Vil ekki !!!

Gat ekki annað en hlegið þegar eftirfarandi atriði átti sér stað fyrir stuttu. Ég bað Alex um að sjá um að hátta Tómas. Ekki alveg sannfærður um að það væri góð hugmynd, fór faðirinn á fund sonarins inni í Tómasarherbergi, og þá heyrðist þetta:

A: Komdu hérna, ég ætla að skipta um föt á þér

T: NEI

A. Jú, komdu

T: NEINEINEINEINEI

A. Jú, komdu

(Svona hélt þetta áfram í smá stund, þangað til ég bara varð að fá að leggja mitt til málana og stakk upp á því við Alex að hann færði sig kannski til Tómasar í staðinn, og reyndi aftur. )

A: Komdu nú úr buxunum, svona já, nei bíddu, ÁI, HEY !!! Bannað að sparka í pabba !!

T: Ljóti pabbi (hleypur berrassaður um alla íbúð og veifar bleyjuni sem hann átti að fara í)

A: (búin að ná í soninn aftur eftir smá eltingarleik og glímu) Svona já, sko, nú skulum við koma í bolinn okkar, nei NEI NEI EKKI SVONA !! EKKI PISSA Á PABBA !!!

(Hér kemur hann fram og segist ekki geta klætt son okkar. Ég segist ekki nenna því, hann verður að sjá um þetta. Hann er uppgefinn. Fer samt aftur inn í herbergið til Tómasar).

T: Pabbi blautur ?

A: Já, þú pissaðir á mig

T: Tómas pissa !! HAHAHAHAHAHHA

A: Já, voða fyndið. Svona, nú skulum við koma í bleyjuna. ÆI, villtu ekki lemja pabba í hausinn ??

T: VIL EKKI FARA Í FÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖT !!!!!!! GARG GARG GARG CRASH CRASH BOOOOM GARG GARG 

Get bætt því við að það endaði með því að Tómas fór þegjandi og hljóðlaust í náttfötin sín. Þegar ég skarst í leikinn. Mama Power !!

Í dag hringdi í mig kona sem heitir Marlene, og hún á son sem heitir Davíð og sá er einn af örfáum börnum með sama sjúkdóm og minn Davíð. Það var bæði gott og sárt að tala við hana, og ég var svolítið þreytt í sálini þegar við kvöddumst. Ég var samt óskaplega fegin að fá að tala við hana, og fá það sem gæti verið smá innsýn í framtíð okkar. Hennar Davíð var skorinn 5 sinnum á sl. ári, en hann er bara með gláku á öðru auganu þar sem minn Davíð er með á báðum. Marlene er að læra blindraletur til að undirbúa sig fyrir það að sonur hennar þurfi að læra það seinna meir, og hún benti mér mjög varfærnislega á að gera það kannski líka. Hennar sonur er eiginlega alveg blindur á slæma auganu sínu. Við töluðum lengi og opinskátt saman um allt sem þessu fylgir, tilfinningar okkar mæðrana og áhyggjur sem við höfum. Eftir að ég kvaddi hana læsti ég að mér inni á baðherbergi til að vera ein með mínar hugsanir og tilfinningar í smá stund. Helst af öllu vildi ég gera einsog Tómas gerir, og henda mér á gólfið og öskra "vil ekki !!!". En þann lúxus hef ég ekki, svo ég þerraði tárin og fór fram til að koma í veg fyrir að Tómas kveikti í gardínunum okkar. 

Nú fer að koma að því að við setjum íbúðina okkar á sölu, í vikuni kom fasteignasali til okkar og hún vill setja ágætis verð á íbúðina, eða næstum því helmingi meira en við keyptum hana á fyrir tæpum 5 árum. Gaman gaman ! Nú er bara smotterí sem þarf að athuga og laga, áður en við auglýsum hana. Svo ætlum við strákarnir að vera heima allan júlímánuð, svo það er margt og mikið sem má hlakka til þessa dagana.

Fréttum lokið, gott kvöld.  


