Hlátur

Það er ekki annað hægt en að vera í góðu skapi þegar svona hlátur berst um íbúðina. En, sama hvað ég reyni, þá er það enginn annar sem nær svona hlátri úr Davíð. Hann brosir gjarna til mín, og flissar kannski smá, en hann hlær ekki að neinum nema Tómasi.

Njótið vel


Kaffitími hjá dýrunum mínum

Bara smá myndband af strákunum mínum. Get bætt því við að þetta er sulta.....

Nei, nú verð ég ekki eldri !

Ég er búin að vera í stofu fangelsi síðan um páskana sökum horframleiðslu og hita í Tómasi. Í gær fannst Ástmundi ég eiga skilið smá lúxus í þessu volæði og kom heim með tvær dósir af cider. Nammi namm hugsaði ég með mér, og þegar strákarnir voru sofnaðir fór ég á msn-fyllerí með Heiðu tvíburasystur. Við skáluðum í gegnum tölvurnar og mér fannst þetta æði. Sporðrenndi tveimur cider (við erum sko að tala um cider keyptan í matvöruverslun, 2,25% áfengismagn).

Svo fór ég að sofa.

Svo vaknaði ég. Og ég skil þetta ekki ennþá, en ég var drulluþunn !!! Um nóttina hafði einhver bandbrjálaður trommuleikari flutt inn í hausinn minn og spilaði þar af lífs og sálarkröftum í allan dag. Ekki til verkjartafla á heimilinu, og ég of slöpp til að drösla strákunum út. Ekki til kaffi heldur. Upp úr hádegi fór þynkan í sögulegt hámark, og ég gubbaði. Og ekki einu sinni. Ekki tvisvar heldur. Oft. Tómas er búinn að læra nýtt orð. Strákarnir fylgdust spenntir með þessu, með því að hanga á milli lappana minna á meðan ég stóð í þessu. Ekki gaman það.

OK, ég hef svosem ekki smakkað áfengi síðan áður en Davíð varð til. Ég get alveg samþykkt það að ég sé kannski ekki á hápunkti hvað það varðar. En að verða svona þunn eftir tvo kellingarcider er bara alvarlegt mál. Ég meina, við erum að tala um mig !! Maju Pæju. Fyrir ekki svo löngu síðan var ég kosin viðskiptavinur mánaðarins 7 sinnum í röð hjá ÁTVR. Ég fékk jólakort frá framkvæmdarstjórnini, þeir elskuðu mig. Ég veit með vissu að umtalsverður niðurskurður varð á krám og veitingarhúsum á höfuðborgarsvæðinu þegar ég flutti burt.

Kannski er ég bara með gubbupest. Það hlýtur eiginlega að vera.


Tilgangslaust....

Búin að bíða í ófyrirgefanlega langan tíma að hinn heilagi andi leggist yfir mig, en sá er væntanlega að hvíla sig eftir páskana og því er ég bæði andlaus og með algjöra heilateppu. Væntanlega verður þetta ruglingslegasta bloggfærsla mín so far, en það virðist vera tilgangslaust að bíða lengur enda er ég farin að gleyma því sem gerist og ég ætti að segja frá.

Við erum búin að kaupa hús ! Alveg dásamlegt raðhús rétt hjá mömmu, unaðslegur andi, frábær garður og húsið er fullkomið og henntar okkur vel. Við viljum byrja á því að rífa út eldhúsið og fá okkur nýtt, það á að rífa veggi og hugsanlega leggja nýtt gólf í sófuni. Við erum sammála um að láta líbanska vin okkar ekki koma nálægt gólfinu í þetta sinn (tryggir lesendur skilja þetta, hér má lesa um þann líbanska : http://strakamamman.blog.is/blog/strakamamman/entry/264474

Íbúðin okkar er þar af leiðandi komin á sölu, og hér má skoða hvernig við búum: http://hemnet.se/beskrivning/hemnet/130312 (smellið á "visa alla bilder" til að skoða betur).

