GARG !!!

Hvert er þessi aumingja stúlka að fara með svarið sitt ?? Og hvað er The Iraq?

http://www.youtube.com/watch?v=lj3iNxZ8Dww


Alls kyns bull

Þetta gengur ekki lengur. Ég verð að fara að hitta fleiri fullorðna. Ég stóð mig að því í morgun þegar sonur minn var að horfa á morgunsjónvarpið að uppgvöta að Glanni Glæpur er rosalega fyndinn. Ég hló einsog vitleysingur að honum, og ekki leið á löngu áður en ég var farin að ímynda mér hvað það hlyti að vera gaman að þekkja hann. Og þá er ég ekki að tala um Stefán Karl, heldur Glanna.

Nú er aðlögunin í leikskólanum að baki, og sonur minn orðinn leikskólastrákur. Mér finnst að hann mætti alveg þykjast sem það sé leiðinlegt þegar ég fer frá honum á morgnana, en hann ýtir mér bara frá sér og hleypur af stað í bíló. Ég meina, halló ?!?!? Frumburðurinn og fyrsti alvöru aðskilnaðurinn, og hann hleypur bara af stað og eftir stend ég, voteygð og hrærð yfir þessu öllu saman. Jæja, það er ennþá smá von með þann yngri, kannski að honum eigi eftir að þykja það smá leiðinlegt þegar mamma hans setur hann á leikskóla....

Eitt fór ég að hugsa um á meðan við vorum þarna í aðlöguninni á hverjum degi, og það er þetta með tungumálin. Ég hef alltaf og engöngu talað íslensku við Tómas, það er eina vonin til að hann læri tungumálið okkar, og það er mér rosalega mikilvægt að svo verði. En það hefur líka þýtt nokkur frekar skondin atvik. Einsog þarna á leikskólanum, ég þurfti að skreppa afsíðis einn morguninn og útskýri það fyrir honum að nú þurfi ég aðeins að skreppa frá, "mamma ætlar bara að pissa, svo kem ég." Allt í lagi með það svosem, nema að fóstran horfði frekar undarlega á mig og þegar ég labba fram man ég það að "pissa" á sænsku er frekar gróft orð, svipað einsog að tilkynna barninu sínu að nú sé mamma að fara að míga... Ekki skrítið að fóstran hafi undrast aðeins. Svo gerðist það einusinni þegar hann var rúmlega árs gamall, að við vorum stödd saman á kaffihúsi og borðið okkar var orðið sérstaklega sóðalegt. Ég fer aðeins að ganga frá og hjala við hann "subba ertu, voðalega getur þú verið mikil subba, já, subba subba subba" og svo framvegis. Það var glápt á mig úr öllum áttum, og þá meina ég að fólk glápti. Ég hugsa að sjálfsögðu að það hljóti að vera af því ég er með svo ótrúlega fallegt barn, brosi smá til aðdáendana og held áfram "já, hver er litla subban hennar mömmu sinnar, subba subba subba ertu, já, þú ert bara subba". Pakka öllu saman og labba af stað, og man það að "subba" á sænsku er virkilega ljótt orð yfir hórur. Ég var semsagt að kalla son minn hóru, og það margoft meira að segja. Ehhhh, obbosí....

Frægasta atvikið hef ég nú reyndar sagt frá áður, en það má alveg endurtaka. Tómas fékk útbrot yfir allt bakið og magann, og ég hafði smá áhyggjur af þessu. Talaði við mömmu um þessi útbrot og okkur kom saman um að tala við lækni, svo ég hringi á læknavaktina. Svissa semsagt yfir á sænsku þegar ég hringi þangað, einhver hjúkka svarar og ég kynni mig og segi "min lilla son har utbrott" og að ég hafi áhyggjur. Það er bara það að "utbrott" á sænsku er ekki útbrot, heldur er það brjálæðiskast. En af því að það heyrist ekkert á framburði mínum að ég sé í raun útlensk hélt konan bara að ég væri svona rugluð og væri að hringja útaf frekjukast í barninu. Ég tala og tala og masa og masa og segi henni að hann sé með frekjukast og að ég hafi bara aldrei séð svona frekjukast áður og að mamma mín hafi ekki heldur séð svona frekjukast áður og að kannski sé hann bara með eitthvað ofnæmi fyrst hann fái svona frekjukast og að ég viti bara ekkert í minn haus og hvort að það sé ekki bara best að fara á bráðavaktina og láta lækni athuga þetta með frekjukastið.... Ég roðna þegar ég hugsa tilbaka, hvað ætli hjúkkan hafi haldið ???

Svo var það pabbi þessi elska, sem ætlaði að kalla okkur systkinin inn þar sem Snoopy var að byrja í sjónvarpinu (mörg ár síðan þetta gerðist), en á sænsku heitir sá karakter "Snobben". Pabbi stóð á svölunum og galaði "Maja, Breki, kom kom, titta på (=horfa á) snoppen, vi skall titta på snoppen nu". Ekki snoBBen heldur snoPPen.

Það þýðir typpi....


Nautnarstress

Nýbakaðar smábarnamæður upplifa gjarna að það rignir yfir þær góð ráð. Helstu ráðin sem ég hef fengið hafa fjallað um að sofa þegar barnið sefur (já, ég reyni það. En fyrst þarf ég kannski að ganga frá fjallinu af skítugum diskum, hrúguni af leikföngum í stofuni, og henda inn útgubbuðum fötum í þvottavélina. Svo leggst ég gjarna niður. En þá vaknar annar hvor þeirra!) Aðrar ráðleggingar fjalla um að lækka aðeins í kröfunum, að ekki gera of mikið eða ætlast til of mikils. OK, en ef ég lækka kröfurnar enn meira þá sveltum við í hel í skítugri íbúð. Og svo er það gullna ráðleggingin um að njóóóta þessa tíma. Ehhhh, alltílagi. Hafið þið hitt börnin mín ??? Mér hefur verið sagt hundrað sinnum ef ekki oftar að njóta þessa tíma því hann kemur vísst aldrei aftur. GUÐI SÉ LOF segi ég nú bara. Ég er ekki alveg að sjá það að ég eigi einhverntíman í framtíðini að hugsa "ooooh hvað ég vildi að það væri aftur orðið þannig að ég væri ógeðslega feit, sjúklega þreytt, hundpirruð og sundurstressuð. Oooooo vá hvað ég vildi að Davíð væri aftur 3 mánaða og hreinlega fastur á spenanum á mér og Tumi væri 2ja ára og á mótþróaskeiði dauðans. Vá hvað ég sakna þess. Einsog það var nú gaman." Nei, ég held að ég eigi aldrei eftir að hugsa þannig.

Hér í Svíþjóð eru til milljón mismunandi tímarit um foreldra og börn, mæður og börn, fjölskyldulíf og þessháttar. Einsog asni kaupir maður þennan viðbjóð og með hárið útklínt af einhverju sem Tómas tróð í sig fyrr um daginn en spýtti því svo í hárið mitt, og með Davíð slefandi á nýja bolinn minn fletti ég blöðunum og sé ekkert nema sjúklega hamingjusamar og ánægðar mömmur sem allar eru að njóta lífsins í botn, drekkandi Kaffi Latte á einhverju kaffihúsi með öðrum sjúklega hamingjusömum mömmum á meðan barnið/börnin sitja þæg og hljóð í vögnunum sínum.

Þegar Tumi var minni og ég var ennþá rosalega metnaðargjörn um að gera nú allt rétt ætlaði ég sko aldeilis ekki að kaupa mat í krukku, ég hafði nefnilega lesið í einu viðbjóðs-tímaritinu grein um m.a. maísmauk. Hlýðin einsog ég er keypti ég lífrænt maís í dós, og fylgdi leiðbeiningunum þannig að í 2 klukkustundir stóð ég og tróð þessum helv... maísbaunum í hvítlaukspressuna til að ná út einhverju maísmauki. Haldið þið að barnið hafi borðað þetta ?? Nei. Og ég get tekið það fram að 2 árum seinna er ég ennþá að finna maísklessur og hýði inni í eldhúsi eftir þessa maukgerð mína.

Svo eru það skemmtilegu greinarnar þar sem fjallað er um "mamma kroppen" einsog þeir kalla það, eða náttúruhamfarirnar sem ég geng um í þessa dagana, sem sagt líkaminn. Í einu tímaritinu var einhver klása um "hollt snakk". Átti að blanda saman 1 dl þurrukuðum apríkósum, 1 dl þurrkuðum döðlum, 0.5 dl sólrósafræum, 0.5 dl sesamfræum og 1 dl möndlum í skál. Og aftur, njóta. Yes sir. Barninu var troðið í útigallan og ofaní vagn, ég af stað út í búð og keypti allt þetta fyrir morðfjár. Öllu þessu blandað saman í skál, og svo sat ég þarna með skálina mína af allri hollustuni, og hugsaði "hvar í fjandanum er nammið ????"

Ég er orðin stressuð af allri þessari nautn sem ég á að vera að upplifa. Ég er bara þreytt. En ég vil samt viðurkenna að ég nýt þess að eiga þá, sérstaklega þegar þeir sofa. Vá hvað þeir eru ljúfir þá, og vá hvað ég get notið þess að vera mamma þeirra. Þegar þeir sofa....


Síðasti söludagur??

Ég las blogg hjá Auði vinkonu um daginn, um frábæra þjónustu. Ég er henni svo hjartanlega sammála um hversu mikilvægt það er að fá góða þjónustu, gott viðmót og almennilega framkomu þegar maður er að eyða sínum fáu krónum. Ég fer heldur í verslun með minni úrvali þar sem ég veit að þjónustan er persónuleg og góð, en að fara í stórar verslanir þar sem allt er ópersónulegt, kallt og jafnvel dónaleg framkoma afgreiðslufólks. 

Svo er það svolítið misjafn hvað fólk telur vera þjónustu, sumir vilja fá að vera í friði og taka sínar ákvarðanir í ró og næði án þess að vera spurðir hvort allt sé í lagi og hvort það sé hægt að hjálpa. Ég vil endilega fá hjálp, það má sko alveg spurja mig, oftast veit ég ekkert hvað mig langar í hvort sem er og læt gjarna stjana við mig og segja mér hvað viss flík fari mér roooosalega vel og sé flatterandi.

En það er líka til afskaplega dofið afreiðslufólk sem er kannski voðalega vingjarnlegt, en bara dofið. Einsog sagan af manninum sem fór í sjoppu og bað um Sunnudagsmoggan. Afgreiðslustúlkan leit á hann lengi vel, hvarf í smá stund og kom svo með nokkra smokka pakka. Maðurinn spurði hvað þetta ætti að þýða, og stelpan svarar "já, hérna, sagðiru ekki sundsmokkar, ég veit bara ekki hvaða tegund má fara með í sund....." Önnur saga, þar sem afgreiðslukona var spurð "hvar eruð þið með kattartungur" og svarið var "ööööö, villtu ekki bara athuga í kjötborðinu....."

Lang besta sagan er samt alveg sönn, því eftirfarandi kom fyrir pabba minn. Fyrir nokkrum árum naut ég þeirra forréttinda að fá að búa með honum í tíma, og við tókum okkur stundum mynd á leigu og góndum á hverja vitleysuna á fætur annarar. Svo var komið að honum að fara út á vídeóleigu, en það var held ég frumraun hans á þeim sviðum. Allavega, hann fer niður í sjoppu, og kemur rúmum hálftíma síðar heim, með popp og kók en enga spólu. Hann stendur þarna á stofugólfinu, einsog 192cm langt spurningarmerki, og hristir hausinn, "nei nú verð ég ekki eldri" segir hann og hlassar sér niður í sófann. Hann hafði verið í sjoppuni og fundið einhverja mynd, ánægður með val kvöldsins fer hann að afgreiðsluborðinu en þar fyrirfinnst einhver tyggjókúla, ca 17 ára og öll klædd í bleiku. Hún tekur við spóluni, og spyr um kennitöluna. Jú jú, pabbi byrjar "xx-xx-41...." og þá horfir gufan á hann með máluðu augunum einsog undirskálar og segir "Ha???? 41?? Fjögurtíu-og-eitt ?? Bíddu, hérna, er það ekki útrunnin tala??"

Aumingja pabbi, að vera útrunninn.  Ætli mamma viti af þessu ? Hver ætli sé annars síðasti söludagur á fólki ?

Over and out. 


Blóðþyrstur morðingi vs. hormónar

Ég var að hugsa um þetta með hormónana um daginn. Nú er ég búin að vera annaðhvort ólétt, nýbúin að eiga, eða föst í mjólkurþokunni í tæp 3 ár. Það er langur tími. Hormónarnir geta gert frekar ljúfa konu að algjörri Grýlu, og ég neita því ekki að ég hef verið skapstór á köflum þessi ár. Hormónasullinu er kennt um allt, en ég veit að einn góðan veðurdag get ég ekki notað þá afsökun lengur, og þá á Alex kannski eftir að átta sig á að ég ER bara svona.... 

En hormónarnir geta líka komið manni í smá klandur. Einsog þegar við fjölskyldan fórum í smá leiðangur, ég var kas kas kas (já, maður getur verið óléttur og svo MIKIÐ óléttur og ég var definately það seinna þann daginn) og enduðum í verslun sem var nýbúið að opna. Verslunin heitir Media Markt og er eitthvað þýskt skrímsli sem selur ALLT sem tengist rafmagnsvörum og svoleiðis. Ég átti semsagt ekkert erindi þangað, en Alex hafði dreymt um þessa búð svo lengi að ég lét mig hafa það. Á meðan hann vafraði um og fékk hvert kastið á fætur öðru yfir öllum þessum snúrum og tækjum var Tómas farinn að verða frekar pirraður í kerruni sinni svo ég fór og fann sjónvarpstækjadeildina, og þar var verið að sýna uppáhaldsmyndina "Cars" á 50" plasma sjónvarpi. Frábært, ég bruna þangað og strákurinn róast strax.

Ekki var samt Adam lengi í Paradísi, allt í einu upplifum við sólmyrkva þarna inni í búðinni. Ímyndið ykkur Esjuna í leðurjakka, og þá sjáið þið fyrir ykkur flykkið sem birtist. Maður (ef mann skal kalla, þetta minnti frekar á naut á sterum) kemur gangandi, stynur eitthvað um plasma sjónvörp, og stillir sér svo beint fyrir framan mig og drenginn, skyggir á gjörvallan sjónvarpsskerminn, og stendur bara þarna. Ég endurtek: beint fyrir framan mig og drenginn. Tómas verður strax ókyrr á ný þar sem hann hafði ekki hugsað sér að stara á eitthvað ofvaxið hné, og ég bókstaflega finn hvernig blessuðu hormónarnir nálgast suðumarkið. Ég reyni að leggja smá hömlur á skapið og ræski mig all hressilega, en það hefur væntanlega ekki náð til eyrana á bolanum, fyrir allri hnakkafituni. Svo að ég geri það eina rétta í stöðuni, ég kippi í kerruna og undirbý brottför okkar, og segi hátt og snjallt við 1,5 ára son minn eitthvað um ókurteysi, einkarétt á plássi bara vegna þess að maður er byggður einsog tveggjahæða hús, og eitthvað fleira með algjöru "attitúdi" í röddini. Svo strunsa ég af stað. Eða sko, ég kjaga af stað en reyndi að kjaga með svona strunsi. Sé Alex nokkrum metrum frá og kalla nógu hátt til hans til að Flykkið heyri "helvítis dónaskapur í fólki, barnið okkar má ekki sitja í friði og horfa á sjónvarpið, það er nú ekki einsog það vanti plássið hérna" og set nefið upp í loft. 

Þá sé ég hvernig maðurinn minn (sem er svosem ekkert af minni gerðinni heldur) fölnar upp, bendir mér að þegja og gerir alls kyns merki út í loftið sem áttu að segja mér að halda KJ. En hormónarnir voru búnir að ná völdum, ég hélt áfram að rífast og skammast yfir frekjuni í Flykkinu og kallaði hann nokkrum vel völdum nöfnum, og skammaðist svo aðeins í Alex fyrir að vera að sussa á mig, þetta var jú barnið okkar sem fékk ekki að horfa á Cars. Barnið ! Hugsaðum um barnið !! (Ólétta konan alveg að upplifa sig sem ljónynju á sléttuni í Afríku). Ég hlýt að hafa stoppað aðeins til að ná andanum, því einhvernveginn kemur hann því til skila að hann viti hver þessi maður sé. 

Flykkið heitir vísst Mustafa (!!) og er frá Rúmeníu, og er einn af hættulegustu mönnum í undirheimum Stokkhólms. Það ganga ýmsar sögur um afrek þessa manns, og hann á sér vísst langann og litríkan frama innan "lem þig í klessu" geirans.  Hann var kannski að leita að einhverjum rafmagnsgræjum til að auðvelda sér vinnuna, svona pyntingartæki eða eitthvað. Hvað veit ég, en Alex stóð þarna og svitnaði og stamaði og með titrandi röddu spurði hann hvort ég hefði sagt eitthvað við Flykkið. Ég játa því, og flissa eiginlega bara því mér fannst þetta allt frekar fyndið allt í einu. Ég meina, ég er 164 cm, komin 7 mánuði á leið og í laginu eftir því, og þarna er ég, Strumpurinn með magann, að rífa mig við einhvern blóðþyrstann rúmena. Mér fannst þetta alveg fáránlega fyndið, og fyndnast var að Alex var alveg viss um að ég væri dauðans matur. 

Við sikk-sökkuðum í flýti að útganginum, og Alex lét einsog hann væri Bruce Willis í Die Hard. Ég beið bara eftir því að hann færi að kasta sér á gólfið og rúlla að næsta gangi, rífandi upp umbúðir og kastandi dóti til að villa fyrir Mustafa. Sem var svosem ekkert að elta okkur, en Alex þessi elska getur verið svolítið paranoid. Hann var alveg viss um að nú hefði skapið í mér loksins komið okkur í klandur, að Mustafa myndi ekki þola svona framkomu og uppsteyt á opinberum vettfangi, og krefðist hefndar. Hvort Alex ætlaði að fórna mér eða kannski hitta Mustafa úti á bílastæðinu veit ég ekki.  

Ekki var hræðslan útaf yfirvofandi slátrun minni meiri en sú að Alex þurfti að kaupa eitthvað með snúrum, svo við stöndum í biðröð að kassanum þegar skugginn færist yfir okkur aftur. Mustafa mættur. Ég lít upp og mæti blóðsprengdum augum hans, verð að viðurkenna að hér varð ég kannski pínulítið stressuð.

"Stóð ég fyrir framan þig?" rymur hann. "Já, eiginlega fyrir framan son minn sem var að horfa á sjónvarpið" svara ég. Haldið þið ekki að morðinginn brosi, "fyrirgefðu" segir hann, blikkar mig og segir svo "þú ert ansi töff", og labbar svo burt. 

Mér fannst þetta alveg æðislegt, en Alex heldur því fram enn í dag að ég hafi alveg eins getað orðið að hakkebuff þann dag. Ég minni hann þá á að Mustafa, "vini mínum í morðingjabransanum" finnist ég ansi töff.  


Ó nei....

Var að skoða heimasíðu hótelsins þar sem Alex og co eru núna, hefði átt að gera það áður enn hann fór út. Þar stendur nefnilega "complementary cleaners and laundry service". Ég hefði átt að senda hann með óhreina tauið okkar, svo þarf að þvo áklæðið af sófunum, og ég var að fá tilkyningu þess efnis að það hafi verið köngulóa faraldur niðri í kjallara og mælt með því að þvo haust og vetrarföt þegar maður fer að nota það sem hefur verið í geymslu yfir sumarið. Það verður mikill þvottur.... Hefði átt að kynna mér þetta fyrr Tounge

 


Vegas baby !

Ég er grasekkja þessa viku og næstu. Hvaðan kemur þetta orð, grasekkja? Á ég að borða gras á meðan maðurinn minn er ekki heima? Á ég að sitja úti á grasinu og bíða eftir því að hann snúi heim? Ég átta mig ekki á þessu orði, ef einhver á góða útskýringu má hinn sami koma því áleiðis til mín. Ég skil ekki. 

Allavega, Alex er í Las Vegas á námskeiði, annað árið í röð sem þetta lífsnauðsynlega (???) námskeið er haldið í Las Vegas. Einhvernveginn læðist að mér sá grunur að ef námskeiðið væri haldið td. á Færeyjum væri það kannski ekki alveg eins ótrúlega mikilvægt að fara. Og hann myndi eflaust ekki fara heilum 4 dögum áður en námskeiðið hefst, "bara svona til að undirbúa mig og þannig skiluru." Það var reyndar frekar skondið að fylgjast með undirbúningnum að þessu námskeiði, þeir eru 4 félagarnir sem fara saman, og í 3 vikur áður en haldið var af stað gekk síminn rauðglóandi á milli þeirra. Samtímis reyndi Alex að sýna mér smá umhugsun, hann hélt eflaust að ég væri afbrýðisöm. Sem ég vel að merkja er ekki, júlí í eyðimörkinni er ekki neitt sem heillar mig neitt sérstaklega. En allavega, hann áttaði sig samt á því að mig langar líka til að gera eitthvað skemmtilegt og hann vildi ekki sýna OF mikla gleði, just in case. Svona voru dagarnir áður en hann fór:

A: Ooooooo, nú þarf ég að fara að fara á þetta námskeið bráðum. Ooooooo, það verður SVOOOOOOO leiðinlegt (smá stuna og andvarp)

M: Heldurðu ekki að þú eigir eftir að skemmta þér vel, fara í casino og svoleiðis?

A: Nei, ætli þaaaaaaaaað..... Ooooooo, þetta verður bara svooooo leiðinlegt (meiri andvarp, en ég sá glampan og dollaramerkin í augunum).

Svo hringir síminn enn einu sinni og einn af félögunum tilkynnir að hann sé sko búinn að vera að gúgla og að það séu hvorki meira né minna en 7 (!!!) sundlaugar á hótelinu. Alex tapar sér af æsing, hugsar sig svo um og hóstar eitthvað um að honum finnist hvort sem er alveg glatað að synda (hann var júníor meistari í sundi......)

Strákahópurinn sem undirbjó sig í ferðina til Disneyland allra karlmanna minnti mig á sjálfa mig þegar ég var ca. 15 ára, þegar það var hringt í vinkonuhópinn á 5 mín. fresti til að ræða geysilega mikilvæg mál einsog td. stráka, föt og söngvara/leikara sem maður var ástfanginn af. Það var virkilega fyndið að fylgjast með þeim, í 4 daga fyrir brottför snérust símtölin allra helst um það hvað ætti að taka með sér af fötum ("en sko, bara stuttbuxur og bolir eru kannski ekki nóg, hvað ef það er svona "dresscode" á einhverju kasínóinu? Geturðu gúglað það?").

Hann hringdi fyrst frá Philadelphia þar sem þeir millilenntu, og þá voru þeir félagarnir búnir að sporðrenna sitthvorri "Philly Steak" sem er vísst eitthvað kólesteról dæmi. Lýsingarorðin rigndu yfir mig, og bara til að stríða honum hvíslaði ég með mikilli mæðu "já en gaman, við Tumi vorum að borða makkarónur". Smá þögn. "Æi, þetta var kannski ekki neitt svooo gott sko, kjötið var eiginlega frekar þurrt" (smjatt smjatt, munnvatn sem lekur, meira smjatt). 

Svo var hringt frá Vegas, og þá gleymdi hann allri tillitsemi, slík var geðshræringin. "Elskan, hæ, sko, veistu hvað (hér var aðeins stoppað til að anda í hálfa sekúndu), ég bara rétt settist við eitt borðið og svo var ég búinn að vinna 250 dollara, fattaru (hér fylgdi nákvæm lýsing af hvaða hönd hann hafði verið með og að í póker er þetta rosalega flott hönd og hann bara VISSI að nú myndi hann aldelis vinna, aðeins stoppað til að anda aftur), heyrðu annars, ég verð að þjóta, Gunnar er að fara að spila líka......"

Auðvitað uni ég honum þetta, ég veit að hann skemmtir sér rosalega vel, og þetta námskeið er örugglega svolítið mikilvægt. Eða allavega ekki algjör tímasóun. Það er allavega á hans sviði, þetta námskeið. En þar sem ég sit heima með Tuma sem er gjörsamlega að tapa sér í "terrible two´s" skeiðinu (svakalega gaman að þessu), og Davíð sem vex svo ört að hann verður fluttur að heiman fyrir jól held ég, og matarlystin er eftir því, við erum að upplifa vætusamasta sumar í mannaminni, verð ég að gera eittvað til að lyfta mér upp. Og þá stríði ég honum smá. Og dunda mér við að senda honum meil með innkaupalistum. 

Og ég fæ Victoria Secret´s Body splash þegar hann kemur heim, la la la la la, hann má alveg fara til Vegas. Það er líka minni þvottur á heimilinu á meðan hann er burtu!  

 

 


Helgin búin og gólfið lagt og allt er Ísrael að kenna

Helgin okkar var dásamleg. Hún byrjaði í raun á fimmtudeginum þegar við hjónakornin komum skriðdrekanum (Tómasi) fyrir hjá mömmu, og skunduðum í IKEA, mekka allra svía. Þar keyptum við gólf. Hvorki meira né minna. Það fylgir þessu (að sjálfsögðu) smá saga...

Þegar ég gekk með Tómas heltók mig löngun til að gera allt fínt fyrir komu barnsins. Hreiðursgerð (nesting á ensku) á hæsta stigi. Það var rifið út úr skápum, brotið saman og flokkað eftir litum. Það var endurskipulagt, fægað, pússað, þvegið og pússað á ný. Svo fékk ég hugljómun. Væri nú ekki íbúðin okkar þúsund sinnum flottari og betur á sig komin ef við værum með flísar í forstofuni, ganginum og eldhúsinu?! Eftir að hafa smjattað á þessari hugmynd í einsog 7 mín. komst ég að þeirri niðurstöðu að ég hljóti að vera snillingur. Ég fór því í flísabúð og keypti 25 fermetra af terracotta flísum, rosalega flottar og afskaplega Miðjarahafslegar. Því þannig skapi var ég í þann daginn. Já, hugmyndin, ákvörðunin og innkaupin voru á sama degi. Þegar Alex kom heim fór hann strax að tala um hvort það væri ekki örugglega hægt að skila þessu drasli sem stóð núna í aukaherberginu og beið (við erum að tala um fúgamassann og allt sko), ég þar sem ég var ólétt á þennan hátt sem maður er þegar maður gengur með fyrsta barnið grét ég hástöfum yfir tilfinningaleysi, kulda og hrottaskap í eiginmanninum mínum. Á milli ekkasogana krafðist ég að vita AF HVERJU honum væri svona slétt sama að íbúðin okkar væri með svona ÓGEÐSLEGT gólf þegar litla barnið okkar kæmi í heiminn ???? Hann benti á að barnið kæmi nú væntanlega ekki í heiminn Á gólfinu og flissaði smá yfir því hvað hann var fyndinn, sem orsakaði enn meiri tár og hysteríu í hinni verðandi móður. 

Við eigum okkur góðan vin sem vinnur í byggingavinnu og segist kunna allt sem snýr að home improvements. Það var því hringt í hann, og hann staðhæfði að flísalagningar væru í raun hans sérkunnátta. Æðislegt, hann gat þar að auki komið strax um næstu helgi. Sem hann og gerði og það var hafist handa. Nú er rétt að minnast á að maðurinn er frá Beirút. Það má kannski áætla að eftir áratuga stríð og spengingar eru gólfin í Berút ekki endilega slétt. Þau virðast halla all skelfilega. Sama gildir greinilega um hversu beinar flísarnar eiga að liggja. Og fúgarnir þurfa augljóslega ekki að vera sérstaklega smekklega settir heldur geta fúgaklessur vellt yfir á flísar hér og þar. Flísar þurfa ekkert að vera sérstalega fastar á gólfinu heldur, kannski ef maður þarf að flýja um miðja nótt getur verið gott að kippa með sér flísunum sem vega salt á gólfinu. Kannski fer flísalagning fram þannig að maður slettir smá jukki á gólfið, svo flísunum á gólfið í hendingskasti áður en maður þarf að skutlast niður í kjallara því að það er að fara að spengja húsið. Ég veit það ekki... En ég held það.

Með plastbrosið vandlega klínt framan í mér þakkaði ég vini okkar fyrir hjálpina og kvaddi, leit svo á Alex og áður en hann gat sagt hvað hann var að hugsa ákvað ég að gráta smá, sem forvörn. Ég var nefnilega ekki alveg eins ánægð með Miðjarahafslúkkið og ég hafði hugsað mér... Aumingja ófædda barnið okkar sem myndi þurfa að koma heim í þetta. Gólfið var hörmulegt, og við hjónin fórum snemma að kalla það Terracrappa og ekki Terracotta. Þetta er búið að vera eitt af þessum óumræddu hlutum sem sum hjón hafa. Sum hjón minnast aldrei á meint hliðarspor annars aðilans, sum hjón tala aldrei um vandamál í svefniherberginu og svo framvegis, við kusum að tala aldrei um Gólfið og hvar sökin átti að liggja. Ég efast ekki um að Alex kennir mér alfarið um Gólfið. Ég hinsvegar hugsa einsog ólétt kona (þó ég sé ekki ólétt núna, það er bara svo gaman að nota ólétturökin) og hef ákveðið að kenna Ísraelsmönnum um. Ég held að ef þeir hefðu ekki látið svona ílla þá hefði flísalagningakunnátta allra Líbana verið miklu betri og þar með hefði gólfið mitt verið æðislega flott !

En nú tilheyrir það liðinni tíð, því við rifum gólfið (eða öllu heldur lyftum flísnum upp þar sem þær riðluðu hér og þar) og í dag var fenginn smiður (alvöru smiður frá Stokkhólmi sem hefur aldrei upplifað annað en bein og jöfn gólf og hefur því sama gildismat og við á þeim punkti) og parkettið lagt. Íbúðin er unaðsleg, gólfið er fullkomið og loksins er ég ánægð. Er samt smá fúl útí Ísraelsmenn, mig langaði í flísar.....

 


Klukkíklukk

Erla Perla Yndisfríð klukkaði mig og ég á að telja upp 8 staðreyndir um sjálfa mig. Ekki veit ég hvort þetta eiga að vera áhugaverðar staðreyndir eður ei, en hér koma þær allavega

1) Mér hefur verið líkt við Bo Derek, oftar en einusinni meira að segja. Þegar við Alex vorum í brúðkaupsferð í New Orleans hélt bellboyinn "okkar" fyrst að ég VÆRI Bo Derek og ætlaði gjörsamlega að fara yfir um í lyftuni. Svo áttaði hann sig á því að Bo gamla væri etv mamma mín, og tönglaði á þessu í heilar tvær vikur. Alex fannst að ég ætti að fá mér svona fléttur einsog Bo er með í einhverri frægri mynd frá ca. 1980. Ég var ekki sammála.

2) Sylvester Stallone hefur boðið mér í glas. Hann spurði ekki hvað ég vildi heldur pantaði bara Wiskey. Ég kláraði það ekki.

3) Ég er ekki ljóshærð "by birth" en klárlega að eðlisfari. Ég er þar að auki klaufi. Eitt dæmi: ég var einu sinni í bílnum hans pabba, og ætlaði að kveikja mér í sígarettu með bílakvekjaranum (hef ekki hugmynd um það hvort að þetta heitir eitthvað annað, en þið vitið hvað ég meina). Ég ýti takkanum inn, stuttu seinna spýtist kveikjarinn út en hann var ekki svona rauðglóandi einsog þannig kveikjarar eru oft. Ég var því efins um það hvort hægt væri að kveikja á rettuni. En í staðinn fyrir að prófa bara, þá ýtti ég vísifingrunum FAST ofan á hið ekki-rauðglóandi svæði. Komst að því að kveikjarinn virkaði bara vel. Pabba fannst ég asni.

4) Stuttu seinna var ég aftur með pabba í bílnum, ætlaði að kveikja mér í sígarettu, ýtti tappanum inn, tappinn skaust út, ég tók hann og sagði við pabba "æi, mannstu, þegar ég asnaðist til að brenna mig á þessu, mannstu, svona....." og til að rifja þetta nógu vel upp endurtók ég leikinn. Tappinn var alveg eins heitur og fyrr. Pabbi fékk það staðfest að ég er ansi.

5) Fæturnir mínir hafa stækkað við meðgöngurnar. Var áður í nr 38 og er núna í 40. Eitt barn í viðbót og þá verð ég einsog L í laginu.

6) Ég lýg þegar ég drekk. Í alvöru, það kemur varla sannleiksorð upp úr mér. Get ekki útskýrt af hverju, en ég verð alveg hraðlygin í glasi. Ég hef meðal annars verið rithöfundur frá New York sem heitir Vanessa (talaði af mikilli innlifun um bókina mína sem heitir "The Razors Edge"....)

7) Ég var læs 4 ára gömul. Sem er svosem ekkert spes, en það virðist enginn vita hvernig ég lærði að lesa og hvorugt foreldrið kannast við að hafa kennt mér að lesa. Kannski var það ímyndaði vinur hennar Erlu sem kenndi mér ????

8) Ég þekki engann annan með eins svartan húmor og ég hef, og ég viðurkenni fúslega að ég get verið algjört kvikindi. Í fyrsta skipti sem maðurinn ætlaði með mér til Íslands hafði hann áhyggjur af því að geta ekkert tjáði sig og vildi læra einhvern frasa til að afsaka dræma íslensku kunnáttu sína. Ekkert mál, ég sagði honum bara að svara "fyrirgefðu, ég er svía drusla". Hann var voðalega ánægður með að geta kunnað að svara (heldur hann) "ég biðst aföskunar en ég kann því miður ekki mikla íslensku." Annað kvikindisdæmi: yngri bróðir minn var með einhverja vini og nokkrar vinkonur í heimsókn, og var alveg að farast úr kúlheitum (hann var svona 17 ára minnir mig). Þá gróf ég fram gamla Richard Marx plötu, bankaði uppá hjá honum, rétti honum plötuna og þakkaði fyrir lánið. Hann væri með morð á samviskuni hefði honum tekist það með augnaráðinu sem hann gaf mér. 

 

Búið !  


Yndislegir

bræðurnir

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband