Piparkökukarlar, hjónaskilnaður og hákarlamatur

Þessi vika er búin að vera ágæt. Davíð líður vel, og augun hans eru núna orðin alveg skýr og tær eftir aðgerðina. Honum virðist líka líða miklu betur, nokkuð sem gleður móðurhjartað meira en orð fá lýst. Auðvitað er þetta bara byrjunin á löngu ferli, en aðgerðin virðist hafa verið vel heppnuð. Núna erum við í stanslausu eftirliti hjá læknunum, erum uppi á spítala allavega einu sinni í viku þessa stundina. Svo þurfum við að gefa honum kortísón augndropa 6 sinnum á dag, sem er töluverð barátta og verður bara erfiðara og erfiðara. Hann veit alveg hvað er að fara að gerast þegar ég undirbý lyfjagjöfina, og berst á móti. Ekki auðvelt, sérstaklega þar sem droparnir þurfa að fara inn í augun, og maður vill jú ekki vera að nota mikið afl til að koma þessu á sinn stað. Æi, þetta er allt saman frekar þungt í augnablikinu finnst mér. Svo vitum við ekkert hvort að þessi aðgerð hafi haft áhrif á þrýstinginn, en hann verður að lækka með einhverju móti. Lítill verður þessvegna svæfður aftur strax eftir hátíðarnar, og þá verður þessi mæling og vonandi verður það jákvætt.

Allt þetta, áhyggjur og dapurleiki hafa sett strik í reikninginn hvað varðar jólaundirbúning og ég bið vini og vandamenn um að sýna biðlund - jólakortin koma fyrir rest en eru í seinni kantinum þetta árið....

Í vikuni var haldin Lúsíhátið, nokkuð sem svíarnir taka mjög alvarlega. Mér finnst sjálfri sem þessi dagur sé haldinn miklu hátíðlegri en jólin sjálf, skrítið finnst mér sem er vön íslenskum hátíðarsvip og alvarleika á aðfangadegi. Aðfangadagur svíana er mjög afslappaður, fólk er ekki endilega uppáklætt heldur sporðrenna þeir gjarna sínum kjötbollum og pulsum í gallabuxum og stuttermabolum. Allavega, núna er jú Tómas byrjaður á leikskóla svo hann tók þátt í Lúsíugönguni þar. Öll börnin eru þá klædd tilheyrandi fötum, stúlkurnar í hvítum kjólum og strákarnir í annaðhvort piparkökukarlabúning eða jólasveinafötum. Ég fékk múttu til að kaupa piparkökukarlaföt á Tómas, mætti galvösk á leikskólann rétt fyrir gönguna og sveiflaði búningnum. Hann hrundi saman, tárin spýttust útum allt og ég var vísst mjög vond. Hann skammaði mig einsog hund fyrir að hafa ekki keypt jólasveinabúning. Já, hann er bara 2ja ára, en þetta er ungur maður með skoðanir á hlutunum skal ég segja ykkur !!! Monica fóstra var fengin til að miðla málunum og fyrir rest stóð hann og söng hástöfum sín Lúsíulög. Hann hélt áfram að skamma mig þegar gönguni lauk, en samt fékkst hann ekki til að afklæðast sínum piparkökufötum þegar hann háttaði sig, og svaf einn lítill piparkökukarl vært stuttu síðar.

Nú, svo var það piparkökubakstur. Ég sá þetta allt saman í hyllingum, svolítið einsog auglýsing í blaði þar sem hress og kát mamma bakar með þægum og stilltum (og kátum og hreinum) börnum. Við verðum ekki módel í neinum auglýsingum á næstuni..... 1/4 af deiginu át Tómas, 1/4 fór á gólfið, 1/4 endaði í ruslinu þegar Tómas hnerraði á það með tilheyrandi frussi, og 1/4 endaði sem frekar vansköpuð jólatré, stjörnur og hjörtu. Kremið sem átti að skreyta með átti svipuð örlög, eitthvað endaði nú á réttum stað, en mest fór bara útum allt. Ég verð finnandi klessur fram að páskum held ég. Svo fór auðvitað bakaradreng að leiðast, og dundaði sér við að athuga hvort bílarnir hans gætu keyrt í kreminu. Meiriháttar gaman !!

Við hjónin kláruðum svo jólagjafainnkaupin á föstudaginn, skruppum okkur í Toys R´Us og töpuðum okkur gjörsamlega. Í geðshræringu skakkalöppuðumst við út úr leikfangamekka hins vestræna heims og tókum stefnuna á IKEA sem er beint á móti. Lögðum bílnum, og gengum að innganginum. Þá tók Alex í hendina á mér og spurði mig "ertu alveg viss um að þú viljir gera þetta?", með sama alvarleika og dramatík einsog um væri að ræða að "pull the plug" á einhvern kærkominn. Og það var svosem alveg rétt hjá honum, ég rifjaði upp IKEA ferð okkar rétt fyrir síðustu jól, en þá lá við hjónaskilnaði. Við hættum við IKEA hið snarasta, settumst upp í bíl og glöddumst yfir því að hafa bjargað sambandi okkar sem og fjölskyldulífi drengjana okkar !

Í gær skrapp ég ein í bæinn, ekki til að versla heldur fara í prjónakaffi með nokkrum íslenskum konum hér í bæ. Þó ég prjóni ekki, hef aldrei kunnað að prjóna og á örugglega ekki eftir að læra það. Hinar prjóna, ég drekk kaffi og nýt þess að tala við skemmtilegar konur.

Í dag var svo farið á Aquaria safnið, alveg meiriháttar staður. Við sáum ýmsa litríka og flotta fiska, og fylgdumst með þegar hákarlarnir fengu að borða. Alex ætlaði að vera voða fyndinn og sagði að stundum væri óþægum börnum kastað út í laugina til hákarlana.... Aumingja Casper trúir öllu sem pabbi hans segir og varð fyrir smá áfalli.... Aumingja barnið, ekki nóg með að maður hefur jólasvein og hugsanlegan gjafaskort sem stöðuga hótun, núna bætist það við að geta orðið að hákarlahádegisverði.

Sem sagt, allt einsog við má búast hjá okkur ! Takk fyrir innlitið !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erna Lilliendahl

Þú stendur þig eins og hetja og veistu, þó ekki verði Norman Rockwell-jól, þá koma þau samt, það er ekki eftirsóknarvert að vera með allt sótthreinsað :)

Erna Lilliendahl, 18.12.2007 kl. 19:57

2 Smámynd: Einar Indriðason

Held ég segi... Innlitskvitt, og gangi vel, bæði þú og þið öll :-)

Einar Indriðason, 18.12.2007 kl. 22:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband