Aumingja, aumingja ég

Ég á svo ótrúlega bágt í dag, öll vorkun er vel þegin. Aumingja ég. Eða öllu heldur, aumingja magavöðvarnir mínir, sem hurfu einhverntíman snemma á árinu 2005, og eru við að rísa upp á ný. Ég er nefnilega byrjuð í pílates jóga, og er komin aðdáunarverða 3 daga inn í prógrammið. Já, og bara ekki hætt ennþá !! Þetta er vægast sagt algjör horror. Og þvílíkar pyntingar !!! Ekki yrði ég hissa ef viss bandaríkjaforseti fyrirskipaði svona ómennskan tortúr á Guantanomo fangana. Hvar er Amnesty International þegar ég þarfnast þeirra mest ?!! Getur ekki einhver bjargað mér frá sjálfri mér ? Vonandi uppsker ég eitthvað, því þessi vesalings skrokkur minn hefur svo sannarlega séð betri daga. Bíðið bara, ég verð orðin skorin fyrir sumarið !!!

Á tali um sumarið, erum við komin með plön. Við komum heim, öll hersingin, í byrjun júlí og verðum 2 vikur eða svo. Kannski að ég stoppi aðeins lengur, en við verðum allavega öll saman í 2 vikur. Ferð norður er að sjálfsögðu ómissandi, og svo bíð ég bara eftir að matarboðin og kellingarhittingar fari að hrynja yfir mig !! Endilega, ekki fara í utanlandsferð 1-16 júlí (nema þú viljir endilega forðast okkur.)

Í gær kom Tómas heim af leikskólanum og tilkynnti mér að það væri ógeðslegt að vera með bleyjur og hann geri ekki þannig lagað lengur. Það var og, hann hleypur í tíð og ótíð á koppinn sinn, og stendur sig ótrúlega vel. Í morgun fórum við saman í bæinn og keyptum nærbuxur (8 st takk fyrir mig) sem hann fékk sjálfur að velja sér, sem laun og hvata. Merkilegt alveg, hann ákvað þetta bara sjálfur !! Deginum áður vorum við Davíð í ungbarnaeftirlitinu, og þá fengum við smá ábendingu um að hann hefði staðið í stað hvað varðar þyngd og lengd í nokkurn tíma. Allt mjög eðlilegt í raun og veru, miðað við að þetta litla barn hefur verið svæfður 3 sinnum síðan í nóvember, gengist undir langann og flókinn uppskurð, og er á sterkum steralyfjum. En samt, hann má alveg fara að borða betur fannst mér og ljósmóðurinni, enda er ég orðin ansi þreytt á því að sjá honum fyrir allri fæðu og næringu. Og það var einsog hendi væri veifað, hann tók þetta svona til sín og hefur varla gert annað en að borða síðan. Allt í einu varð lífið miklu einfaldara, Tómas búinn að vera bleyjulaus í tvo daga og Davíð litli farinn að borða almennilega. Þetta hefur alveg rosaleg áhrif á bæði mig og Alex, við hreinlega svífum hér um og eigum ekki orð yfir því hvað allt er auðvelt !!

Ég rak augun í skemmtilega umræðu einhversstaðar, um daginn. Þá var spurt "ef þú gætir skrifað sjálfri þér bréf í dag, sem bærist þér þegar þú varst 15 ára, hvað myndir þú skrifa ?". Ég er búin að hugsa mikið um þetta, og dettur eftirfarandi í hug:

"Kæri vitlausi táningur !
Hættu að hafa áhyggjur, slakaðu á, pældu minna í strákum og meira í skólanum, trúðu á sjálfa þig. Veldu vini þína vel, og komdu vel fram við þá, brotið traust er erfitt að vinna aftur. Mamma þín og pabbi eru ekki eins vitlaus og þú heldur, hlustaðu aðeins meira á þau. Ekki flytja til Englands, það endar bara ílla. Þú ert ekki feit. Þú ert ekki ljót. Þú þarft ekki að þykjast að vera neinn sem þú ert ekki, þú ert alveg ágæt einsog þú ert. Farðu vel með líkama þinn, og heilsuna. "

Svo var það nú ýmislegt annað, en ég set það ekki inn hér... En svo fór ég að hugsa, ef ég hefði fengið þetta bréf, og hlustað á sjálfa mig, hefði ég þá orðið sú sem ég er í dag? Ég meina, eru ekki meira að segja mistökin og sárindin líka nauðsynleg, til að gera mig að þeirri sem ég hef orðið ? Ég komst allavega að þeirri niðurstöðu að vel flest sem hefur gerst í mínu lífi þurfti að gerast til að koma mér á þennan ágæta stað sem ég er á núna. Mér dettur eiginlega bara eitt einasta atvik í hug sem ég myndi leggja mikið á mig til að fá ógert. En bréfið skrifaði ég nú samt, og hafði gott af því að gera ýmislegt upp.

Hef enga leið til að ljúka þessu bloggi mínu enda eru þessar pælingar mínar hálfbakaðar allar saman, svo ég segi bara takk fyrir innlitið !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir skemmtileg skrif. Þetta með bréfið er áhugaverð hugmynd. Einu sinni dreymdi mig að ég "hitti" sjálfa mig, þ.e.a.s. ég var fullorðin í draumnum og hitti litla fjögurra ára stelpu sem ég vissi að var ég, en hún vissi ekki að ég væri hún þegar hún yrði stór. Þetta var mjög skýr draumur og ég man að mig langaði bara til að faðma litlu stelpuna að mér og segja: "Ekki hafa áhyggjur. Þetta verður allt í lagi."  

Auður H Ingólfsdóttir 19.1.2008 kl. 17:31

2 Smámynd: Erna Lilliendahl

Öll mistökin sem við gerum í lífinu verða þess valdandi að við þroskumst nóg til að takast á við næsta áfanga, án þeirra stöndum við í stað. Kosturinn er sá að við eigum möguleika á að kenna næstu kynslóð, ef hún nennir að hlusta, hvernig er hægt að forðast stærstu og erfiðustu mistökin...

Bréfið er flott hugmynd, ekki að þó að ég hefði skrifað sjálfri mér bréf, er ekki sjéns að ég 15 ára hefði farið eftir leiðbeiningum...

Erna Lilliendahl, 19.1.2008 kl. 21:02

3 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

hehe góðar pælingar ....Já hverjum dettur í hug að flytja til Englands he he he

Einar Bragi Bragason., 20.1.2008 kl. 02:44

4 identicon

Við verðum heima á þessum tíma, því miður... Vertu velkomin í litlu rottuholuna okkar á Íslandi :)

Er þetta annars eitthvað svona heima-pílates?

Stína 20.1.2008 kl. 09:41

5 Smámynd: María Tómasdóttir

Auður, takk fyrir það! Fallegur draumurinn þinn, ég held stundum að við á fullorðinsárum erum að "hugga" okkur sem börn í ýmsum hegðunarmynstrum.

Erna, you speak the truth sistah ! Er líka alveg sammála, ekki séns að hin 15 ára Maja Pæja hefði hlustað á hina 33 ára gömlu þreyttu kellinguna !

Einar, alveg rétt, hver vill búa í Englandi ?!?!

Stína, ég vil fá sódastrím vatn heima hjá þér! Og já, þetta er svona heima-á-stofugólfinu pílates

María Tómasdóttir, 20.1.2008 kl. 13:42

6 Smámynd: Erna Lilliendahl

Og bara svona á meðan ég man, heilsurækt er af hinu illa og má teljast til andlegrar vanheilunar!

Erna Lilliendahl, 20.1.2008 kl. 16:16

7 Smámynd: María Tómasdóttir

Erna, ég held að ég sé þér algjörlega sammála !!! Þetta getur enganvegin verið sniðugt, ég er að DEYYYYYYYYYYYYYJA !!!

María Tómasdóttir, 20.1.2008 kl. 17:34

8 Smámynd: Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl

JIBBÍ!!!! Hlakka ekkert smá til að sjá ykkur!!.....og já, bréfið var mjög áhugavert...ég held samt að ég hefði þurft að senda mér heila bók...

Knús til þín!

Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl, 20.1.2008 kl. 22:31

9 Smámynd: Einar Indriðason

Æi... grey aumingja þú ..... (þetta var vorkun dagsins :-)

En... ég held þú ættir samt að standa þig.  (Eða sitja... ef strengirnir verða of miklir.)

Einar Indriðason, 20.1.2008 kl. 23:26

10 Smámynd: Erna Lilliendahl

Takk fyrir fallegu skilaboðin elsku Maja mín....

Erna Lilliendahl, 21.1.2008 kl. 23:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband