6.2.2008 | 11:20
Lægðir og hægðir
Ýmislegt að gerast, og ýmislegt að breytast. Davíð snöggversnaði um helgina, svo að síðastliðnir dagar hafa farið í bráðamóttökuferð, símhringingar, þrýstilækkandi- og steradropa. Nú á að svæfa hann á föstudaginn til að athuga hvað er að, og ef til vill verður hann skorinn upp á ný. Svo er verið að setja okkur í samband við Sjónstöðina til að byrja allt það ferli, sem mér finnst mjög gott. Nú er um að gera að passa upp á hreyfiþroskan hans, en hann er aðeins farinn að vera seinn með vissar hreyfingar og þessháttar sem 9 mán gömul börn ættu að vera farin að þróa með sér. Hann vill ekki liggja á maga, þar sem hans sjónsvið er þrengri en í fullsjáandi börnum er það bæði tilgangslaust og etv hræðandi fyrir hann. Þar af leiðandi sýnir hann engan vilja til að byrja að skríða, en við eigum að fá samband við m.a. sjúkraþjálfara sem hjálpar okkur að æfa hann, og kenna honum að hreyfa sig. Við bíðum eftir svari frá Tryggingarstofnun varðandi umönnunarbætur, og læknirinn hans er búin að skrifa bréf til að ýta á það.
Við ætlum að fresta húsnæðiskaupum, af ýmsum ástæðum en fyrst og fremst vegna þess að það er einfaldlega nóg sem á okkur hvílir einsog stendur. Auðvitað eru það vonbrigði, en það er ekkert hægt að gera annað en að vera raunsær og ganga í þau mál sem eru meira áríðandi. Hús má alltaf kaupa, og við frestum þessu bara tímabundið, þangað til að Davíðs mál eru komin af stað og við erum búin að átta okkur betur á hlutunum. Heimferð í sumar er óbreytt, enda verður maður að hlakka til einhvers !!
Tómas heldur áfram að vera ótrúlegur gleðigjafi og sprelligosi. Hann fylgist með bróður sínum og sprettur upp til að slökkva á öllum ljósum ef hann tekur eftir því að Davíð lútir höfði eða pirrast af birtuni. Það er undursamlega fallegt að sjá þessa ást þeirra á milli blómstra.
Nú gengur allt út á kúkamál og ýmiskonar viska dettur upp úr Tómasi... Hann staðhæfðir það að í hvert mál sé þeim eldaður kúkur á leikskólanum (í gær var það víst kúkasúpa !!), og svo hneggjar hann þessum líka hrossahlátri af gleði yfir þessari kímni sinni. Hmmmmm, eitthvað finnst mér nú þetta ekki vera neitt sérstaklega fyndið, en svona er þessi aldur.
Úti rignir og ekkert bólar á neinum vetri. Ég er ansi þreytt á þessu, þó ég þakki fyrir að losna við hálkuna. Þar sem ég er víðsfæg fyrir klaufaskap og brussugang á ég það til að lenda í ýmsum misskemmtilegum atvikum í hálku, einsog til dæmis í fyrra þegar ég (kasólétt) flaug niður brekku, baðandi út höndunum, komin á dágóðan hraða. Neðst í brekkuni stóð einhver vesalings maður sem ætlaði að gera góðverk dagsins og grípa í mig, en áttaði sig of seint á því að hér væri á ferð óléttur flóðhestur sem komin var á ágætis ferð... Hann stóð gleiður og hress og náði að vísu að draga úr hraðanum á mér, en datt sjálfur fyrir vikið. Ég var svo sver og þung að ég datt ekki heldur snarbremsaði þarna á jöfnuni neðst í brekkuni, og aumingja maðurinn gat ekki annað en skellihlegið, sagði að það hefði verið með því fyndnasta sem hann hafði séð þegar ég kom skautandi niður brekkuna !!
Bíð upp á 3 myndir til að þið hafið eitthvað skemmtilegt að horfa á !
Athugasemdir
Æi... þetta var nú verra að heyra með hann Davíð. Vonandi lagast þetta hjá honum, án mikils vesen. (En, ég glotti samt pínulítið að sjá fyrir mér renniríiið niður brekkuna hjá þér :-)
Einar Indriðason, 6.2.2008 kl. 13:04
Elskan, hugurinn ber þig hálfa leið (heim). Það er leitt að heyra af Davíð, en vonandi verður þetta til þess að hann nær bata hraðar en ella og allar myndirnar eru gullfallegar, en í uppáhaldi er nú sú síðasta, fátt jafn yndislegt og sofandi börn ;)
Erna Lilliendahl, 6.2.2008 kl. 19:16
Það verður allt í lagi elskan mín. Þetta tekur bara tíma ( og þú veist hvað ég er að tala um ) ég hugsa til ykkar á hverjum degi. Knús elskan mín og reyndu að láta saklausa borgara í friði ( lærðir þú ekkert á því að ráðast á Colin Powell??? ) love you!
Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl, 6.2.2008 kl. 22:39
Einar, takk fyrir það. Já, það má alveg glotta yfir þessum brussuskap í mér !
Erna, þú ert svo ljúf! Og já, strákarnir mínir eru dásamlegastir þegar þeir sofa !!
Erla ! Sko, ég er þó allavega farin að lumbra á óbreyttum borgurum núna. Eftir þínar raunir í fyrra er ég hrædd um að lenda í Guantanamo ef ég held áfram að ráðast á Powell. Knús til þín líka !
Auður, það er svo satt sem þú segir, svona er ástin !
María Tómasdóttir, 8.2.2008 kl. 19:25
þetta blessast allt saman
Einar Bragi Bragason., 11.2.2008 kl. 23:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.