Sólargeislar í rigningu

Hingatil hefur þetta verið óskaplega vætusamt og hálf leiðinlegt sumar. Við höfum þessvegna hangið frekar mikið heimafyrir, rútínan er ekki alveg komin í gang ennþá eftir komu litla krílis en við reynum af bestu getu að dunda okkur saman og gera eitthvað sniðugt á hverjum degi. 

Það er ekki hægt að kalla dagana okkar leiðinlega, stundum erfiða og oft þreytandi, en leiðinlegt er það ekki. Ég get hinsvegar verið frekar leiðinleg finnst mér, þreytt og oft stressuð, með þá tilfinningu hangandi yfir mér að ég nái aldrei að fyllilega gera það sem ég ætlaði mér, né gera það eins vel og ætlunin var. Ég er td. búin að láta mér detta í hug ca 45 sniðugar og að mínu mati áhugaverðar og barasta ansi fyndnar blogfærslur, en þegar sá elsti er sofnaður á kvöldin er ég komin með bæði heilateppu og puttaharðlífi....  

Stundum finnst mér einsog hver dagur sé ekkert nema hálf volg endursýning af deginum áður, þvotturinn virðist aldrei bara fylla þvottakörfuna heldur er einsog eldgos inni á baðherbergi með skítugum fötum allsstaðar, maður er annaðhvort að tæma eða raða í uppþvottavélina, með litla hangandi framan á mér og þann stærri að þvælast fyrir fótunum á mér. Og ég er ekki ein af þessum húsmæðrum sem eru stífmálaðar og ógeðslega happí allan daginn, ó ekkí. Ég er í frekar lummó innibuxum, oftast með hárið í tagli, sjaldan máluð og ekkert neitt sérstaklega happí. Ég hlakka til að þessu 3ja mánaða tímabili líkur, þegar sá minnsti er ekki alveg eins brothættur, þegar sá eldri er farinn á leikskólann og ég get séð fram á að komast ferða minna aðeins meira.

Nei, ég er ekkert skemmtileg akkúrat núna, og stundum er ég alltof óþolinmóð og grá í skapinu. En svo gerist allt í einu eitthvað til að snúa hlutföllunum við og koma þeim á réttan stað aftur, einsog sólargeisli sem brýtur sig í gegnum dökkt skýið. Einsog um daginn, þegar maðurinn minn gerði nokkuð svo einfalt og í raun ómerkilegt en á sinn einlæga og yndislega hátt, að ég varð bálskotin í honum alveg upp á nýtt. Allt í einu hvarf gráa þokan sem hafði hangið yfir þreyttu höfði mínu í marga daga, og ég áttaði mig á því að þakka fyrir það sem ég hef í staðin fyrir að kvarta yfir því sem ég hef ekki.  (Verð samt að viðurkenna að ég hef ekki orku í að skrifa þessa brjálæðislega fyndnu færslu sem hefur verið í fæðingu hjá mér í rúma viku.... )

Stundum er gott að aðeins stoppa og líta í kringum sig (gjarna þá passa sig að vera ekki nálægt þvottakörfuni sem gýs fötum útum allt), og kannski aðeins slaka á kröfunum. Ég veit ekki um neinn sem hefur dáið útaf smá drasli eða ótæmdri uppþvottavél. Ég veit hinsvegar um einn 2ja ára strák sem varð rosalega glaður þegar mamma hans sleppti öllum "ég verð bara aðeins..." í dag og lék sér við hann á gólfinu í langan tíma. Og ég veit líka um einn 35 ára eiginmann sem er ekki lengur alveg eins hræddur við grýluna sem hann giftist.

Ég þvæ kannski bara á morgun....  


Gella í æfingu

Halla vinkona var hér um helgina. Á föstudaginn var átti að hleypa mér út, og 5 vikum eftir barnsburð var ég alveg til í að yfirgefa húsið í smá stund án þess að vera með eitthvað barnið hangandi einhversstaðar á mínum þreytta líkama. Þegar dagurinn rann upp var ég einsog á afmælisdegi í gamla daga, eitthvað stórkostlegt, spennandi og framandi var að fara að gerast! Nú jæja, það átti að taka sig til. Stóra spurningin er jú oftast klæðnaður, en þetta stuttu eftir meðgöngu og fæðingu er spurninguni auðveldlega svarað. Maður fer í það sem maður kemst í, og lætur það duga! Svo var það andlitið. Nú skulum við sjá, einhversstaðar átti ég snyrtitösku. Eftir brjálæðislega leit var taskan dregin fram, hún opnuð og ég stóð einsog spurningamerki frammi fyrir þessari litadýrð. Öll þessi smyrsl, krem, allir burstarnir, litlu sætu dollurnar og pennarnir, meikflöskur og annað. Hvernig var það nú aftur, átti maður að byrja eða enda á maskaranum? Varaliturinn fyrst og svo varalitapenninn, eða var það öfugt? Ég hófst allavega handa, og sparslaði af bestu getu. Eftir 3 góðar tilraunir til að blinda sjálfa mig með því að reka maskaraburstan af krafti á bólakaf INN Í augað (hann á sem sagt ekki að fara þangað) var ég frekar sátt með afraksturinn. Þá átti ég bara eftir hárið, með tilheyrandi rót sem ég allt í einu rak mitt eina auga í. Ekkert við því að gera núna, svo ég dró fram fleiri brúsa, dollur, túbur og úðara, öllu skellt í hárið og allt saman þurrkað lengi. Svo var það sléttujárnið. Einu sinni gat ég í nokkrum örfáum múvs sléttað allt hárið OG sett það í ágæta greiðslu OG verið frekar kúl á meðan ég var að þessu. Ekki lengur. Vopnuð eldheitu sléttujárninu byrjaði ég að strauja nokkra lokka, og endaði með stórt brunasár á eyranu. Eyrnasnepillinn á sem sagt ekki að fara INN Í sléttujárnið, ég veit það núna. Ótrúlega sárt. 

Pabbinn horfði áhyggjufullur á fjaðrafokið sem átti sér stað á meðan á þessu stóð. Hann átti sem sagt að vera EINN heima með TVO stráka, og þetta reiknisdæmi var einfaldlega ekki að ganga upp í hans haus. Hann setti upp sinn strangasta svip, og með hendurnar á mjöðmunum reyndi hann að setja mér nokkrar lífsreglur. Ég mátti ekki koma heim of seint, og alls ekki full því að ég mátti alveg búast við því að 1) allir væru vakandi 2) alllir væru snælduvitlausir 3) allir væru á barmi taugaáfalls og 4) ég myndi þurfa að laga þetta allt saman. Hann hefur ekki allt of mikla trú á sjálfum sér aumingja maðurinn.... Heim kom ég, í fyrri laginu, næstum því edrú og allir voru sofandi. Veit ekki með taugaáfallið, mér fannst hinn hrjótandi faðir sem ég fann á sófanum vera ansi mæðulegur á svip. Og jú, hann hefur verið roooooooosalega góður við mig síðan !! Íbúðin var hinsvegar á hvolfi, og ekki í fyrsta sinn undraðist ég hvað maðurinn þarf mikið dót til að gera einföldustu hluti. Það er alls ekki óalgengt hjá okkur að það fari 4 pottar, 2 pönnur, og öll áhöld eldhússins til að hita spakk og hakk. Samt er það ofast of soðið eða ekki nógu soðið.... 

Kvöldið með Höllu var dásamlegt, víða farið enda margt á okkar daga drifið. Synd að allar bestu vinkonurnar búi einhversstaðar annarsstaðar en ég...  Laugardeginum eyddum við svo ásamt mömmum okkar og sonum á Skansen í rigningu.

Ég ætla núna að föndra mér skilti, einsog þessi "Ökukennsla" skilti aftan á bílunum. Aftan á mér á núna að hanga skilti sem á stendur "Gella í æfingu", og mun það vonandi útskýra rauðbólgið auga sem úr lekur maskaraklessur, meikrendur sem 13 ára stelpur væru stoltar af, og varalitur sem er meira en bara smá fyrir utan....  


Að tryggja eftirá...

Ég hef oft upplifað mig yngri en árin hafa sagt til um, og kannski verið óábyrg í mörgu. Flestar vinkonur mínar fóru af stað í sambúð og barneignir töluvert áður en ég fann þroska til, og það er í raun fyrst núna sem mér finnst ég vera fullorðin í alvöru. 

Með því að vera fullorðin kemur ábyrgð, og sem tveggja barna móðir fer maður að hugsa um framtíðina og ýmislegt hvað því tengist. Þá meðal annars tryggingar. Ég er að sjálfsögðu með bílinn, heimilið og börnin tryggð á allan hátt sem hægt er, en fyrst í dag áttaði ég mig á því að ég er ótryggð. Hringdi því í tryggingarfélagið mitt, og þóttist vera afar ábyrg og fullorðin manneskja þegar ég settist niður með símann sem mitt verkfæri. Sölumaðurinn sem ég fékk samband við var mér sammála að sjálfsögðu og vildi ólmur selja mér allar þær tryggingar sem til eru.

Svo þegar hann fer að tala um sjúkratryggingar segi ég að það sé kannski ekki það auðveldasta þar sem ég því  miður greindist með ólæknandi sjúkdóm, Multiple Sclerosis (MS) fyrir tæpum 4 árum. Þá fylgir löng og vandræðaleg þögn sem sölumaðurinn góði brýtur loks með því að ræskja sig vel og lengi. "Skooooo", stamar hann, "ég get ekki boðið þér neina tryggingu því miður".

Nenni ekki að rekja allt samtalið sem fylgdi, en niðurstaðan er sú að tryggingarfélagið (og ég hringdi í fleiri til að kanna stöðuna sem er sú sama allsstaðar hérlendis) álítur mig vera ótryggingarhæfa. Sem sagt neita þeir að selja mér líftryggingu sem og slysatryggingu, og sjúkratryggingu er bara að gleyma. Í þeirra augum er ég greinilega miklu líklegri til að td.  lenda í beinbroti eða td. að skera mig á gleri. Jafnvel þó ég sé farþegi í bíl og lendi í bílslysi vilja þeir ekki tryggja mig. Ég spurði ítrekað hvort það væri ekki hægt að tryggja mig þá gegn öllu sem er ekki tengt mínum sjúkdómi, en þeirra staða er sú að fyrst ég er með þennan sjúkdóm þá er ég bara gölluð og þeir vilja ekki hafa mig sem kúnna. 

Ef MS væri banvænur sjúkdómur gæti ég skilið þetta með líftrygginguna kannski, en svo er nú ekki tilfellið. Eins þetta með að þeir telja líkurnar á því að ég lendi í einhversskonar slysi svo miklu hærri, það finnst mér bara fáránlegt. Ég vil líka taka það fram að ég er enn sem komið er (7, 9, 13 og allt það) í raun alveg laus við allan varanlegan skaða af þessum bölvaða sjúkdóm og er heilsuhraust. En að sjálfsögðu gæti ég lennt í slysi alveg einsog allir aðrir.

Ég hef verið óttarlega reið útaf þessu sem ég álít vera ósanngjarnt og frekar sárt. En vildi samt deila þessu með þeim sem lesa þetta, til að minna á að maður tryggir ekki eftirá.  


Helgin okkar

Nú er helgin að lokum og ekki get ég nú borið neinar stórfenglegar fréttir. Í dag fórum við Tumi og Davíð og héldum upp á 17. júní heima hjá mömmu, þar borðuðum við pönnukökur og einhverja hnallþóru sem ég sletti saman í morgun. Veðurguðirnir hérlendis ákváðu að hafa íslenskt þema í dag, það hefur rignt allan daginn og það meira að segja mikið á sænskum mælikvarða. Ekki létum við það nú draga úr hátíðarhöldunum og héldum út á rólóvöllinn með strákana. Tómas er að verða smádýrabani mikill og elti skelkaða maura og ánamaðka út um allt, og hóf svo fjöldamorð á sniglum. Við mamma reyndum að útskýra að þetta væri nú ekki alveg sú hegðun sem ætti að hvetja, nokkuð sem hann virtist taka til umhugsunar. Við mæðgur vorum frekar sáttar við þann skilning sem barnið sýndi okkur, og kinkuðum við kolli og þóttumst mjög klárar í að ala barnið upp. Það var ekki laust við að við táruðumst aðeins og fengum sitthvort vægt móðursýkiskast yfir gáfum og tilfinninganæmni barnsins. Þangað til að við uppgvötuðum að hann hafði bara breytt um modus operandi og hafði nú tekið upp á því að grafa sniglana lifandi með því að hella yfir þá sandi sem hann bar í þar til gerðri fötu. 

Um næstu helgi verður Halla vinkona og ofurgella stödd hér í Stokkhólmi og eigum við okkur deit á föstudagskvöldi. Alex verður því einn heima með skriðdrekann og átvaglið, og það í fyrsta sinn (einn þ.e.a.s). Hann er mikið stressaður yfir þessari hugdettu minni, að fara ein í bæinn og skilja hann eftir með strákana, sérstaklega þar sem þeir virðast stunda nýja íþrótt sem nefnist synchronized crying and soiling of diapers.... Tómas hafnar líka öllum tilraunum föðursins til að svæfa, svo þetta lofar áhugaverðu kvöldi. Ég hugsa mér samt gott til glóðarinar, og hver veit nema maðurinn sýni mér aukinn skilning eftir þetta kvöld. Hann fær kannski smá insýn í afhverju ég er ekki alltaf í sólskynsskapi á kvöldin þegar hann kemur heim... 

 


Till hamingju, hamingjan mín !!

 

Elsku hjartans drengurinn minn er tveggja ára í dag! Það er ekki laust við nostalgíu á svona dögum, enda er 13. júní 2005 dagur sem ég mun aldrei gleyma. Að verða móðir og að fá þennan dreng fullkomnaði líf mitt á hátt sem ég hefði aldrei getað ímyndað mér. Maður veit ekki hvað ást er fyrr en maður sér barnið sitt í fyrsta sinn, það er einsog hjartað bókstaflega sé að springa af öllum þessum tilfinningum. 

Tvö ár er ekki langur tími, samt finnst mér einsog ég hafi alltaf verið móðir hans. En einhvernvegin man ég samt eftir tíma án hans. Hvað gerði maður þá? Og af hverju eyddi maður svo miklum tíma í að sofa?? Ég er búin að komast að því að það er algjörlega overrated að sofa, það er alveg hægt að komast af án þess að sofa svona mikið. Eða að sofa heila nótt í einum dúr. Algjör óþarfi. Að vísu verður maður svolítið gleyminn, og það gæti komið fyrir að maður setji td. súrmjólk út í kaffið en svona smáatriði gera bara daginn skemmtilegan !

Já, ég fór oftar út að skemmta mér áður fyrr, ég leit MIKLU betur út í þröngum gallabuxum (eða öllu heldur, ég komst í þröngar gallabuxur) og ég get svo svarið það, brjóstin á mér voru einsog hálfum meter ofar en þau eru í dag. Ég svaf út og ég var stundum drulluþunn og eyddi þá heillri helgi í að borða rusl og liggja í sófanum og horfa á rusl. Ég átti miklu meiri peninga en í dag, fötin mín voru (oftast) hrein og ég gat útskýrt blettina í þeim, fötin voru heldur aldrei praktísk heldur bara keypt með það í huga að vera flott. Ég náði að klára hverja einstu máltíð í ró og næði og ég kunni ekki Stubbaspólurnar utanað, né var ég með Söngvaborg 1, 2 & 3 sérstaklega oft í DVD tækinu... Ég hafði mun oftar samband við vinkonur mínar, og ég var (að ég held) skemmtilegri bæði sem vinkona og eiginkona. 

Öllu þessu fórnaði ég, og ég get sagt ykkur það að ég hef aldrei verið hamingjusamari en í dag !!!

tomasbjuti

 


Tíu dropar ?

mjolk

 

Mér gæti alveg dottið þetta í hug snemma morguns.  


Mamma í orlofi

Ég er búin að vera heimavinnandi húsmóðir frá fæðingu sonar okkar fyrir tveim árum síðan. Að vera með tveggja ára orkubolta er ekki alltaf dans á rósum, það er oft erfitt að koma minnstu hlutum í verk þegar hann er annarsvegar. Mikill hluti af deginum fer í að kaupa sér tíma, kaupa sér frið og mútur. Mútur eru frábærar, það má múta með Stubbaspólu, kexkökum, sulli við eldhúsvaskinn svo nokkuð sé nefnt. Í dag fór ég svo að vellta því fyrir mér hvernig það verður að snúa aftur út í atvinnulífið eftir eitt ár eða svo, ætli þessu nýja hæfni mín eigi eftir að nýtast mér vel ? Sjáiði þetta ekki fyrir ykkur ?

"Heyrðu Jón, ég þyrfti að sleppa því að halda í fundinn á eftir, ertu til í að gera það fyrir mig, ég skal splæsa í hádeginu á morgun í staðinn ? "

Eða

" Sigga, sæl vertu. Heyrðu, nennir þú að klára þessa skýrslu fyrir mig? Ég var að spá í að gefa þér nýju Diesel gallabuxurnar mínar í staðinn ?" 

Ætli maður verði vinsæll ??? Ég veit ekki alveg á hvaða vinnustað svona mútukunnátta gæti komið sér vel, en tillögur eru vel þegnar.

Annað sem ég var að hugsa um í dag er starfsheitið mitt í dag, ég er móðir í fæðingarorlofi. Orlofi ??? Er ekki orlof það sama og frí ??  Bíddu, hvar akkúrat er þessi orlofshluti, hvar er fríið mitt ?!? Ég hef ekki fengið almennilegan svefn í tvö ár og með eitt splunkunýtt barn (fjögura vikna litli gullmolinn minn) þá sé ég nætursvefninn hverfa algjörlega í nokkur ár í viðbót. Ég fæ einsog 2 - 4 mín. á sólarhring í friði (oftast læsi ég að mér á klósettinu til þess, rosalegur lúxus), ég hef ekki fengið að fara ein í sjóðandi heitt freyðibað síðan snemma árs 2005 heldur hafa mín böð verið hálf volg og í baðkarinu eru sonur minn og ca. 18 endur og 46 bílar. Ég hef ekki náð að klára úr kaffibolla í laaaangann tíma, og ég hef sko alls ekki náð að slaka mikið á. Hvurslags eiginlega frí er þetta ???? Eru þessir pakkar til á Úrval Útsýn? Sólarlandapakkar, stórborgarpakkar, smábarna foreldrapakkar. Ef einhver er að láta plata sig í svona orlofspakka vil ég bara vara við, þetta er bara plat !!! 

En þó svo að ég sé þreytt, sjúskuð, svolítið pirruð og alltaf með einhverja undarlega bletti í fötunum mínum gæti ég ekki haft það betra! Með tvo dásamlega syni til að gera mig gráhærða - er þetta ekki lífið ??? 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband