16.12.2007 | 21:14
Piparkökukarlar, hjónaskilnaður og hákarlamatur
Þessi vika er búin að vera ágæt. Davíð líður vel, og augun hans eru núna orðin alveg skýr og tær eftir aðgerðina. Honum virðist líka líða miklu betur, nokkuð sem gleður móðurhjartað meira en orð fá lýst. Auðvitað er þetta bara byrjunin á löngu ferli, en aðgerðin virðist hafa verið vel heppnuð. Núna erum við í stanslausu eftirliti hjá læknunum, erum uppi á spítala allavega einu sinni í viku þessa stundina. Svo þurfum við að gefa honum kortísón augndropa 6 sinnum á dag, sem er töluverð barátta og verður bara erfiðara og erfiðara. Hann veit alveg hvað er að fara að gerast þegar ég undirbý lyfjagjöfina, og berst á móti. Ekki auðvelt, sérstaklega þar sem droparnir þurfa að fara inn í augun, og maður vill jú ekki vera að nota mikið afl til að koma þessu á sinn stað. Æi, þetta er allt saman frekar þungt í augnablikinu finnst mér. Svo vitum við ekkert hvort að þessi aðgerð hafi haft áhrif á þrýstinginn, en hann verður að lækka með einhverju móti. Lítill verður þessvegna svæfður aftur strax eftir hátíðarnar, og þá verður þessi mæling og vonandi verður það jákvætt.
Allt þetta, áhyggjur og dapurleiki hafa sett strik í reikninginn hvað varðar jólaundirbúning og ég bið vini og vandamenn um að sýna biðlund - jólakortin koma fyrir rest en eru í seinni kantinum þetta árið....
Í vikuni var haldin Lúsíhátið, nokkuð sem svíarnir taka mjög alvarlega. Mér finnst sjálfri sem þessi dagur sé haldinn miklu hátíðlegri en jólin sjálf, skrítið finnst mér sem er vön íslenskum hátíðarsvip og alvarleika á aðfangadegi. Aðfangadagur svíana er mjög afslappaður, fólk er ekki endilega uppáklætt heldur sporðrenna þeir gjarna sínum kjötbollum og pulsum í gallabuxum og stuttermabolum. Allavega, núna er jú Tómas byrjaður á leikskóla svo hann tók þátt í Lúsíugönguni þar. Öll börnin eru þá klædd tilheyrandi fötum, stúlkurnar í hvítum kjólum og strákarnir í annaðhvort piparkökukarlabúning eða jólasveinafötum. Ég fékk múttu til að kaupa piparkökukarlaföt á Tómas, mætti galvösk á leikskólann rétt fyrir gönguna og sveiflaði búningnum. Hann hrundi saman, tárin spýttust útum allt og ég var vísst mjög vond. Hann skammaði mig einsog hund fyrir að hafa ekki keypt jólasveinabúning. Já, hann er bara 2ja ára, en þetta er ungur maður með skoðanir á hlutunum skal ég segja ykkur !!! Monica fóstra var fengin til að miðla málunum og fyrir rest stóð hann og söng hástöfum sín Lúsíulög. Hann hélt áfram að skamma mig þegar gönguni lauk, en samt fékkst hann ekki til að afklæðast sínum piparkökufötum þegar hann háttaði sig, og svaf einn lítill piparkökukarl vært stuttu síðar.
Nú, svo var það piparkökubakstur. Ég sá þetta allt saman í hyllingum, svolítið einsog auglýsing í blaði þar sem hress og kát mamma bakar með þægum og stilltum (og kátum og hreinum) börnum. Við verðum ekki módel í neinum auglýsingum á næstuni..... 1/4 af deiginu át Tómas, 1/4 fór á gólfið, 1/4 endaði í ruslinu þegar Tómas hnerraði á það með tilheyrandi frussi, og 1/4 endaði sem frekar vansköpuð jólatré, stjörnur og hjörtu. Kremið sem átti að skreyta með átti svipuð örlög, eitthvað endaði nú á réttum stað, en mest fór bara útum allt. Ég verð finnandi klessur fram að páskum held ég. Svo fór auðvitað bakaradreng að leiðast, og dundaði sér við að athuga hvort bílarnir hans gætu keyrt í kreminu. Meiriháttar gaman !!
Við hjónin kláruðum svo jólagjafainnkaupin á föstudaginn, skruppum okkur í Toys R´Us og töpuðum okkur gjörsamlega. Í geðshræringu skakkalöppuðumst við út úr leikfangamekka hins vestræna heims og tókum stefnuna á IKEA sem er beint á móti. Lögðum bílnum, og gengum að innganginum. Þá tók Alex í hendina á mér og spurði mig "ertu alveg viss um að þú viljir gera þetta?", með sama alvarleika og dramatík einsog um væri að ræða að "pull the plug" á einhvern kærkominn. Og það var svosem alveg rétt hjá honum, ég rifjaði upp IKEA ferð okkar rétt fyrir síðustu jól, en þá lá við hjónaskilnaði. Við hættum við IKEA hið snarasta, settumst upp í bíl og glöddumst yfir því að hafa bjargað sambandi okkar sem og fjölskyldulífi drengjana okkar !
Í gær skrapp ég ein í bæinn, ekki til að versla heldur fara í prjónakaffi með nokkrum íslenskum konum hér í bæ. Þó ég prjóni ekki, hef aldrei kunnað að prjóna og á örugglega ekki eftir að læra það. Hinar prjóna, ég drekk kaffi og nýt þess að tala við skemmtilegar konur.
Í dag var svo farið á Aquaria safnið, alveg meiriháttar staður. Við sáum ýmsa litríka og flotta fiska, og fylgdumst með þegar hákarlarnir fengu að borða. Alex ætlaði að vera voða fyndinn og sagði að stundum væri óþægum börnum kastað út í laugina til hákarlana.... Aumingja Casper trúir öllu sem pabbi hans segir og varð fyrir smá áfalli.... Aumingja barnið, ekki nóg með að maður hefur jólasvein og hugsanlegan gjafaskort sem stöðuga hótun, núna bætist það við að geta orðið að hákarlahádegisverði.
Sem sagt, allt einsog við má búast hjá okkur ! Takk fyrir innlitið !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.12.2007 | 09:09
Hræðilegt !!!
Mig langar til að biðja alla þá sem hingað líta inn að lesa það sem kom fyrir Erlu vinkonu mína - ég hef aldrei orðið eins slegin og reið einsog eftir þessa hræðilegu upplifun hennar. Á í alvöru að láta svona viðgangast ??? Er þetta það sem íslensk stjórnvöld sækjast eftir að vingast við ??
http://erla1001.blog.is/blog/erla1001/entry/388660/
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.12.2007 | 20:22
Grænnefjað skrímsli og fleira
Síðustu vikur hafa verið annasamar, og einkennast helst af ýmisskonar veikindum með tilheyrandi líkamsvökvum sem hér hafa lekið. Það byrjaði um miðjan nóvember, einn dag þegar ég sótti Tómas á leikskólann stóð meterhátt, grænnefjað skrímsli sem mætti mér í anddyrinu á "heimilinu" einsog mamma kallar leikskólann. Mér brá auðvitað við þessa sjón, og vellti því fyrir mér í nokkrar sekúndur hvort þetta ógnarlega monster ætlaði að ráðast á mig eða hvað. Á meðan ég vellti þessu fyrir mér byrjaði veran að gefa frá sér hljóð... Veran reyndist vera barn, og hljóðið sem kom stafaði af nef-uppísogi sem hefði gert Nilfisk ryksugu græna af öfund. Í alvöru, ég held að helmingurinn af skítnum sem lá á gólfinu í andyrinu hafi horfið upp í nefið á barninu. Á tali um grænt, get ég bara látið það nægja að þannig var jukkið sem lak úr Tómasi daginn eftir.... Hálf pirruð á fólki sem setur augljóslega veik börn á leikskóla hélt ég honum heima í tæpa viku.
Að viku liðinni hélt kátur kútur aftur á leikskólann, og öllum var létt. Þegar ég sótti hann þann daginn mætti mér annað skrímsli, en það var ekki grænt nef heldur gul augu... Jepp. daginn eftir var Tómas kominn með augnsýkingu með tilheyrandi gulu jukki í þetta sinn. Vegna þess að það styttist í stóru aðgerðina hjá Davíð, og hversu smitandi þessar sýkingar eru fór ég með Tumaling á fund heimilislæknis sem gaf okkur smyrsl, sem átti að fara INN í augað 4 sinnum á dag. Hann var hin hressasti með smyrsluppákskriftina, en ég vellti því helst fyrir mér hvort þessi maður hefði yfirhöfuð komist í kynni við 2,5 ára barn. Ég meina, hversu auðvelt átti þetta að vera ?? Það sýndi sig vera mikil þraut að koma þessu bévítans smyrsli í augun, en gula jukkið hvarf nú fyrir rest.
Jukkið þýddi auðvitað 5 daga heimaveru, með Tómasi sem var auðvitað ekkert lasinn þannig, svo að hann var jafn hress og uppátækjasamur og venjulega. Ægilega gaman. Þegar ég reyndi að koma einhverju í verk, einsog til dæmis að búa um rúmin stóð hann mér við hlið og ruglaði allt á ný. Ég dundaði mér við að brjóta saman þvott, og þá dundaði hann sér við að rífa hinum fullkomlega og vel frágengnu flíkum aftur niður á gólf. Gasalega gaman allt saman !!
Svo fór síðasta vika í margar læknisheimsóknir vegna Davíðs, og svo var stóra aðgerðin í gær. Þungur dagur að sjálfsöðgu, ekki ófá tárin sem féllu, margir kaffibollar drukknir, og einsog karton af sígarettum fengu að hjálpa til við að komast í gegnum þetta. Læknirinn byrjaði á svo kallaðri klíniskri skoðun, og mældi þá m.a. þennan þrýsting sem er aðal bófinn í þessu öllu saman. Þessi þrýstingur á að vera á milli 8 og 10, en mældist í 22 á hægri hlið og 28 á vinstri.... (10 og 20 fyrir 5 vikum), svo það var ákveðið að drífa sig í því að skera bæði augu. Sagt og gert, og að löngum degi liðnum fórum við heim.
Og viti menn, það ótrúlegasta sem ég hef upplifað beið mín í morgun. Ég vaknaði við að hann lá mér við hlið og raulaði, ég sneri mér við og þar blasti við mér sjón sem ég hef ekki fyrr séð. Litla elsku barnið mitt með galopin augu, skýr og tær, djúpblá og stór. Fallegustu augu sem ég hef séð !!! Nú er að vísu enn viss þoka eftir, en munurinn er ótrúlegur, og hvernig hann horfir í kringum sig er dásamlegt !!! Hann var orðinn að engu, sat bara og horfði í gólfið og reyndi að hlífa sjálfum sér við allri birtu og að horfa upp á við, allur líkaminn var einhvernveginn samandreginn. Það hefur verið svo óskaplega sárt að horfa upp á þetta, og að sjá hann bara sólarhring seinna, þó að hann sé bólginn og marinn og þrýstingurinn alls ekki alveg farinn. Hann situr beinn í baki og horfir með stórum opnum augum í kringum sig. Dásamlegt !!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.11.2007 | 19:06
Ha?
(Pabbi ! Ekki lesa þessa færslu !!)
Var í ungbarnaeftirlitinu í dag, og læknirinn spurði mig hvort mig vantaði að athuga með getnaðarvarnir. "Nei" svaraði ég, "ég á tvö börn, bara í fínum málum, engin þörf á neinu þannig." Hló hátt að því á heimleið að konan héldi í alvöru að það væri einhvernsskonar bomserí heima hjá mér. Hló ennþá þegar Alex kom heim og ég sagði honum frá brandara dagsins.
Hann hló ekki..... Heldur fannst mér hann tuða eitthvað um að það væri nú alveg í lagi að útvega allavega tækifærið eða eitthvað í þá áttina.... Hann var allavega ekki alveg að fatta brandrann einsog ég.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.11.2007 | 21:46
Ertu íslensk ?!?
Ég vil byrja þennan pistil á því að þakka fyrir góðar kveðjur sem bárust okkur vegna Davíðs. Allt gekk einsog við bjuggumst við, og meira að segja erfiðir dagar líða að lokum fyrir rest. Því miður þurfum við að endurtaka þennan leik á 4 vikna fresti í ca. ár eða svo, svo að það má alveg halda áfram að hafa stubbinn okkar í huganum.
Annars langaði mig í dag að tala um íslendinginn í mér. Þegar ég var 10 ára gömul fluttu foreldrar mínir til Stokkhólms, og mér var halað hingað í för með þeim. Ekki vildi ég vera hér, nó sör. Mér fannst þetta ömurlegt land, ég hafði allt á hornum mér einsog bara 10 ára stelpuskjáta getur, og var almennt erfið og hudleiðinleg. Íslendingurinn í mér vaknaði, og ég get eftirá viðurkennt að ég skapaði í raun hálfgert skrímsli. Allt var betra á Íslandi, og ég gerði í því að koma því þannig að í umræðum að ég gat stolt sagt frá því að ég sé íslensk. Sama hversu óraunsætt það kannski var, gat ég samt alltaf skotið því inn að ég væri íslensk. Það mátti vera að tala um til dæmis konungsfjölskylduna, þá mátti alveg heyra í mér "já, Victoria krónprinsessa er rosalega fín. En ég veit ekki annars, ég er nefnilega frá Íslandi og þar erum við sko ekki með konungsfjölskyldu". Ég fæ sjálf svolítinn kjánahroll þegar ég hugsa til þessarar þráhyggju sem kvaldi mig svo lengi, en þetta gat nú örugglega verið svolítið skondið stundum.
Það er líka rosalega gaman að vera íslendingur í Svíþjóð, svíarnir eru svo barnalega spenntir fyrir landinu okkar á einstaklega einlægan hátt. Þeir hrópa upp yfir sig af kátínu þegar það kemur í ljós að ég sé frá þessu sögufræga landi, og þeir spyrja mann spjörunum út. Oftast eru þetta nokkuð gáfulegar spurningar, en þó ekki alltaf. Eins get ég varla talið lengur hversu oft ég hef þurft að hlusta á einhvern lítinn svíakjána með bros á vör tjá mér það að hann/hún hafi nú séð "Hrafninn flýgur" svo og svo oft, og þá kemur alltaf þetta: "Ja, jag kan säga ÞUNGUR HNÍFUR", en það er vísst eitthvað rosalega flott sem er sagt í álíka flottu atriði í myndini. Alltaf þarf ég að verða jafn kát yfir kunnáttuni. Og alltaf þarf ég að ljúga því að þetta sé ofsalega flott (maður vill ekki valda vonbrigðum þegar maður sér þessi stoltu bros litlu svíana), og að þetta sé einmitt oft notað á Íslandi. Þungur hnífur já, einmitt.
Svíar vilja helst að Ísland sé ennþá svolítið mikið á Snorraöld. Ég get ekki lengur talið hversu oft ég hef verið spurð um það hvort það sé ekki örugglega eitthvað hræðilegt blóðbað á milli minnar ættar og td. ættarinnar sem á nágrannajörðina. ???????? Hér á ég reyndar smá sögu sem ég segi gjarna frá, og þá kætast þeir enn meira. Ég segi nefnilega frá því að árið 1267 hafi ættmóðir okkar, hún Kringlu-Krá komið að bóndanum á Smára-Lind þar sem hann var í óða önn að stela öllum hestunum þeirra Kringlu-Kráar og manninum hennar, honum Kakó-Malt. Hún varð svo reið að hún náði í heykvísl og drap hann. Ekkert múður á henni Kringlu-Krá. Nú, frúin á Smára-Lind bænum, hún Lækjar-Torg var mjög ósátt við morðið á bóndanum sínum svo að hún drap Kakó-Malt. Síðan eru okkar ættir, Kringlan og Smáralindin, í stríði. Ekki einusinni danski prinsinn, Prins Póló, gat stillt til friðar á milli ættbálkana. Þetta finnst svíum rosalega merkilegt allt saman, og gleypa þessa steypu mína alveg hráa.
Þegar ég var 26 ára bauðst mér tækifæri að flytja heim, og ég gladdist mjög yfir því að fá loksins að finna þann frið sem ég hélt myndi heltaka mig. Mér fannst mig alltaf vanta eitthvað, og á þessum tíma var ég sannfærð um að það væri þessi blessaði íslendingur í mér sem liði svona ílla í útlegðini. Heim ég fór, og uppgötvaði á þriðja degi að ég var alls ekkert heima. Ég vissi ekkert í minn haus og gat alveg eins hafa verið geimvera þarna í kaffinu í vinnuni þegar allt liðið hló sig máttlaust yfir einhverjum Jóni Gnarr sem ég vissi ekkert hver var. Ég vissi ekki neitt um neitt, ég kunni ekki á umgengnisreglur sem öll samfélög hafa, ég þekkti engan og gat aldrei tekið þátt í "já, heyrðu, varstu ekki með honum Óla í bekk, þú veist, bróðir hennar Ástu" umræðunum heldur.
Ein vinkona mín stakk upp á því að við færum í bæinn á kaffihús og bað mig um að sækja sig um átta. Stundvíslega mæti ég, og þá kemur hún til dyra á nærbuxunum, með hárið nýþvegið vel vafið í handklæði á hausnum, ómáluð og bara hress. "Hæ, ég er að taka mig til" segir hún, og ég endaði á því að léttast um ca. 7 kíló þar sem ég svitnaði í úlpuni minni í forstofuni hennar á meðan hún kláraði. "Rosalega mætiru snemma" kallaði hún þar sem hún leitaði að fötum til að fara í. "Snemma?" hugsaði ég, "við sögðum átta!". Svíinn og íslendingurinn ekki alveg að skilja hvorn annan.... Eins var mikið hlegið að mér þegar ég sat á skemmtistað einum og hneyklaðist á hringstiga sem leiddi á milli hæða. "Ég meina, hann er bæði of brattur og þröngur" stundi ég, "hvað ef það kviknar í, þetta er ekki gott mál úr öryggissjónarmiði". Öllum fannst ég afskaplega fyndin, en svíinn í mér meinti þetta alveg, sá var í raun með miklar áhyggjur af því að þessi staður hlyti að vera brjóta einhversskonar öryggislög eða eitthvað. Ég var ekki alveg búin að kynnast "þetta reddast" hugtakinu.... Eins var oft horft undarlega á mig þegar ég dundaði mér við það að raða samviskusamlega á færibandið í kassanum í matvöruverslunini. Ég afturámóti skildi ekki hvernig fólk gat bara hrúgað vörunum sínum svona kæruleysislega, hafði fólkinu ekki verið kennt að maður Á að raða vörunum til að auðvelda fyrir afgreiðslufólkinu ?!?!
Á Íslandi var ég alveg eins mikill útlendingur og hérna í Svíþjóð. Munurinn var kannski sá að ég hafði talið mig vera útlending á vitlausum stað, eftir öll þessi ár átti ég miklu minna sameiginlegt með "mínu" fólki. Ég komst að því að ég er í raun og veru miklu betri íslendingur svona í smá fjarlægð. Ég hef svo gaman af því að vera íslensk, og ég er ofsalega stolt af því að vera frá þessu dásamlega, undarlega, fallega, skrítna og stórkostlega landi.
Í lokin komst ég að því að "að vera heima" þarf ekkert að tengjast neinum landfræðilegum stað, það er hugarástand og tilfinning. Og þá get ég svo sannarlega sagt það að ég sé komin heim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.11.2007 | 21:16
Kærleikur
Ég hef rosalega gaman af því að fylgjast með strákunum mínum, bræðrunum, vinunum, elsku litlu köllunum mínum. Tómas er orkumikill og kröftugur, hann geysist hér um í bíla-og lestarleikjum og sviðsetur hin óskaplegustu slys með klessuhljóðum, ískri og tilheyrandi skransi í farartækjunum. Hann er upp á hlutum, undir þeim, klifrandi og ýtandi stólum að eldhúsbekknum til að sulla aðeins í vaskinum. Honum dettur ótrúlegustu hlutir í hug, fyrr í kvöld var hann allt of þögull í smá stund svo ég þorði ekki annað en að rannsaka, og þá var hann búinn að klæða sig úr öllu og stóð allsber, búinn að príla ofan í stígvél sem ná mér upp að hnjám, honum upp að mjöðm. Ekki hafði honum þótt þetta alveg duga, því hann sveiflaði handtöskunu minni sem hann hafði hengt utan um hálsin á sér, og var kominn með Spidermann húfu eldri bróður síns. Kostuleg sjón.
Hann er upprennandi leikari held ég, með alls kyns stæla og takta, og ekki vantar dramatíkina í hann. Hann er svona persóna sem upplifir hlutina með fullum styrkleik, hann er annaðhvort ótrúlega glaður eða ótrúlega leiður, enginn getur grátið einsog hann þegar honum finnst gengið á sinn hlut. Hann verður svo sááááár. Hann getur líka orðið hrottalega reiður, og þá má alveg búast við kinnhest. Alex greyið verður fyrir reglulegum barsmíðum, en Tómas leggur sjaldan í mig af sama afli. Svo getur hann af sama krafti elskað mann í tætlur, hann kemur stundum þjótandi að mér, kastar sig á mig, grípur um andlitið mitt og öskrar "MAMMA", smellir einum föstum og blautum kossi á mig og þýtur svo af stað. Svolítið einsog að hafa lennt í kærleiksfellibyl þegar hann vill elska mann í smá stund. Oftast hefur hann þó hvorki tíma né áhuga á þannig ástarlotum, það er heill heimur sem þarf að uppgvöta og plokka sundur. Maðurinn minn segir að Tómas sé einsog Emil í Kattholti, og ég verð að vera honum sammála. Uppátækjasamur, prakkari og svolítið stríðin, rosalega mikill strákur, og einstaklega mikill sjarmör.
Davíð litli er svo algjörlega önnur útgáfa. Svo rólegur og blíður, glaður og bjartur. Tómas nennti aldrei að knúsast eða bara liggja í rúminu og hjala, hann fæddist reiðubúinn til að rannsaka heiminn. Davíð hinsvegar malar af ánægju og gleði þegar við kúrum okkur saman, hann leggur litlu hendurnar á mig og brosir einsog til að segja "ooooo hvað þetta er gott." Hann hefur alveg frá fæðingu sofið rosalega vel, lengi og vært. Hann er óskaplega þægilegur og rólegur, núna er hann farinn að geta haldið á einhverjum litlum hlutum og leikur sér að því að skoða, þefa, smakka og skoða aðeins meira. Þeir eru rosalega ólíkir í útliti líka, þó að það sé samt frekar sterkur svipur.
Eins ólíka menn og þessir tveir hafa að geyma, er alveg magnað sambandið þeirra á milli. Strax frá fyrstu stundu hefur Tómas verið yfir sig ástfanginn af bróður sínum, og aldrei í eitt einasta sinn hefur hann beint neinni reiði eða leiða að litla bróður sínum. Þvert á móti, Tómas getur stundum tekið sér augnabliks frí til þess eins að stökkva að Davíð, taka í höndina á honum og gæla aðeins við hann, og svo stekkur hann af stað aftur til að raða í bókahylluni minni (þar sem honum finnst greinilega alveg einstaklega hallærislegur staður til að setja bækur sem þar af leiðandi er oftast dregnar út og stúfað undir sófann...). Davíð er alveg eins, frá því að hann fór að geta fest augun hafa þau alltaf fylgst Tómasi, ef Davíð hlær upphátt er það eiginlega undantekningalaust að einhverju sem Tómas er að gera, og hann spriklar og hamast í ruggustólnum sínum þegar stóri bróðir hans æðir hér um í einhverjum að sínum leikjum. Mér finnst það svo falleg að fylgjast með þeirra samskiptum og þessu sterka bandi þeirra á milli. Það er einsog þeir tali saman á máli sem enginn annar skilur. Þeir virðast skilja hvorn annan.
Á morgun bíður okkar spítalaför með Davíð litla, nokkuð sem ég kvíði mikið fyrir. Og þetta vissi Tómas. Ég veit ekki hvernig hann vissi það, því það eru ekki nema nokkrir dagar síðan þetta kom upp á teninginn, og ég hef ekkert viljað hræða hann með því að ræða um lækna og annað við hann. En rétt áður en hann sofnaði í kvöld, lá ég við hliðina á honum uppi í rúmi og fór með bænirnar. Þá leit hann á mig og sagði "Mamma leið, Davíð lasinn". Ég vissi ekki hvað ég átti að segja og gat ekki ímyndað mér hvernig hann gæti hafað áttað sig á þessu. Ég svaraði játandi en sagði að það eigi að laga Davíð á morgun. Þá var einsog hann andvarpaði smá, brosti, hvíslaði svo "Davíð" og sofnaði.
Ég táraðist, og ekki í fyrsta sinn. Það er magnað að vera mamma þeirra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.10.2007 | 18:29
Leikskólastríð
Í þessari viku hefur nú þegar tvennt virkilega áhugavert og skemmtilegt komið fyrir, sem ég á til með að segja frá.
Fyrst var það á mánudaginn, þegar ég fór með Krumma minn í ungbarnaeftirlitið. Við sátum frammi í biðstofuni, ég með litla stubbinn í fanginu og var að hjala eitthvað við hann. Svona hjal sem (í mínum heimi allavega) er bara saklaust, og frekar venjulegt. Þið vitið "jæja litli minn, hvað ætli að þú sért nú orðinn þungur? Eigum við svo að skreppa í búðina á eftir og finna vetlinga handa mömmu?". Frekar heiladauðar samræður, en svona hjala ég allavega við börnin mín á stundum einsog þessari þegar maður er bara að bíða eftir einhverju eða er að dunda sér heima fyrir. Þið kannist örugglega við þetta. Allavega, í biðstofuni situr önnur mamma með sitt litla barn sem er á að giska jafngamalt mínum litla, svona ca. hálfsárs sem sagt. Mamman horfir á mig, vel og lengi, á meðan ég er að hjala svona og segir svo við mig "Ehhh, hérna, sko, af hverju ertu að tala svona við hann?". Ég vissi í raun ekki alveg hvernig ég átti að svara þessu en sagðist bara tala svona við hann um allt og ekkert, bara til að fylla þögnina og svo að hann heyri í mér, þetta séu okkar samskipti. "Já, en, þú veist, hérna, hann er ekkert að skilja þig" svarar gáfnaljósið. Nei, ég sagðist nú alveg átta mig á því og sagðist ekkert búast við neitt sérstaklega heimspekilegum svörum frá honum, en svona læra nú börnin samt og þó að hann kannski skilji mig ekki þá er hann jú næmur fyrir tóninum og röddinni minni. "Já, þú ert fyndin" bætti Móðir Ársins við, "aldrei að ég tala við mín börn, þau fatta ekkert hvort sem er".
Kannski er ástæða fyrir því að þau skilja ekkert, ef það er aldrei talað við þau? Aumingja börnin....
Svo lennti ég í smá rifrildi á leikskólanum, og þeir sem þekkja mig vita að það er kannski ekkert neitt rosalega óvenjulegt að vita af mér í einhverjum deilum... Þannig er mál með vexti, að á þriðjud. var, var haldinn fundur fyrir alla nýja foreldra á leikskólanum, svona til að fara yfir ýmislegt, og kynnast skólanum, fóstrum og hinum foreldrunum betur. Svaka fínt allt saman, saman safnast 12 mæður (kem aftur að þessu með að bara mæðurnar mættu), og leikskólastjórinn fór yfir reglur, stefnu skólans, og hitt og þetta. Ég er rosalega ánægð með þetta allt saman og hugsa mér að Tómas hljóti að njóta sín vel þarna á daginn. Svo fer hún að segja frá að það sé s.k. drama-herbergi þar sem börnin geta farið í ýmsa búninga og leikið sér, "já, svona prinsessukjóla eða riddarabúninga og þannig" segir hún. Ég er ennþá alveg í skýjunum yfir þessu öllu saman og sé alveg fyrir mér hvað Tuma mínum hljóti að finnast svona drama-herbergi skemmtilegt og að fá að njóta ímyndunaraflsins sem hann hefur ótæmandi.
Þá fara nokkrar mömmurnar að pukra aðeins úti í horni og ókyrrast mikið, og foringi þeirra tekur til málana. Hún er mjög æst á þessu stigi, næstum því hýsterísk, yfir þessu "kynjaflokkunarsjónarhorfi" sem virðist viðgangast þarna. Enginn skilur neitt, en hún er allt of æst til að stoppa núna. Hún heldur þarna þrumu ræðu um það að dóttir hennar á sko nokk ekki að fara í einhverja helv... prinsessukjóla bara af því að hún er stelpa, dóttir hennar getur sko bara alveg eins verið í riddarabúningunum, og dóttir hennar á vísst að vera útí á vellinum að smíða og fara í bíló skildist mér en þarna var farið að frussast frekar mikið, og svo truflaði það mig svo að hinar mömmurnar kinkuðu svo ákaft kolli þarna á bak við þessa æstu að ég hafði áhyggjur af því að þær færu hreinlega að meiða sig. Allavega, dætur þeirra eiga sum sé ALLS EKKI að leika sér að einhverjum djöf... bökunarofnum eða ansk... dúkkum, ó nei, svona kynjahlutverkamiðaldablablablabla hélt hún væri bara til í Miðausturlöndum og ég veit ekki hvað og hvað. Ein músin þarna á bakvið hana sagði stolt frá því að dóttir hennar á sko ekki eina einustu bleika flík, né spangir í hárið, og önnur músin táraðist næstum því þegar hún sagðist hafa bannað (sáuð þið þetta ?? BANNAÐ !!!) dúkkur heima hjá sér því að hennar dóttir átti sko ekki að læra það að það væri hennar hlutverk að sjá um barnið.
Þarna var ég farin að bæla svo niður hláturinn að það var annað hvort að segja eitthvað, eða kafna. Ég talaði.... Byrjaði á því að benda á að á þessum fundi væru bara mömmur, nokkuð sem mér þótti afar athyglisvert þar sem jafnrétti kynjana væri þeim svo mikið mál - hvar eru þá pabbarnir ?? Engin þeirra svaraði, svo ég hélt áfram. Mín skoðun er sú að jafnrétti sé að sjálfsögðu svo sjáfsagt mál að það þurfi ekkert að ræða það neitt frekar akkúrat núna, en ég fer ekki að troða strákunum mínum í bleikar peysur og gefa þeim Barbie dúkkur í jólagjöf fyrir það. Ef þeir vilja dúkkur þá er það hið besta mál, en jafnræði fæst ekki með því að þvinga börnin til að gera eitt né neitt, eða að neita þeim um annað. Þá hófst rifrildið, þar sem ég er greinilega svo gamaldags að þær trúa því varla, þeirra dætur eiga vísst að læra eitthvað sem heitir "hið kynjalausa samfélag" og svo framvegis og svo framvegis.
Eftir frekar langa, háværa og ansi skrautlega umræðu náði aumingja leiskólastjórinn að breyta um umræðuefni en Skessurnar voru ofsalega vondar út í okkur hinar mömmurnar sem vilja leyfa börnunum sínum að vera börn og leika sér að því sem þau vilja.
Mig langar til að koma því til skila að umrædd börn eru tveggja ára. 2 ÁRA !!!
Það fyndna var í raun í dag, þegar ég sótti Tómas því þá stóðu Kynjalausu Skessurnar við hliðið og voru að smala saman nokkrum börnum sem áttu að fá að fara á rólóvöllinn og leika sér saman. Þegar ég gáði sá ég að það voru bara stelpur sem voru í þeim hópi, og ég gat ekki annað en að fella smá athugasemd þess efnis. Það var fátt um svör þegar ég benti á að það væru frekar undarleg skilaboð sem blessaðar dæturnar fengu, þegar engir strákar væru með í vinahópinum.
Byrjar ekki annars jafnrétti heima fyrir ? Læra ekki börnin af okkur foreldrum, ömmum og öfum ? Hvaða skilaboð eru þá þetta, að banna dúkkur en bjóða svo bara stelpum í leikhópana ? Undarleg uppeldisaðferð þetta, að mínu mati. Hvað finnst ykkur ?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.10.2007 | 20:23
La la la la
Búin að bíða og bíða og bíða eftir því að 1) eitthvað spennandi og frásagnavert gerist eða 2) að mér detti eitthvað sniðugt í hug til að skrifa og segja frá, en ég gefst upp. Játa mig sigraða og sætti mig við það að hversdagsleikinn er á þessari stundu alveg ótrúlega leiðinlegur og óspennandi. Hef ekki frá neinu að segja. Tumi er heima með einhverja pest, Davíð þverneitar að drekka úr pela og þá meina ég NEITAR, hann brjá-há-há-há-hálast þegar við reynum svo að ég er fangi á mínu eigin heimili þangað til barnið fæst til að hleypa mér út. Missti þar af leiðandi af afmælisveislu Caroline vinkonu um helgina og er búin að vera hundfúl yfir því í nokkra daga! Annars er ég að undirbúa skírnina núna sem verður 20 október, ekki má það vera degi seinna ef hnoðrinn okkar á að komast í blessaðan kjólinn !!
Annars datt mér í hug um daginn hversu afstæðir hlutir geta verið. Mér tókst að láta frá mér athugasemd sem var skrifuð í flýti og algjöru hugsunarleysi, og mátti túlka sem bæði niðrandi og móðgandi en var að sjálfsögðu ekki meint þannig heldur bara svolítið misheppnað grín. Allavega, sú sem ég beindi athugasemdini til fékk frá mér lengsta aföskunarbréf sem ritað hefur verið á Norðurlöndunum sl. 147 ár held ég, og hún var sem betur fer hvorki sár né fúl og skildi alveg hvað ég hafði meint. Hún sem sagt misskildi mig ekki á þann hátt sem ég óttaðist, heldur deildi hún kannski þessum húmor mínum. En húmor getur verið rosalega afstætt fyrirbæri, það sem mér finnst fyndið getur öðrum þótt algjörlega þrautfúlt eða meira að segja móðgandi. Svo er það líka þannig að þegar manni er hennt inn í einhverjar séraðstæður sem eru kannski erfiðar eða þungar að bera, er oft hægt að ala með sér "húmor" til að verjast gegn erfiðleikum. Ég td. á það til að segja hjólastólabrandara, eða stynja hátt "oooooh hvað ég hlakka til að geta fengið svona fatla merki í bílinn minn" ef ég finn ekki bílastæði. Þeir sem standa mér næst og elska mig mest eiga oft erfitt með þennan húmor, fyrst og fremst vegna þess að þau eru á öðrum enda tilfinningaskalans í þessu máli. Ég hinsvegar bý með ótta og hræðslu sem fylgir því að vera með MS, og til að bogna ekki alveg verð ég að gera grín af og til. Ég skil það að öðrum finnist þetta bara ekki neitt fyndið, en ég verð að gera grín....
Svo er það líka það að ég MÁ gera grín, ég er sú sem er veik. Ef einhver sem ég etv þekki ekki neitt færi að gera grín að fötluðum eða fólki í hjólastól eða mínum sjúkdómi væri það að sjálfsögðu ekki það sama. Eins má nefna eiginmann frænku minnar, hann er ameríkani af afrískum uppruna (er það ekki annars það rétta, politically correct að segja það? African American allavega). Hann notar n-orðið til hægri og vinstri, það er n****r hitt og n****r þetta, en mig grunar að ég myndi ekki lifa neitt lengi ef ég segði þetta !!! Annað dæmi sem ég hef oft hugsað um og rekið mig á undarlegheit varðandi, og það er þetta með að vera stjúpmamma. Segjum sem svo að ég sé einn daginn alveg rosalega þreytt á Tuma mínum, hann er búinn að vera með frekju og er bara erfiður einsog börn stundum eru. Þá má ég auðvitað stynja "ég þooooooooooooli ekki þennan krakka, má ég ekki bara selja hann???" og allir í kringum mig skilja mig svo vel, koma með hughreystingarorð og segja mér að þrauka, og að þetta muni batna. En ef að stjúpsonur minn er erfiður einn daginn, með mótþróa og frekju, læti og dónaskap og ég myndi segja það sama um hann og um "minn" son, þá yrði allt vitlaust !!! Samt er ætlast til þess að ég ali hann upp og elski sem minn eiginn, samtímis sem ég má alls ekki segja neitt um hann. Sem sagt, ég á að vera betri móðir gagnvart honum en gagnvart mínum eigin börnum, og því er ég ekki sammála. Ég er bara sama, ágæta móðir þeirra allra, ég geri mitt besta og meira er ekki hægt.
Haustið er komið og skógurinn búinn að taka á sig fallega liti, það er virkilega gaman að fara í morgunlabbitúr með Davíð í (nýju) kerruni sinni. Ég hef alltaf elskað haustið, mér líður best á þessum tíma árs, loftið er hreint og tært, aðeins farið að kólna og þá er gott að fara í stóra og hlýja peysu á morgnana, og svo veit maður að nú er farið að styttast til jólana og það er alltaf jafn gaman líka!
Jæja, áður en ég fer að segja frá degi mínum í ítarlegum og leiðinlegum smáatriðum slæ ég botn í þetta algjörlega tilgangslausa blogg!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.9.2007 | 18:29
Ágætis helgi
Nú er helgin að líða að lokum, og hjá okkur er búið að vera fullt prógram. Alex er heima á föstudögum í svo kölluðu fæðingarorlofi, en í mínum huga er hann heima í "flytja hluti, lyfta þungum hlutum, laga smá til, hlusta á mig segja honum hvað við eigum eftir að gera í íbúðinni áður en hún fer á sölu, bera þunga poka úr matvörumarkaðnum og fara með/sækja drasl í og úr geymslunni" fríi á föstudögum. Eitthvað finnst mér nú einsog við þyrftum kannski að tala saman, hann virðist ekki alveg vera að skilja mig.... Föstudagurinn fór allavega, einsog gefur að skilja, í reddingar (og flutning af dóti), skreppitúr á haugana með meira dót sem ég loftaði ekki sjálf, og svo var farið í eftirlætis búðina mína. Þeir sem þekkja mig vita að "búðir" svona almennt séð eru allar eftirlætis búðirnar mínar, en það er samt ein sem ég elska mest. Babyland. Æ löv ðis pleis. Þarna get ég vafrað um í langan tíma, skoðandi rúm og rúmföt, alls kyns beibí dót, kerrur, snuð, föt, dót, nefnið það bara. Í þetta sinn var þó verið að fara í ákveðnum tilgangi, nefnilega kerruinnkaup. Ég veit ekki alveg hvernig mér tókst að draga manninn minn með mér, OG að fá hann til að samþykkja þetta, þar sem ég er með kerrufíkn á háu stigi sem hann bara skilur ekki. Ég er hérmeð búin að kaupa samtals 9 (!!!!) kerrur síðan Tómas fæddist fyrir rétt rúmum 2 árum. En bara svo þið haldið ekki að stigagangurinn minn sé orðinn einsog kerrukirkjugarður þá vil ég taka það fram að ég sel alltaf "gömlu" kerruna sem ég er orðin leið á áður en ég kaupi nýja. Kannski ekki með neinum gróða svosem, en við erum allavega ekki að tapa neitt rosalega á þessum hégóma í mér. Ekki neitt rosalega mikið tap. Þannig séð. Allavega, nú er Tómas kominn með Brio Sitty kerru í brúnu og svörtu og Davíð er kominn með Teutonia Rocky kerru í dökkbláu og rjóma lit, og ég sé ekki betur en að þeir séu alveg ofsalega ánægðir með þetta. Ég er ánægð með þetta allavega.
Á laug. var svo farið í barnafmæli, nokkuð sem að öllu jafnan er virkilega langt niðri á listanum mínum yfir það sem mér finnst gaman að gera. Ég meina, er gaman af því að vera í sal með ca 20 krökkum sem öll eru á mismunandi stigi sykuráfalls, að nálgast mörrkin fyrir móðursýkiskast, öll einsog epli í framan af hita og æsing, afmælisbarnið í frekjukasti útu í horni af því að pakkarnir eru allir búnir/rétta dótið fékkst ekki/eitt dótið er þegar bilað og svo framvegis. Nja, ekki neitt rosalega gaman, þannig. En hvað, hvað gerir maður ekki fyrir blessuð börnin.... Tómas var einmitt einsog epli í framan og stóð í litlum svitapolli hvert sem hann fór, og aumingja litli Davíð verður held ég aldrei sá sami eftir hávaðann og djöflaganginn í krökkunum þarna. Frelsinu fegin flúðum við hjónin með okkar drengi, og löbbuðum heim með sitthvora (splunkunýja) kerru þar sem sitthvor strákurinn svaf sem fastast.
Í dag var svo barnastarf íslendingafélagsins og þá var hisst inni í bæ á stórum rólóvelli í einum almenningsgarðinum. Rosalega vel heppnað og gaman að hitta aðra eyjaskeggja sem hingað hafa villst. Auglýstur tími á hittinginn var 10 svo við mættum sakmvæmt íslensku klukkuni okkar, stundvíslega kl. 11:17. Alex er hættur að æsa sig yfir þessu fyrirbæri með íslenska stundvísi, og hann er líka búinn að læra á hugtakið "blessaður vertu, þetta reddast." Ég var í smá tíma að brjóta niður sænsku ást hans á reglum og þessháttar, en núna finnst mér hann vera að nálgast þetta unaðslega íslenska hugarástand þar sem allt reddast einhvernveginn, reglur eru smá sveigjanlegar og hámarkshraði í umferðinni þarf ekkert alltaf að vera sá sami og það sem stendur á skiltunum.....
Bless í bili !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.9.2007 | 19:09
Meira dauð en lifandi
Þannig hafa allavega síðustu vikur verið, sem kann að útskýra þögnina hér á blogginu mínu. Eftir að Tómas the Terminator byrjaði á leikskólanum hef ég í raun verið að ná mér eftir langt og þreytandi vor og sumar. Fyrstu tvær vikurnar eftir að hann byrjaði af fullu, skreið ég heim og upp í rúm með Davíð mínum sem enn sem komið er virðist vera á sama máli og ég - það er gott að kúra ! Svo þegar mér fannst ég vera búin að ná mér nokkurn vegin og vera orðin sprækari hef ég verið að dunda mér í hinum ýmsu verkefnum sem hafa þurft að mæta afgangi hér á heimilinu í allt of langann tíma. Þó svo að það sé ca. ár í að við flytjum er samt hitt og þetta sem þarf að gera, og allt tekur þetta sinn tíma. Ég get allavega með stolti tilkynnt að eldhússkáparnir okkar eru hreinir og öllu drasli sem hafði sest að þar hefur verið útrýmt.
Svo erum við byrjuð að flytja á milli herbergja, og til að halda í okkar hefðir gerum við þetta á eins óskipulagðan og bjánalegan hátt einsog hugsast getur. Sömuleiðis reynum við að skilja hvort annað alls ekki þegar hinn aðilinn er að reyna að koma einhversskonar skipulagi á laggirnar, eyðileggjum gjarna það sem hinn var byrjaður á, tölum ekki saman í smá stund og hlægjum svo að því hvað við erum miklir kjánar ! Við getum verið svolítið dofin bæði tvö....
Samt verður að viðurkennast að maðurinn minn er dofnari en ég. Í fyrsta lagi er hann ótrúlega viðutan, ég hef í raun aldrei hitt neinn sem er eins mikill prófessor og hann að því leiti. Svo getur hann verið frekar dofinn. Einsog um daginn, hann var í vinnuni og gengur framhjá forstjóranum og sölustjóranum. Þeir hóa í hann og segja "Hei, gettu hvað, við erum hérna með nokkra miða á Metallica um helgina." Hér má stinga því að, að maðurinn minn ELSKAR Metallica, meira en mig held ég meira að segja. Það má líka benda á það að fyrirtækið hans er einmitt oft með alls kyns svona miða sem þeir gefa starfsmönnum sínum, nokkuð sem hann veit vel og hefði því átt að fatta strax hvert þeir voru að fara. Haldið þið að maðurinn minn hafi sett saman 2 og 2? Nei. Nei nei nei. Í staðinn segir hann glaður og hress "Jáááá, sjitt maður, Metallica, þeir eru geeeeeðveikir", svo til að sanna sitt mál gerir hann nokkur virkilega kúl loftgítara múvs út í loftið, sveiflar aðeins ímynduðu síðu hári til hliðar, gerir svo nokkkur trommusóló út í loftið og gengur burt, raulandi "Enter Sandman". Mega kúl gaur. Þá helgi voru tónleikarnir og hann var ótrúlega svekktur yfir því að miðarnir voru búnir þegar við reyndum að fá miða. Svo á sunnudagskvöldinu fattar hann allt í einu. Þeir voru að bjóða honum miða.....
Það er stundum virkilega gaman að búa með þessum manni....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)