Aumingja, aumingja ég

Ég á svo ótrúlega bágt í dag, öll vorkun er vel þegin. Aumingja ég. Eða öllu heldur, aumingja magavöðvarnir mínir, sem hurfu einhverntíman snemma á árinu 2005, og eru við að rísa upp á ný. Ég er nefnilega byrjuð í pílates jóga, og er komin aðdáunarverða 3 daga inn í prógrammið. Já, og bara ekki hætt ennþá !! Þetta er vægast sagt algjör horror. Og þvílíkar pyntingar !!! Ekki yrði ég hissa ef viss bandaríkjaforseti fyrirskipaði svona ómennskan tortúr á Guantanomo fangana. Hvar er Amnesty International þegar ég þarfnast þeirra mest ?!! Getur ekki einhver bjargað mér frá sjálfri mér ? Vonandi uppsker ég eitthvað, því þessi vesalings skrokkur minn hefur svo sannarlega séð betri daga. Bíðið bara, ég verð orðin skorin fyrir sumarið !!!

Á tali um sumarið, erum við komin með plön. Við komum heim, öll hersingin, í byrjun júlí og verðum 2 vikur eða svo. Kannski að ég stoppi aðeins lengur, en við verðum allavega öll saman í 2 vikur. Ferð norður er að sjálfsögðu ómissandi, og svo bíð ég bara eftir að matarboðin og kellingarhittingar fari að hrynja yfir mig !! Endilega, ekki fara í utanlandsferð 1-16 júlí (nema þú viljir endilega forðast okkur.)

Í gær kom Tómas heim af leikskólanum og tilkynnti mér að það væri ógeðslegt að vera með bleyjur og hann geri ekki þannig lagað lengur. Það var og, hann hleypur í tíð og ótíð á koppinn sinn, og stendur sig ótrúlega vel. Í morgun fórum við saman í bæinn og keyptum nærbuxur (8 st takk fyrir mig) sem hann fékk sjálfur að velja sér, sem laun og hvata. Merkilegt alveg, hann ákvað þetta bara sjálfur !! Deginum áður vorum við Davíð í ungbarnaeftirlitinu, og þá fengum við smá ábendingu um að hann hefði staðið í stað hvað varðar þyngd og lengd í nokkurn tíma. Allt mjög eðlilegt í raun og veru, miðað við að þetta litla barn hefur verið svæfður 3 sinnum síðan í nóvember, gengist undir langann og flókinn uppskurð, og er á sterkum steralyfjum. En samt, hann má alveg fara að borða betur fannst mér og ljósmóðurinni, enda er ég orðin ansi þreytt á því að sjá honum fyrir allri fæðu og næringu. Og það var einsog hendi væri veifað, hann tók þetta svona til sín og hefur varla gert annað en að borða síðan. Allt í einu varð lífið miklu einfaldara, Tómas búinn að vera bleyjulaus í tvo daga og Davíð litli farinn að borða almennilega. Þetta hefur alveg rosaleg áhrif á bæði mig og Alex, við hreinlega svífum hér um og eigum ekki orð yfir því hvað allt er auðvelt !!

Ég rak augun í skemmtilega umræðu einhversstaðar, um daginn. Þá var spurt "ef þú gætir skrifað sjálfri þér bréf í dag, sem bærist þér þegar þú varst 15 ára, hvað myndir þú skrifa ?". Ég er búin að hugsa mikið um þetta, og dettur eftirfarandi í hug:

"Kæri vitlausi táningur !
Hættu að hafa áhyggjur, slakaðu á, pældu minna í strákum og meira í skólanum, trúðu á sjálfa þig. Veldu vini þína vel, og komdu vel fram við þá, brotið traust er erfitt að vinna aftur. Mamma þín og pabbi eru ekki eins vitlaus og þú heldur, hlustaðu aðeins meira á þau. Ekki flytja til Englands, það endar bara ílla. Þú ert ekki feit. Þú ert ekki ljót. Þú þarft ekki að þykjast að vera neinn sem þú ert ekki, þú ert alveg ágæt einsog þú ert. Farðu vel með líkama þinn, og heilsuna. "

Svo var það nú ýmislegt annað, en ég set það ekki inn hér... En svo fór ég að hugsa, ef ég hefði fengið þetta bréf, og hlustað á sjálfa mig, hefði ég þá orðið sú sem ég er í dag? Ég meina, eru ekki meira að segja mistökin og sárindin líka nauðsynleg, til að gera mig að þeirri sem ég hef orðið ? Ég komst allavega að þeirri niðurstöðu að vel flest sem hefur gerst í mínu lífi þurfti að gerast til að koma mér á þennan ágæta stað sem ég er á núna. Mér dettur eiginlega bara eitt einasta atvik í hug sem ég myndi leggja mikið á mig til að fá ógert. En bréfið skrifaði ég nú samt, og hafði gott af því að gera ýmislegt upp.

Hef enga leið til að ljúka þessu bloggi mínu enda eru þessar pælingar mínar hálfbakaðar allar saman, svo ég segi bara takk fyrir innlitið !


Þú veist að þú ert mamma þegar....

- Þú vaggar og ruggar með öllum líkamanum, þótt að það sé í raun pabbinn sem heldur á barninu
- Þú dregur innkaupakerruna í Bónus fram og aftur einsog þú sért að rugga
- Þú getur borðað heila máltið með einni hendi, á 2 mín
- Heimsókn á ungbarnaeftirlitið, og að kaupa mjólk á heimleið telst vera "brjálað að gera í dag."
- Það tekur þig 3 daga að lesa dagblaðið
- Þér er farið að finnast apríkósumauk ansi gott
- Þú ert löngu hætt að loka baðherbergishurðini þegar þú ferð á klósettið, það varður hvort sem er ráðist inn á þig
- Þú ferð í sturtu og uppgötvar að þú ert að þvo þér hárið með einhverju Mikka Mús sjampó....
- ....og þú ert að raula "Stubbarnir, Stubbarnir, segja halló"
- Þú kannt nöfnin á öllum köllunum/bílunum/lestunum/dúkkunum, og þú veist persónueinkenni þeirra allra
- Þú ferð alltaf út með ruslið, til þess að fá að vera í friði í smá stund
- Sex er tala sem kemur á undan sjö
- Þið hjónin setjið börnin í pössun, og það eina sem ykkur dettur í hug að gera er að stelast heim og sofa í einsog 2 tíma
- Þú ferð í bæinn til að versla föt á sjálfa þig, og kemur heim með fullt af náttfötum með litlum öpum á, í stærð 80
- Þú hlustar agndofa og með galopinn munn á fólk tala um nýjar bíómyndir, leikrit, bækur, slúður og annað sem þú veist akkúrat ekkert um
- Þú kallar manninn þinn "pabbi"
- Þú íhugar að senda leynimorðingja á eftir krakkaskömmini sem neitar að færa sig úr róluni sem barnið þitt vill vera í
- Þú þarft að hugsa þig um í smástund til að vera viss um að segja "hundur" og ekki "voffi"
- Þú ert farin að leita að skóm handa brjóstunum þínum
- Þú getur, án þess að roðna eða stama, talað í 7 mín. um hægðir barnsins, lit og lykt og allt
- Þú telur blettina á bolnum þínum og ákveður að "færri en fimm blettir" er það sama og að vera hreint

Eitthvað meira sem ykkur dettur í hug ?


Helgin

Helgin okkar var að sjálfsögðu stórfín eftir jákvæðu fréttirnar á föstudaginn. Við gerðum svosem ekkert stórfenglegt, það er frekar þetta gleðifyllerí sem við hjónin erum búin að vera í sem hefur haft áhrif á strákana líka. Casper varð 6 ára í gær svo dagurinn byrjaði með kökumorgunmat og pakkarifrildi á milli hans og Tómasar.... Gelgjan fór svo til mömmu sinnar, og verður þar í einhvern tíma. Ég fór í langan göngutúr með Tómasi, hélt að hann kynni að meta það að fá smá "alone time" með mömmu sinni, en þær stundir koma ekki oft lengur. Við löbbuðum og töluðum saman, og svo fór hann að spurja eftir Davíð. Hann var ekki í ró sinni það sem eftir lifði af okkar einverustund, hann saknaði litla karlsins svo !! Hafði miklar áhyggjur af því að pabbi þeirra kynni ef til vill ekki að vagga honum eða gefa honum snuðið, því hann var alveg viss um að Davíð væri líka vansæll án sín. Alveg ótrúlega fallegt sambandið þeirra á milli. 

Í dag var svo mest dundað heima, gengið frá ýmsum hlutum til að undirbúa vikuna sem kemur. Ég minntis eitthvað á afa strákana og þá fór Tómas að spurja um hetjuna sína. Ég sagði að "afi er á Íslandi núna" og þá horfði Tumi minn á mig einsog ég væri hálfviti og sagði "neihei, afi er í símanum". Þá vitum við það....

n638381369_561914_8875

 


Jibbí !

Bara að láta vita að allt gekk vel, þetta var léttasta svæfingin hans hingaðtil og honum leið alls ekkert ílla þegar hann var að vakna. Hann slapp líka við barkaþræðingu og þessháttar og var bara hress þegar hann vaknaði.

Svona hefur þrýstingurinn hans verið (eðlilegur þrýstingur á að vera á milli 8 og 10:

3 nóv 2007 - vinstri auga - 20 hægri auga - 10
7 des 2007 - vinstri auga - 28 hægri auga - 22 - bæði augu skorin þann dag
11 jan 2008 - vinstri auga - 13 hægri auga - 10

Þetta er alveg frábær lækkun, og elskulegi læknirinn okkar Dr Wallin var mjög ánægður. Hann sagði okkur að þessi litla þoka sem eftir er í vinstri auga eigi kannski eftir að hverfa, kannski ekki en það er ekki lengur meginatriðið fyrst að þrýstingurinn er að lækka einsog hann á að gera eftir aðgerðina. Það er ekki búið að skoða sjóntaugarnar, enda finnst lækninum það vera seinni tíma vandamál hvort sem er. Nr 1, 2 og 3 er að lækka þrýstinginn, og það hefur tekist vel hingaðtil.

Nú á hetjan mín að vera á dropunum sínum áfram 4x/dag í 3 vikur í viðbót, og svo verður hann skoðaður á ný eftir ca 4 vikur.

Takk fyrir hlý orð, bænir og alla góða straumana í dag !


Æi...

Morgundagurinn verður langur, það á að svæfa Davíð Konung aftur, til að mæla þrýstinginn og athuga flæðið eftir aðgerðina 7. des. Við eigum að vera mætt kl. 7 uppi á Astrid Lindgrens barnasjúkrahúsi, og áður en við leggjum af stað að heiman þarf ég að setja á hann plástra með einhverju kremi sem á að deyfa húðina, til að hægt sé að stinga nálunum í hann án þess að hann finni of mikið til. Úff.... Ég veit vel að það þarf að gera þetta, og að vissu leiti bíð ég spennt eftir morgundeginum líka þar sem ég geri ráð fyrir að þrýstingurinn sé mun betri núna, það sést alveg á augunum hans að mest allur bjúgurinn er horfinn. En helst vildi ég losna við þetta allt saman. Ég kvíði framtíðinni, og ég þoli ekki þessa óvissu sem fylgir bæði hans sjúkdómi sem og mínum. Kannski lifum við í 100 ár bæði tvö án þess að þessir sjúkdómar okkar geri mikinn skaða, en kannski ekki. Ég vil bara vita, en enginn kann þau svör.

En hvað, ef ílla fer má allavega segja um okkur að "haltur leiðir blindann" Wink. Ég mátaði þennan brandara á múttu en henni fannst þetta ekkert fyndið. 

Eitt sem hinsvegar er fyndið eru þessi blessuðu brjóst mín, sem lafa svo mikið eftir alla þessa mjólkurframleiðslu að ég þarf að kaupa handa þeim skó bráðum. Ekki nóg með að það koma upp alls kyns undarlegheit einsog stíflur og dularfullar sýkingar sem ég fékk um daginn, og Davíð þá líka sem þýddi  einhver munnangur hjá honum og einsog milljón hnífa í mínar dælur (eða þannig upplifði ég sársaukann sem fylgdi). Við brunuðum upp á ungbarnaeftirlit þar sem hjúkkan sagði að þetta fyrirbæri heitir "torsk" á sænsku. Ég er semsagt með þorska í brjóstunum ?!?!? Ekki veit ég, en hún bar á okkur Davíð eitthvað blátt sull sem gerði að við vorum einsog tveir strumpar í nokkra daga. 

Já, sem sagt ekki nóg með þetta, heldur er líka mjólkurþokan alveg einstaklega óþolandi. Og erfið. Ég meina, ég breytist í slefandi hálfvita, ég man ekkert og er svona ekki alveg með á nótunum. Ég fer í búðina til að kaupa mjólk, og kem aftur heim með kjötfars, spaghetti, sveppi, cornflakes, hveiti og tyggjó en enga mjólk. Bölva mjólkuþokuni og fer út aftur og kem heim með uppþvottaefni, einhverjar flottar hárspennur sem ég fann, batterí (?????) og sjampó. Og enga mjólk, en tvær fernur af súrmjólk. Um daginn hringdi ég í mömmu stráks á leikskólanum hans Tómasar til að fá að skila peysu sem ég óvart tók með mér sem var alls ekkert okkar. Ekkert mál segir hún, ég er heima. Hvað býrðu spyr ég og hún er á sömu götu og við, í númer 46. Við búum á nr. 48. Ég veit að ég bý á númer 48. Samt segi ég við hana "já, bíddu, 46, hvar er það? Eru  það þarna raðhúsin nálægt bílastæðinu?". Konan er þögul svolítið lengi og segir svo "nei, það er blokkin við hliðina á þinni. Ertu kannski með Davíð á brjósti ?"  bætir hún við og hlær, svona skilningslegum sisterhood hlátur. 

Ekkert verður af hjá mér, og ég er aldrei alveg fyllilega í tengingu við umheiminn. Ég segi fáránlega vitlausa hluti, einsog um jólin þegar ég ætlaði að tala um fálka við pabba. Hvað segi ég? Jú, ég segi "já en fálkURINN er svo fallegur". Pabbi: "haaaaa ?" Ég: (ekki að fatta neitt einsog venjulega) "fálkur. Mér finnst fálkur svo fallegur." Oooooo, ég er orðin frekar þreytt á sjálfri mér. En í dag heyrði ég samt alveg geðveika sögu af mjólkurþokuástandinu. Vinkona mín sem er í sama báti og ég átti pantaðan tíma til að fara með bílinn sinn í skoðun. Skrifað í stórum stöfum á miðum útum alla íbúð til að hún gleymi ekki. Hún gleymdi ekki, lagði af stað á réttum tíma á réttum degi og....... TÓK STRÆTÓ !!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! Hún tók strætó í bílaskoðunina, og fattaði ekki fyrr en hún var komin á staðinn hvað hún hafði gert !! 

Ég er allavega ekki orðin svona vitlaus.......  

 


Annað gullkorn

Þar sem ég blogga undir nafninu "strákamamman" hlýtur það að vera í lagi þó ég monti mig af einmitt strákunum mínum.

í gær vorum við að fara með kvöldbænirnar okkar, þegar Tómas spyr mig "Mamma, hver er Jesú?". Hmmm, þegar stórt er spurt.... Ég hugsa mig um, og svara svo að Jesú er bróðir okkar allra, hann er bróðir þinn og minn og allra í heiminum. Jaaahá svarar sá stutti, og fer svo og kíkir á Davíð þar sem hann lá sofandi í vagninum sínum. Tómas stóð lengi vel og virti bróður sinn fyrir sér og svaraði svo hálfhlægjandi "neeeeeeeeehei mamma, þetta er ekki Jesú, bara Davíð".

Mér fannst þetta alveg dásamlegt hjá honum !!


Gullkorn dagsins

Tvenn gullkorn sem komu mér í gott skap í dag:

1) Ég er að lesa ævisögu Dolly Parton, og þar segir hún um allt bling-bling og meik sem hún jú er fræg fyrir: "Well, you have no idea how expensive it is to look this cheap". Dásamleg setning !

2) Ég var að koma úr sturtu, og þar sem ég strippalingaðist um íbúðina hitti ég son minn, sem rak augun í frekar langt ör sem ég ber með stolti eftir að hafa fætt tvö börn með keisaraskurði. Hann velltir því fyrir sér afhverju mamma sé með "bátti", og ég sagði honum að þarna hefðu nú hann og Davíð komið út úr maganum mínum. "Jaaaaá" segir hann og heldur sínum ferðum áfram. Seinna erum við að borða kvöldmatinn, og þá horfir hann lengi vel á matinn sinn og svo mig, og segir svo "Mamma, kom kjúklingurinn líka úr maganum þínum?". Enn seinna ásakaði hann mig um að hafa stungið bíl sem hann var að leita að inn um "báttið", og að lokum spurði hann hvort að ég væri líka með bleyjur þarna inni. Annaðhvort er hann ekki alveg að skilja mig, eða þá hefur mittismálið mitt aukist svona mikið um jólin að hann heldur að ég sé með allar birgðir hemilisins þarna inni......


Fortíð, framtíð og margmenni í rúminu

DSC_0051Gleðilegt 2008 ! Árið sem leið var stórt og atburðaríkt í lífi mínu og fjölskyldunar. Davíð kom til okkar og færði með sér hamingju, gleði og ást sem ég hef ekki áður kynnst. Að verða móðir tveggja unaðslegra drengja var stórt og hefur haft ótrúlega mikil áhrif á mig. Sumarið sem leið var langt og erfitt á tímum, syndandi í hormónum reyndi ég að lifa fyrstu mánuðina af, ein heima með strákana mína í rúma 3 mánuði. Geðheilsan var oft í háska.... 2 vikum eftir að Davíð fæddist barst mér bréf frá konu sem ég hélt væri vinkona mín, og bréfið sem hún kaus að skrifa mér á þessum tilfinningaríka tíma kom mér úr jafnvægi og kom af stað atburðarrás sem særði okkur öll mikið. Ég er enn í dag að gera það upp við mig hvað mér þyki um þetta. Ég á erfitt með að skilja fólk sem er að smjatta á hlutum sem það veit ekkert um, afskiptasemi þar sem það er algjörlega óviðeigandi, kjaftagangur og sögusagnir er nokkuð sem fer óskaplega ílla í mig. Í kringum áramótin fer ég gjarna yfir árið sem leið, hvað vil ég taka með mér, hvað vil ég skilja eftir, hvað vil ég endurtaka og hvað hef ég lært? Þetta er það helsta sem ég vil skilja eftir, vonbrigðin og reiðin færir ekkert og tekur bara pláss.

Árið 2007 færði þvílíkan aragrúa af tilfinningum, háa tinda og djúpa dali. Örvæntingin þegar við áttuðum okkur á umfangi sjúkdómsins hans Davíðs, gleðin eftir þessa fyrstu af mörgum aðgerðum. Tómas er uppspretta ótrúlegrar gleði, það sem honum dettur í hug, leikirnir sem hann leikur og ástríðan í þessum kröftuga litla dreng er stórkostleg gjöf. Tengsl okkar við stjúpson minn og móðurfólk hans hafa verið flókin þetta árið, og ekki byrjaði árið sérstaklega vel hvað það varðar. Við keyptum okkur hús á síðasta ári, sem við munum fá afhent í október á þessu ári, og tilhlökkunin er mikil. Ég fékk að kynnast gamalli vinkonu minni upp á nýtt, og með sér færði hún tvær dásamlegar konur inn í líf mitt og það hefur gert árið mitt miklu ríkara – ég vona að þið vitið hverjar þið eruð (2 úr vesturbænum og ein þriggjabarna móðir).

Já, þetta var stórt ár sem ég kvaddi, og mér virðist sem enn stærri ár bíði mín. Þetta er væntanlega síðasta árið sem ég verð heimavinnandi (allavega í bili...) og ég hef lofað sjálfri mér að gera þetta ár að okkar besta hingaðtil. Ég geng allavega inn í þetta nýja ár með jákvæðari hugarfari en ég hef haft í langan tíma.

Þeir eru orðnir þó nokkuð margir karlmennirnir sem halda mér vakandi á næturnar…. Nei, engin fantasía sem er að rætast enda held ég að ég gefi ekki frá mér neitt sérstaklega sterka kynstrauma einsog er. Þeir sem sjá um andvökunætur mínar núna eru: Alex sem virðist ætla að kanna hvort hrotur mælist á richterskalanum, Davíð sem er ofdrykkjumaður á næturnar, Tómas sem heldur að hann sé David Beckham og hausinn minn/bakið mitt/maginn minn sé fótbolti (og nei, hann virðist ekki alveg vera að fatta þetta með að sofa heila nótt í sínu eigin rúmi og nei, ég nenni ekki að fara með hann í sitt rúm þegar hann kemur inn á næturnar, og já, ég veit að þetta er væntanlega mér að kenna), og núna seinast um jólin bættist sjálfur Arnaldur Indriðason í hóp karlmannana sem halda fyrir mér vöku. Sem betur fer tókst mér að klára bókina (hvað hélstu? Að Arnaldur Indriðason væri kominn upp í rúmið mitt líka? ) í morgun, og vonandi get ég farið að sofa eitthvað, svona af og til allavega.

Jólin voru ósköp ljúf en alltof fljót að líða, en allir strákarnir (Davíð, Tómas, Alex og Casper) mínir eru heima þangað til á mánudaginn. Eins gaman og það nú er að vera saman í fríi verður líka ágætt þegar hefðbundin rútína byrjar á ný. Það er alveg rosalegt drasl sem fylgir þeim þegar þeir eru allir hérna heima !!! Maður mætti kannski halda að mér þætti það ágætis tilbreyting, og hvíld, að hafa Alex heima svona lengi en þannig er það bara ekki !!! Það er allt á hvolfi hérna, maður er rétt búinn að ganga frá eftir morgunmatinn þegar einhver þeirra kemur inn og tilkynnir að það sé að koma að hádegismat…. Þvottakarfan gýs 2. á dag, og gólfið (með nýja parkettinu) er allt í einhverjum klístruðum klessum sem ég veit ekki hverjar eru. Ég hugsa með kvíða til framtíðarinnar, hvernig verður þetta þegar allir 3 eru á táningsárunum? Þegar forstofan er full af einhverjum skóm í stærð 47, þegar þeir eru hættir að geta talað við mann og kvaka bara einhverju af og til, þegar mánaðarinnkaupin í Bónus endast í 4 daga…. Æi, það verður bara gaman !


Gleðileg Jól !!

Við erum búin að öllu, og loksins er ég komin í jólastuð !! Jólaundirbúningurinn í ár hefur verið frekar fátæklegur og ég hef ekkert getað komist í neitt jólastuð, enda hef ég varla hugsað um annað en Davíð. Allt virðist ganga vel, og við erum núna komin í 2ja vikna frí frá læknaheimsóknum.

Í dag fórum við pabbi með strákana mína á Gröna Lund Tívólíið, en þar er jólamarkaður með tilheyrandi stuði allan desember. Tómas fékk m.a. að hitta jólasveininn og sagðist vilja fá bíla - no surprise there !! Davíð svaf vært í kerruni sinni og sýndi þessu jólastússi lítinn áhuga, en við hin skemmtum okkur konunglega. Þegar við komum heim tók við undirbúningur á matnum, en þann kafla sér Alex alveg um. Ég kem ekki nálægt eldhúsinu næstu daga, aðfangadaginn sér hann alveg um og svo borðum við hjá mömmu á jóladag. Einhvernveginn verður maturinn enn betri þegar ég get bara sest niður og notið!

Þetta er búið að vera ótrúlegt ár, með bæði gleði og sorg. Árið endar vel, þó að áhyggjurnar af Davíð séu miklar hef ég góðar vonir um að þetta blessist allt saman, einhvernveginn. Nú biðjum við um heilsu og hamingju á komandi ári. Og óskum að sjálfsögðu ykkur öllum farsældar á komandi ári.

Bestu kveðjur til ykkar allra, og ég vona að þið eigið virkilega góð og friðsæl jól.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband