og vært. Hann er óskaplega þægilegur og rólegur, núna er hann farinn að geta haldið á einhverjum litlum hlutum og leikur sér að því að skoða, þefa, smakka og skoða aðeins meira. Þeir eru rosalega ólíkir í útliti líka, þó að það sé samt frekar sterkur svipur.
Eins ólíka menn og þessir tveir hafa að geyma, er alveg magnað sambandið þeirra á milli. Strax frá fyrstu stundu hefur Tómas verið yfir sig ástfanginn af bróður sínum, og aldrei í eitt einasta sinn hefur hann beint neinni reiði eða leiða að litla bróður sínum. Þvert á móti, Tómas getur stundum tekið sér augnabliks frí til þess eins að stökkva að Davíð, taka í höndina á honum og gæla aðeins við hann, og svo stekkur hann af stað aftur til að raða í bókahylluni minni (þar sem honum finnst greinilega alveg einstaklega hallærislegur staður til að setja bækur sem þar af leiðandi er oftast dregnar út og stúfað undir sófann...). Davíð er alveg eins, frá því að hann fór að geta fest augun hafa þau alltaf fylgst Tómasi, ef Davíð hlær upphátt er það eiginlega undantekningalaust að einhverju sem Tómas er að gera, og hann spriklar og hamast í ruggustólnum sínum þegar stóri bróðir hans æðir hér um í einhverjum að sínum leikjum. Mér finnst það svo falleg að fylgjast með þeirra samskiptum og þessu sterka bandi þeirra á milli. Það er einsog þeir tali saman á máli sem enginn annar skilur. Þeir virðast skilja hvorn annan.
Á morgun bíður okkar spítalaför með Davíð litla, nokkuð sem ég kvíði mikið fyrir. Og þetta vissi Tómas. Ég veit ekki hvernig hann vissi það, því það eru ekki nema nokkrir dagar síðan þetta kom upp á teninginn, og ég hef ekkert viljað hræða hann með því að ræða um lækna og annað við hann. En rétt áður en hann sofnaði í kvöld, lá ég við hliðina á honum uppi í rúmi og fór með bænirnar. Þá leit hann á mig og sagði "Mamma leið, Davíð lasinn". Ég vissi ekki hvað ég átti að segja og gat ekki ímyndað mér hvernig hann gæti hafað áttað sig á þessu. Ég svaraði játandi en sagði að það eigi að laga Davíð á morgun. Þá var einsog hann andvarpaði smá, brosti, hvíslaði svo "Davíð" og sofnaði.
Ég táraðist, og ekki í fyrsta sinn. Það er magnað að vera mamma þeirra.
Athugasemdir
Frábær frásögn :-)
Og gangi vel með Davíð. (Og þá báða raunar.)
Einar Indriðason, 1.11.2007 kl. 22:37
Elsku Maja mín, takk fyrir frábæran pistil og eins og ég sagði þér í bréfinu þá verður hugurinn hjá ykkur eftir hádegi í dag. Ég sendi ykkur alla þá hlýju strauma sem ég get bið að þetta fari á besta veg. Vildi að ég gæti faðmað þig núna...
Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl, 2.11.2007 kl. 08:39
Vona að allt hafi gengið vel elsku Maja og verð að hrósa þér fyrir hversu góður penni þú ert, bæði skemmtileg og fyndin, en líka hugljúf og rómantísk, stórkostleg blanda...
Erna Lilliendahl, 6.11.2007 kl. 09:16
Elsku Maja, vonandi gengur allt vel hjá ykkur. Endileg leyfðu okkur að fylgjas með.
Kveðja úr nýja húsinu okkar í Snægili.
Agga og Óli Búi
Agga frænka 16.11.2007 kl. 00:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.