Ég er varla að nenna því að standa í þessu með sýningu á íbúðinni. Hér tíðkast að íbúðin eigi að vera svolítið einsog hótel herbergi, og alla persónulega muni á að fjarlægja fyrir sýninguna. Seljendur eru ekki viðstaddir (við húkum væntanlega einhversstaðar í kjallaranum með öllum þessum persónulegu munum okkar....) Fasteignasalinn sendi mér lista yfir allt það sem hún vill að við "felum" á meðan fólkið er að skoða íbúðina, þ.m.t þvottakarfan, tannburstar, sjampóflöskur, snyrtitaskan mín, ljósmyndir, allt sem hangir framan á ísskáp/frysti, listaverk barnana, og svo bað hún okkur um að fjarlægja annan sófann og rimlarúmið til að búa til rými... Vá hvað ég er innilega ekki að nenna þessu. Nágrannakona okkar er búin að lofa okkur smá gólfpláss á meðan á sýninguni stendur, sem bjargar okkur alveg. Næsta vika fer í þrif. Lagfæringar og meiri þrif væntanlega.

Allir eru nokkuð hressir, nema Tómas sem er í horframleiðslu mikilli þessa dagana. Hann er því heima, og sér til að ég hafi nú örugglega nógu mikið að þrífa í næstu viku !!

Hef ekki frá neinu að segja, enda þreytt og andlaus.

Over and out !

 


Vofan í sófanum

Það var heldur aumingjalegur húsböndi sem skakkalappaðist á fætur í morgun. Vel vafinn innan í sængini sinni stóð hann á miðju stofugólfinu og tilkynnti okkur hátíðlega að heimilisfaðirinn væri við dauðans dyr, einhver pest hefði komið sér fyrir í honum um nóttina. Gott ef ekki var Svarti Dauðinn endurrisinn, svo miklar voru víst kvalirnar. Til að sanna sitt mál fór hann og náði í hitamæli sem var komið fyrir í öðru eyranu, og við hátíðlegar undirtektir mínar var allur hitinn mældur. Eftir 3 sekúndur var tækið búið að fá nóg og gaf frá sér píp þess eðlis. Mælirinn var fjarlægður úr eyranu, og á gólfinu stóð húsbandið og horfði sorgbitinn á staðreyndirnar. "Sjáðu!" sagði hann og veifaði mælinum framan í mig, "ég er að deyja". Mælirinn sýndi 37.9......

Hann kom sér fyrir í sófanum, og gaf af og til frá sér stunur sem áttu væntanlega að virka sem hugreysting til okkar sem svifu í óvissu um ástand hans. Myndi hann yfirhöfuð lifa þetta af? Inn á milli gaf hann frá sér afar ræfilsleg hljóð, og svo komu ástarjátningarnar sem líklega voru til að við gætum yljað okkur við þær minningar af honum sem elskandi föður og eiginmanni. Yfirvofandi andlát.

Eftir einsog 3 klst af þessum harmleik var ég farin að þreytast aðeins og benti honum hálf íllilega á að  37.9 væri ekki einusinni hiti, það eru bara nokkrar kommur. Davíð er á fullu að taka tennur og skapið hans eftir því, ég var að þvo 5 vélar af skítugum fötum, og einsog venjulega var Tómas frekur á sinn skammt af athyglini líka. Ég hefði bara ekkert tíma til þess að stjana í kringum hann líka, fullorðinn manninn með nokkrar kommur. "Ooo elskan, ég vildi að ég gæti hjálpað þér aðeins, en ég finn bara svo til" kom þá. Jæja.... 

Rétt fyrir 2 kom svo þrautagangan mikla, en við vorum á leið að skoða hús sem okkur leist á (en hættum við að kaupa þegar á hólmin var komið, algjör kassi !!). Hinn Deyjandi reis úr rekkju sinni og við mikil erfiði kom hann sér í brók og skó. En að því loknu svimaði hann svo mikið að han hafði orð á því að það væri nú guðs blessun að það væri handriði fyrir utan íbúðina okkar, hann væri alveg að rjúka um koll.... Gangan að bílastæðinu okkar ætla ég að minnast sem minnst á, en hann lifði hana allavega af. Aftur þakkaði hann Guði fyrir handrið og þessháttar sem gerði þessa göngu hans að möguleika. Hann stundi og hljóðaði alla leiðina að húsinu, blés og hóstaði, og gekk um einsog lifandi dauður.

Það sem eftir lifði dags var hann fastlímdur við sófann, aftur vel vafinn sængini sinni. Af og til berast frá honum lífsmerki, og hann segir að honum sé aðeins að batna. Ekki mikið, en aðeins. Hann vill samt vera alveg viss um að allar tryggingar séu örugglega í lagi, svo að við verðum ekki borin út eftir fráfall hans.

 

 

 


Fussumsvei

Í dag var svo komið að fimmtu svæfingu Davíðs. Einhvernveginn hélt ég þegar þetta ferli fór af stað, að þetta yrði auðveldara með tímanum. Eða að ég yrði sjóuð, og harðari af mér. Svo er ekki tilfellið. Dagurinn í dag var erfiðastur allra hingaðtil. Samt voru niðurstöðurnar alveg allt í lagi, þrýstingurinn mældist 15 (vinstri) og 14 (hægri) sem er ekki það besta (sem er 8) en langt frá því að vera það versta (30 er það hæsta hingaðtil). Það var ekkert gert í dag, ekkert skorið eða neitt, við höldum bara áfram með alla þessa dropa og sjáum svo til eftir mánuð. Alveg ágætis niðurstöður, en samt var ég einsog taugahrúga þarna á sjúkrahúsinu í dag.

Það sem mér finnst eiginlega vera það erfiðasta, er þegar þarf að stinga hann til að koma nál í æð, svo hann geti fengið næringavökva, og einnig er sprautað svæfingalyfinu í þá æð þegar við komum inn á skurðstofu. Það þarf að koma þessu röri á sinn stað, en það er erfitt að stinga lítið barn. Þessvegna er ég búin að taka það fram aftur og aftur að ég vilji ekki neinn nema þann besta, bara sú sem er vön og örugg má koma nálægt honum. Það eru ekkert allir sem geta komið nál í æð á svona litlu barni. Ég vil ekki þurfa að sitja með hann, halda honum föstum, á meðan hann öskrar og grætur, og láta stinga hann á báðum höndum og báðum fótum áður enn þetta tekst. Ég byrjaði á því í morgun að taka þetta fram, að ég færi fram á það að þetta yrði haft í huga og að honum væri sýnd sú virðing. En ég fann það strax að þetta myndi ekki ganga, sú sem tók á móti okkur var örugglega búin að vera að vinna sitt starf í einsog 100 ár og greinilega búin að missa alla mýkt og tilfinningu fyrir hræddum börnum og óttaslegnum foreldrum. Sumir starfsmenn innan sjúkrahússins eru svo greinilega búnir að sjá of mikið. Allavega, hún sagði nú á svona frekar hrokafullan hátt að þetta yrði nú ekkert mál og að hún væri nú búin að stinga svo mörg börn í gegnum árin....

Þetta fór til fjandans. Algjörlega, hún stakk í gegnum æðina svo hann er enn einusinni kominn með hrikalega stóran marblett á fótinn (þar sem hún stakk), og hann barðist um á hæl og hnakka, grét og grét og öskraði af hræðslu og reiði. Ég get ekki komið því frá mér, hversu hræðilegt mér finnst að þurfa að gera þetta, aftur og aftur og aftur og aftur. Að sitja með hann, halda honum föstum, reynandi að hvísla huggandi orðum í eyrað hans á meðan. Truntan gafst upp á þessum fæti og ætlaði að fara að reyna hinn fótinn en þá brotnaði ég saman. Davíð stóð á öndini, það lak blóð eftir fætinum hans, og ég titraði af reiði og vanmætti. Fór fram á gang og settist þar með hann og grét frá mér öllu viti held ég. Aðstoðarhjúkrunarkonan kom fram og reyndi að hugga okkur, og ég gat bara snöktað "ég vil ekki vera hérna, ég vil þetta ekki, ég vil þetta ekki.....". Greyið konan, hún gat ekkert sagt, en ég náði mér nú saman á ný eftir þetta. Stundum er líka gott að brotna saman. Alex var heima á meðan, til að skila Tómasi á leikskólann, ég held ég vilji ekki vera ein þarna uppeftir aftur. 

Davíð var gefið dálítið róandi lyf til að hjálpa honum að slaka á eftir þetta, og svo fór ég fram á að hann yrði svæfður með gasi í þetta sinn. Það er ekkert betra í raun og veru, ég hef sjálf verið svæfð með svona grímu og maður fær innilokunartilfinningu sem er ekki skemmtileg. En hann var kominn í svo rosalega mikið uppnám að það var samt betri kosturinn af tveimur slæmum. 

Svæfingalæknirinn var dásamlegur, og mælir með því að Davíð fái þetta róandi lyf í framtíðini áður en hann verður stunginn. Hann varð hálf fullur af þessu og afskaplega mikið þægilegri (Davíð þeas, ekki svæfingalæknirinn...) 

Hér sit ég svo, báðir stubbarnir mínir sofandi, hlið við hlið í stóra rúminu okkar. Tómas beið spenntur eftir litla bróður sínum þegar heim var komið, kyssti hann samviskusamlega og klappaði honum. Reif svo af honum alla plástrana og sagði að hann skyldi vera læknirinn hans, og tróð upp í hann kexköku! Alex skrapp sér á Casino með vinnufélögum sínum, vona að hann skemmti sér vel. Við förum svo fáránlega sjaldan út, og enn sjaldnar saman. Við verðum að fara að gera eitthvað í þeim málum, finnst einsog við séum bæði orðin afskaplega leiðinleg og gömul... Að vísu hefur verið erfitt að fara frá Davíð, vegna þess hversu ílla honum hefur liðið hefur hann ekki fengist til að borða, aðeins móðurmjólkin hefur dugað. Og þá get ég jú ekki verið að taka hans einu fæðulind og hrista jussurnar á dansgólfum borgarinnar !! En nú er það allt á réttri leið og hann bæði drekkur og borðar einsog hann á að gera. Dansgólf, here I come !! Oft hefur verið þörf, en nú er nauðsyn að sletta aðeins úr klaufunum og koma sér í gott skap. 

Á meðan ég man, fyrsta tönnin leit dagsins ljós í fyrradag. Ég var farin að halda að drengurinn yrði tannlaus að eilífu, en nú er hann semsagt komin með tönnslu !!  

Eigið góða helgi !  


Mont

Montmynd til að senda ykkur inn í helgina í góðu skapi Wink
071230 104

Einkennisbúningar og broddar

Góð helgi að baki og ágætis vika framundan. Á laugardaginn var dútlað og gengið í ýmiskonar verkefni, og einnig farið í búðarráp í Farsta Centrum sem er hér rétt hjá. Meðal annars var komið við í leikfangabúð þar sem Tómas var að fara í afmæli til Zoey bestu vinkonu daginn eftir. Hann átti að fá að ráða sjálfur hvað ætti að gefa henni. Aðspurður vildi hann helst af öllu gefa henni kúk... Ég er að verða svolítið þreytt á þessu..... Að lokum valdi hann My Little Pony handa henni, mér til mikillar gleði þar sem ég fattaði það þarna í búðini að ég kann alls ekkert að kaupa handa stelpum !!

Á sunnudeginum var byrjað á því að fara á hitting, en Íslendingafélagið var með sitt hefðbundna barnastarf. Mjög ánægulegt allt saman, og gaman fyrir strákana mína að fá að komast í kynni við önnur íslensk börn. Það var auðvelt að sjá hvaða börn í hópnum á leikvellinum væru íslensk, því þau voru eiginlega öll merkt Íþróttaálfinum eða Sollu Stirðu á einhvern hátt; gallar, húfur, vetlingar, peysur, eða stígvél. Einkennisbúningar fyrir íslensk börn. Svo var farið inn til að fá sér kaffi og kökur, og þá áttaði ég mig á því að á þessum árum sem hafa liðið síðan ég flutti frá Íslandinu góða er greinilega búið að kynna einkennisbúninga fyrir fullorðna íslendinga. Ég held að 75% af fólkinu hafi verið í nákvæmlega eins flíspeysum frá Cintamani. Greinilegt að við erum og verðum sama dellufólkið. Að vísu eru svíarnir ekki neitt mikið betri, maður hálf skammast sín ef börnin eru ekki í Polarn och Pyret fötum frá toppi til táar.

Ég hef rosalega gaman af því að hitta aðra íslendinga hér í Stokkhólmi, gaman að tala við skemmtilegt fólk og fá fréttir að heiman. Samt er langt síðan ég hætti að líta á mig sem íslending í útlöndum, ég er bara Maja og ég bý hér en er frá Íslandi. Ég sakna Íslands ofboðslega mikið, eða öllu heldur, ég sakna allra þeirra góðu vina og vandamanna sem ég er svo heppin að eiga að heima. En ég er líka mjög sátt við að búa hérna. Eftir að hafa flutt nokkru sinnum á milli landa í leit að hamingju, þá fann ég það að lokum að það er ekki staður á landakorti sem ég var að leita að, heldur tilfinning innra með mér.

Mér hefur samt alltaf þótt það fyndið hvað maður verður ofsalega mikill föðurlandssinni þegar maður er erlendis. Ég fór til dæmis bara í eitt einasta sinn á Þorrablót þegar ég bjó heima, en hér sækir maður öll Þorrablót samviskusamlega, og pínir ofaní sig alls kyns ógeð, syngur "Fósturlandsins Freyja" og tárast smá. Öllu má nú samt ofgera, ég veit um eina konu sem bjó hér í tvö ár og lét senda sér SS pylsur með fleiru allan þann tíma vegna þess að pyslurnar eru bestar heima.... Eins finnst mér það merkilegt fyrirbæri þegar maður eltist við alla íslendinga sem maður getur haft upp á til að eignast sem flesta vini, í stað þess að kannski nota tækifærið og kynnast landinu sem maður býr í. Mín reynsla eftir öll þessi ár erlendis hefur allavega verið sú að þessar vináttur eiga það ekki til að endast, þeim lýkur eiginlega alltaf þegar heim er komið á ný. Þetta á að sjálfsögðu ekki við um alla, en er samt nógu algengt fyrirbæri að ég varð að minnast á það !

Af mér er það helst að frétta að ég lít út einsog fáviti. Þannig er mál með vexti að eftir að ég eignaðist Davíð bankaði óhamingjan að dyrum. Ég lenti í því hræðilegasta hárlosi sem sögur fara af, og því virtist aldrei ætla að linna. Að lokum var ég með nákvæmlega 7 hár eftir, og 3 þeirra voru orðin grá. Nú bryð ég vítamín og sturta í mig lýsi einsog ég eigi lífið að leysa, og það er að hafa þessi líka áhrif. Hárið á mér sprettur upp úr skallanum einsog illgresi, en fyrir vikið er ég eiginlega komin með tvær mismunandi hárgreiðslur. Annarsvegar er ég með sítt hár, en hinsvegar er ég með brodda. Svolítið líkt þessari "mullet" greiðslu (sítt að aftan og stutt að ofan) sem hefur ekki verið í tísku síðan 1984. Og það er ekkert hægt að gera við þetta, broddarnir standa beint upp úr hausnum mínum og ég get ekkert við þetta hafist !! Einsog það væri ekki nóg... Í morgun uppgötvaði ég það að ég var ansi föl sökum sólarleysis í langan tíma. Mín kann nú ráð við flestu, og smurði sig alla með Dior brúnkukreminu æðislega. Hugsaði með mér að ég myndi bara draga athyglina frá fáránlega hárinu með því að vera sjúklega flott og hraustleg í framan. Svo ætlaði ég aðeins að svæfa Davíð og hafði hugsað mér að nota tímann til að plokka og raka ýmislegt á meðan, fyrst ég var komin í þennan gellugír á annað borð. Hvað haldið þið ?? Ég steinrotaðist þarna í rúminu við hliðina á Davíð, og er RÖNDÓTT í framan !!! Röndótt, með einhverja klessu á nefinu sem gerir það að verkum að ég lít út fyrir að hafa ekki komist nálægt vatni í 12 ár.

Breki bróðir er í Teheran, af öllum stöðum. Ég verð að viðurkenna heiftarlega afbrýðisemi, finnst það rosalega töff og framandi að hafa komist til Teheran. Hann hringdi áðan og var hinn hressasti, sagði sig vera milljónamæring þar sem þesslenskur gjaldeyrir er hinn undarlegasti. Hann hafði borgað fleiri hundruð þúsunda rial fyrir eina kókdós áðan, en það var samt ekki nema ca. 60 íslenskar krónur. Hann hafði skipt einum 100 Euro seðli áðan, og fékk hvorki meira né minna en 48 mismunandi seðla á móti, og gengur um með þvílíka seðlarúllu í vasanum núna. Honum fannst það rosalega flott tilfinning að vera með svona marga seðla !! Annars hafði hann borðað á McDonalds í hádeiginu, og verslað í H&M, svo þetta hljómar nú ekki alveg eins framandi og ég ímyndaði mér... Tímamismunurinn finnst mér líka alveg stórkostlegur, en það eru ekki þessir hefðbundnu 2 tímar, heldur 2,5 klukkustundir á milli hans og mín. Hvaðan kom þessi hálftími ?? 

Davíð er líka hress og kátur, og tekur lyfjunum sínum vel. Hann er að vísu hálf furðulega útlítandi núna, en ein af þessum lyfjategundum hans hefur stundum það í för með sér að augun skipta um lit. Hann er núna með eitt ljósblátt auga, og eitt dimmblátt auga. Mjög flott finnst mér. Svo eru þessir sömu dropar að gefa honum augnhár sem flestallar konur myndu hæglega fremja morð fyrir, þvílíkir burstar sem eru komnir á augnlokin !! Við erum að tala um 10 cm löng og þykk svört hár. Hann er sjúklega fallegur með þetta svona !!  

 


Lukku Gláki

Áður en lengra er haldið, er líklegast rétt að útskýra betur hvað það er sem hrjáir Davíð minn. Ég hef ekki farið út í það í neinum smáatriðum, og margir sem skilja ekki hvað það er sem er að.

Here we go... Í auganu er nokkuð sem nefnist fellingabaugur, sem framleiðir stöðugt vökva sem nefnist einfaldlega augnvökvi. Þessi vökvi rennur inn og út úr auganu í stöðugu flæði, hann rennur í gegnum augað og svo út um síuvef. Í tilfelli þar sem um meðfædda gláku er að ræða (einsog hjá Davíð), kemst vökvinn ekki út úr auganu þar sem götin á síuvefnum eru allt of þröng, eða hreinlega ekki til. Þegar vökvinn kemst ekki út eykst hann að sjálfsögðu inni í auganu, þetta myndar þrýsting og þar með myndast gláka. Þessi hækkaði þrýstingur í auganu veldur dauða taugafrumnanna í sjóntaug, og þetta leiðir til að sjónsviðið skerðist og getur að sálfsögðu leitt til blindu ef ekki tekst að halda þrýsting í lágmarki. Hækkaður þrýstingur veldur þar að auki miklum óþægindum, til dæmis má nefna mígreni og ógleði, sjóntruflanir og mikil ljósfælni ("regnbogasjón") eru meðal þess sem truflað hefur Davíð hvað mest. Hornhimnan hans verður mött og gráleit, vegna þess að það myndast bjúgur þegar vökvinn kemst ekki út úr auganu, hann sér þessvegna allt í móðu þegar þetta gerist. 

Þrýstingurinn í litlu barni einsog Davíð á að vera á bilinu 8 til 10. Hann er búinn að rokka á milli 13 og 30 síðastliðna 3 mánuði. Í síðustu viku var hann virkilega slæmur og þá var hann skorinn á ný, en þrýstingurinn mældist í 30 þann dag. 3 dögum seinna var hann kominn niður í 13, og honum líður að sjálfsögðu afskaplega mikið betur núna !

Hann hefur gengist undir tvær mismunandi aðgerðir, sú fyrsta var til að víkka frárennslið og sú seinni til að hæga á framleiðslunni af augnvökvanum. Víkkunnin á síuni tókst vel, en vandinn er sá að þetta á til að lokast aftur, þessvegna þarf að endurtaka þessa aðgerð nokkrum sinnum. Svo er hann líka hafður á augndropum sem lækka þrýstinginn, og svo er hann á kortísóndropum.

Jæja, hérmeð lýkur vísindahorninu á þessari bloggfærslu !

Allt gengur vel hjá okkur, Davíð líður vel þessa dagana og virðist keppast við að taka stóra vaxtakippi á meðan allt er einsog það á að vera með augun hans. Ljósmóðirinn sem við erum með á ungbarnaeftirlitinu er sjúklega metnaðarfull, svona hálfpirrandi over-achiever... Hún hefur viljað fylgjast nánar með honum þar sem hann hefur staðið í stað hvað varðar þyngd og þannig, ég hef í raun engar áhyggjur af þessu enda skil ég það ósköp vel að hann vilji ekki borða mikið þegar þrýstingurinn er búinn að vera þetta mikill. Ég meina, hver vill borða þegar maður er með stöðugann hausverk og ógleði ?!? Hann gerir þetta bara í sínum takti, og núna td. er han borðandi allan daginn. Allavega, hún er hringjandi og vill fá okkur í eftirlit oftar og þannig, sem er svosem alveg gott og blessað. 

Ég er búin að finna húmorinn minn á ný, en hann hefur verið fjarri mér í nokkra mánuði. Í gær td. var ég að sækja Tómas á leikskólann, og skildi Davíð eftir úti í kerru á meðan ég elti Trukkinn út um allann kofa til að koma honum í útifötin. Fóstran hafði orð á því hvað Davíð væri prúður og rólegur þarna úti í kerruni sinni, aleinn og bara hress. Ég kom sjálfri mér á óvart með því að glopra út úr mér "já, hann sér ekki svo vel, ætli hann fatti nokkuð að ég sé farin!". Fóstran brosti bara og sagði að það væri hressandi að heyra mig gera grín á ný. Ég var bara ánægð með mig, húmorinn hefur oft verið mitt besta vopn og ágætt að finna það að ég sé að sætta mig við ný hlutskipti og nýtt líf.

Sl. helgi fórum við í bollukaffi há Stínu vinkonu og hennar strákum (og manni að sjálfsögðu). Rosalega góðar bollur, og skemmtilegt að hitta skemmtilegt fólk. Tómas hagaði sér vel og sagði ekki einn einasta kúkabrandara. Er viss um að hann geymir þá bara þangað til hann kynnist þeim aðeins betur..... Stína lánaði mér "Næturvaktina" diskana sína, og ég er búin að liggja veinandi á gólfinu síðan. Mér til mikillar ánægju kom í ljós að Alex skilur mun meira í íslensku en ég gerði mér grein fyrir, hann flissaði og hló að þessum þáttum með mér í allt gærkvöld! Hann hringdi meira að segja í mig áðan og sagði "Sæll ! Eigum við að ræða þetta eitthvað ?". Eða sko... ég held að hann hafi verið að segja það allavega, ég verð að æfa hann aðeins í framburðinum.... Greyið maðurinn, íslenskuorðaforðinn hans er nú ekki upp á marga fiska, hann kann að blóta einsog hafnarverkamaður (mér að kenna), og svo kann hann þessa algengustu frasa heimilisins: "oooo, ertu búinn að kúka ??", "hættu þessu" og "ekki GERA ÞETTA !!". Jú, svo er það "villtu kaffi elskan" en það er alltaf það fyrsta sem heyrist þegar við kíkjum til mömmu !! Verð að vinna aðeins í þessu áður en við komum heim í júní, vil ekki að hann spurji vini og ættingja hvort þeir hafi kúkað nýlega.... 

Vikan framundan, eða það sem eftir er af henni, er frekar róleg, allar hinar mömmurnar í fæðingarorlofi eru annaðhvort veikar eða heima með veik börn svo ég hef vísst enga afsökun og neyðist til að vera heima og kannski taka til og hugsa að öllum þessum litlu verkefnum sem hafa fengið að sitja á hakanum. Alex er búinn að fá fullt af aukaverkefnum og er að dunda sér í þeim á kvöldin. Góðar aukatekjur þar, og svo er þetta allt hlutur af hans stærri áformum fyrir framtíðina en helst vill hann vera sjálfstæður ráðgjafi og þá koma sér þessi verkefni sem hann er að fá mjög vel. Ég krefst þess að fá ráðningu sem einkaritari, og hann lofar því. Spurning hvert ég snúi mér ef hann áreitir mig kynferðislega??

Framundan er svosem ekkert neitt merkilegt, en það er samt alltaf eitthvað að gerast. Ekkert sem er nærri því nógu spennandi til að segja frá .... 

Að lokum vil ég óska besta vini mínum til hamingju með afmælið - elsku pabbi minn, ég vona að þú fáir góðan afmælisdag !! 

 


Lægðir og hægðir

Ýmislegt að gerast, og ýmislegt að breytast. Davíð snöggversnaði um helgina, svo að síðastliðnir dagar hafa farið í bráðamóttökuferð, símhringingar, þrýstilækkandi- og steradropa. Nú á að svæfa hann á föstudaginn til að athuga hvað er að, og ef til vill verður hann skorinn upp á ný. Svo er verið að setja okkur í samband við Sjónstöðina til að byrja allt það ferli, sem mér finnst mjög gott. Nú er um að gera að passa upp á hreyfiþroskan hans, en hann er aðeins farinn að vera seinn með vissar hreyfingar og þessháttar sem 9 mán gömul börn ættu að vera farin að þróa með sér. Hann vill ekki liggja á maga, þar sem hans sjónsvið er þrengri en í fullsjáandi börnum er það bæði tilgangslaust og etv hræðandi fyrir hann. Þar af leiðandi sýnir hann engan vilja til að byrja að skríða, en við eigum að fá samband við m.a. sjúkraþjálfara sem hjálpar okkur að æfa hann, og kenna honum að hreyfa sig. Við bíðum eftir svari frá Tryggingarstofnun varðandi umönnunarbætur, og læknirinn hans er búin að skrifa bréf til að ýta á það. 

Við ætlum að fresta húsnæðiskaupum, af ýmsum ástæðum en fyrst og fremst vegna þess að það er einfaldlega nóg sem á okkur hvílir einsog stendur. Auðvitað eru það vonbrigði, en það er ekkert hægt að gera annað en að vera raunsær og ganga í þau mál sem eru meira áríðandi. Hús má alltaf kaupa, og við frestum þessu bara tímabundið, þangað til að Davíðs mál eru komin af stað og við erum búin að átta okkur betur á hlutunum. Heimferð í sumar er óbreytt, enda verður maður að hlakka til einhvers !!

Tómas heldur áfram að vera ótrúlegur gleðigjafi og sprelligosi. Hann fylgist með bróður sínum og sprettur upp til að slökkva á öllum ljósum ef hann tekur eftir því að Davíð lútir höfði eða pirrast af birtuni. Það er undursamlega fallegt að sjá þessa ást þeirra á milli blómstra.

Nú gengur allt út á kúkamál og ýmiskonar viska dettur upp úr Tómasi... Hann staðhæfðir það að í hvert mál sé þeim eldaður kúkur á leikskólanum (í gær var það víst kúkasúpa !!), og svo hneggjar hann þessum líka hrossahlátri af gleði yfir þessari kímni sinni.  Hmmmmm, eitthvað finnst mér nú þetta ekki vera neitt sérstaklega fyndið, en svona er þessi aldur. 

Úti rignir og ekkert bólar á neinum vetri. Ég er ansi þreytt á þessu, þó ég þakki fyrir að losna við hálkuna. Þar sem ég er víðsfæg fyrir klaufaskap og brussugang á ég það til að lenda í ýmsum misskemmtilegum atvikum í hálku, einsog til dæmis í fyrra þegar ég (kasólétt) flaug niður brekku, baðandi út höndunum, komin á dágóðan hraða. Neðst í brekkuni stóð einhver vesalings maður sem ætlaði að gera góðverk dagsins og grípa í mig, en áttaði sig of seint á því að hér væri á ferð óléttur flóðhestur sem komin var á ágætis ferð... Hann stóð gleiður og hress og náði að vísu að draga úr hraðanum á mér, en datt sjálfur fyrir vikið. Ég var svo sver og þung að ég datt ekki heldur snarbremsaði þarna á jöfnuni neðst í brekkuni, og aumingja maðurinn gat ekki annað en skellihlegið, sagði að það hefði verið með því fyndnasta sem hann hafði séð þegar ég kom skautandi niður brekkuna !!  

Bíð upp á 3 myndir til að þið hafið eitthvað skemmtilegt að horfa á !  

20080205192711_6















20080205192723_17


















20080205192730_24

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband