18.2.2008 | 19:33
Einkennisbúningar og broddar
Góð helgi að baki og ágætis vika framundan. Á laugardaginn var dútlað og gengið í ýmiskonar verkefni, og einnig farið í búðarráp í Farsta Centrum sem er hér rétt hjá. Meðal annars var komið við í leikfangabúð þar sem Tómas var að fara í afmæli til Zoey bestu vinkonu daginn eftir. Hann átti að fá að ráða sjálfur hvað ætti að gefa henni. Aðspurður vildi hann helst af öllu gefa henni kúk... Ég er að verða svolítið þreytt á þessu..... Að lokum valdi hann My Little Pony handa henni, mér til mikillar gleði þar sem ég fattaði það þarna í búðini að ég kann alls ekkert að kaupa handa stelpum !!
Á sunnudeginum var byrjað á því að fara á hitting, en Íslendingafélagið var með sitt hefðbundna barnastarf. Mjög ánægulegt allt saman, og gaman fyrir strákana mína að fá að komast í kynni við önnur íslensk börn. Það var auðvelt að sjá hvaða börn í hópnum á leikvellinum væru íslensk, því þau voru eiginlega öll merkt Íþróttaálfinum eða Sollu Stirðu á einhvern hátt; gallar, húfur, vetlingar, peysur, eða stígvél. Einkennisbúningar fyrir íslensk börn. Svo var farið inn til að fá sér kaffi og kökur, og þá áttaði ég mig á því að á þessum árum sem hafa liðið síðan ég flutti frá Íslandinu góða er greinilega búið að kynna einkennisbúninga fyrir fullorðna íslendinga. Ég held að 75% af fólkinu hafi verið í nákvæmlega eins flíspeysum frá Cintamani. Greinilegt að við erum og verðum sama dellufólkið. Að vísu eru svíarnir ekki neitt mikið betri, maður hálf skammast sín ef börnin eru ekki í Polarn och Pyret fötum frá toppi til táar.
Ég hef rosalega gaman af því að hitta aðra íslendinga hér í Stokkhólmi, gaman að tala við skemmtilegt fólk og fá fréttir að heiman. Samt er langt síðan ég hætti að líta á mig sem íslending í útlöndum, ég er bara Maja og ég bý hér en er frá Íslandi. Ég sakna Íslands ofboðslega mikið, eða öllu heldur, ég sakna allra þeirra góðu vina og vandamanna sem ég er svo heppin að eiga að heima. En ég er líka mjög sátt við að búa hérna. Eftir að hafa flutt nokkru sinnum á milli landa í leit að hamingju, þá fann ég það að lokum að það er ekki staður á landakorti sem ég var að leita að, heldur tilfinning innra með mér.
Mér hefur samt alltaf þótt það fyndið hvað maður verður ofsalega mikill föðurlandssinni þegar maður er erlendis. Ég fór til dæmis bara í eitt einasta sinn á Þorrablót þegar ég bjó heima, en hér sækir maður öll Þorrablót samviskusamlega, og pínir ofaní sig alls kyns ógeð, syngur "Fósturlandsins Freyja" og tárast smá. Öllu má nú samt ofgera, ég veit um eina konu sem bjó hér í tvö ár og lét senda sér SS pylsur með fleiru allan þann tíma vegna þess að pyslurnar eru bestar heima.... Eins finnst mér það merkilegt fyrirbæri þegar maður eltist við alla íslendinga sem maður getur haft upp á til að eignast sem flesta vini, í stað þess að kannski nota tækifærið og kynnast landinu sem maður býr í. Mín reynsla eftir öll þessi ár erlendis hefur allavega verið sú að þessar vináttur eiga það ekki til að endast, þeim lýkur eiginlega alltaf þegar heim er komið á ný. Þetta á að sjálfsögðu ekki við um alla, en er samt nógu algengt fyrirbæri að ég varð að minnast á það !
Af mér er það helst að frétta að ég lít út einsog fáviti. Þannig er mál með vexti að eftir að ég eignaðist Davíð bankaði óhamingjan að dyrum. Ég lenti í því hræðilegasta hárlosi sem sögur fara af, og því virtist aldrei ætla að linna. Að lokum var ég með nákvæmlega 7 hár eftir, og 3 þeirra voru orðin grá. Nú bryð ég vítamín og sturta í mig lýsi einsog ég eigi lífið að leysa, og það er að hafa þessi líka áhrif. Hárið á mér sprettur upp úr skallanum einsog illgresi, en fyrir vikið er ég eiginlega komin með tvær mismunandi hárgreiðslur. Annarsvegar er ég með sítt hár, en hinsvegar er ég með brodda. Svolítið líkt þessari "mullet" greiðslu (sítt að aftan og stutt að ofan) sem hefur ekki verið í tísku síðan 1984. Og það er ekkert hægt að gera við þetta, broddarnir standa beint upp úr hausnum mínum og ég get ekkert við þetta hafist !! Einsog það væri ekki nóg... Í morgun uppgötvaði ég það að ég var ansi föl sökum sólarleysis í langan tíma. Mín kann nú ráð við flestu, og smurði sig alla með Dior brúnkukreminu æðislega. Hugsaði með mér að ég myndi bara draga athyglina frá fáránlega hárinu með því að vera sjúklega flott og hraustleg í framan. Svo ætlaði ég aðeins að svæfa Davíð og hafði hugsað mér að nota tímann til að plokka og raka ýmislegt á meðan, fyrst ég var komin í þennan gellugír á annað borð. Hvað haldið þið ?? Ég steinrotaðist þarna í rúminu við hliðina á Davíð, og er RÖNDÓTT í framan !!! Röndótt, með einhverja klessu á nefinu sem gerir það að verkum að ég lít út fyrir að hafa ekki komist nálægt vatni í 12 ár.
Breki bróðir er í Teheran, af öllum stöðum. Ég verð að viðurkenna heiftarlega afbrýðisemi, finnst það rosalega töff og framandi að hafa komist til Teheran. Hann hringdi áðan og var hinn hressasti, sagði sig vera milljónamæring þar sem þesslenskur gjaldeyrir er hinn undarlegasti. Hann hafði borgað fleiri hundruð þúsunda rial fyrir eina kókdós áðan, en það var samt ekki nema ca. 60 íslenskar krónur. Hann hafði skipt einum 100 Euro seðli áðan, og fékk hvorki meira né minna en 48 mismunandi seðla á móti, og gengur um með þvílíka seðlarúllu í vasanum núna. Honum fannst það rosalega flott tilfinning að vera með svona marga seðla !! Annars hafði hann borðað á McDonalds í hádeiginu, og verslað í H&M, svo þetta hljómar nú ekki alveg eins framandi og ég ímyndaði mér... Tímamismunurinn finnst mér líka alveg stórkostlegur, en það eru ekki þessir hefðbundnu 2 tímar, heldur 2,5 klukkustundir á milli hans og mín. Hvaðan kom þessi hálftími ??
Davíð er líka hress og kátur, og tekur lyfjunum sínum vel. Hann er að vísu hálf furðulega útlítandi núna, en ein af þessum lyfjategundum hans hefur stundum það í för með sér að augun skipta um lit. Hann er núna með eitt ljósblátt auga, og eitt dimmblátt auga. Mjög flott finnst mér. Svo eru þessir sömu dropar að gefa honum augnhár sem flestallar konur myndu hæglega fremja morð fyrir, þvílíkir burstar sem eru komnir á augnlokin !! Við erum að tala um 10 cm löng og þykk svört hár. Hann er sjúklega fallegur með þetta svona !!
Athugasemdir
Þú ert svona alvöru bloggari, fullt af skrifum og fréttum, fyndið og hjartnæmt, gleðilegt og athyglisvert. Þú ert að standa þig!!!!
Risa súrs slátur kveðja að heiman ;)
Erna Lilliendahl, 18.2.2008 kl. 20:13
Æi takk elsku Erna mín, alltaf hefur þú eitthvað fallegt og peppandi að segja.
En þú mátt alveg eiga súra slátrið.... Það eru mörk fyrir fósturlandsástini...
María Tómasdóttir, 18.2.2008 kl. 20:20
hehe, get ekki sagt að ég sé aðdáandi heldur, en sendi þér eina með öllu frá Bæjarins bestu í huganum :)
Erna Lilliendahl, 18.2.2008 kl. 20:40
Oooo, nammi namm !!
María Tómasdóttir, 18.2.2008 kl. 20:43
Heyrðu, næstu skref eru að fá bleikan krumpaðan jogging galla, hárband, grifflur, leggins, og hvað ... Millet úlpu?
Spila svo Wham og/eða Duran Duran, þar til nágrannarnir kvarta.....
Einar Indriðason, 18.2.2008 kl. 21:44
Ég held ég eigi þetta allt saman einhversstaðar. Og ég var alltaf Wham stelpa. Mér til mikillar ánægju eru næstu nágrannar okkar ca 134 ára gamlar kellingar sem misstu heyrn einhverntíman á síðustu öld, svo hér verður sko spilað í botn !!!
María Tómasdóttir, 18.2.2008 kl. 22:13
Ekki örvænta - hárið kemur aftur... Reyndar tók ég upp á það ráð að snoða mig - og ég var ekki einu sinni að missa hárið á þeim tíma...uhh...merkilega flott kíví samt. Bara hundleiðinlegt að safna aftur Líst vel á það þú tjúnir bara upp Whammið og dansir í stofunni með allt í botni...það hjálpar mér alltaf...
Knús
Ausa
Auður 19.2.2008 kl. 10:13
Þetta var alveg snilldarfærsla ...og takk fyrir spjallið í dag. Þú ert algjört yndi
Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl, 19.2.2008 kl. 21:29
p.s átt nokkuð mynd af þér með mullett hárgreiðsluna??...og já WHAM var miklu betri en Duran Duran...
Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl, 19.2.2008 kl. 21:33
Ausa mín, nú vil ég fá að vita hvort kom fyrst, þú eða Britney ??
Erla, takk fyrir spjallið sömuleiðis. Og nei það er ekki til mynd, ég festist ekki á filmu svona útlítandi !! Auðvitað var Wham betra !!!!!!!!!
María Tómasdóttir, 22.2.2008 kl. 07:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.