Leikskólastríð

Í þessari viku hefur nú þegar tvennt virkilega áhugavert og skemmtilegt komið fyrir, sem ég á til með að segja frá.

Fyrst var það á mánudaginn, þegar ég fór með Krumma minn í ungbarnaeftirlitið. Við sátum frammi í biðstofuni, ég með litla stubbinn í fanginu og var að hjala eitthvað við hann. Svona hjal sem (í mínum heimi allavega) er bara saklaust, og frekar venjulegt. Þið vitið "jæja litli minn, hvað ætli að þú sért nú orðinn þungur? Eigum við svo að skreppa í búðina á eftir og finna vetlinga handa mömmu?". Frekar heiladauðar samræður, en svona hjala ég allavega við börnin mín á stundum einsog þessari þegar maður er bara að bíða eftir einhverju eða er að dunda sér heima fyrir. Þið kannist örugglega við þetta. Allavega, í biðstofuni situr önnur mamma með sitt litla barn sem er á að giska jafngamalt mínum litla, svona ca. hálfsárs sem sagt. Mamman horfir á mig, vel og lengi, á meðan ég er að hjala svona og segir svo við mig "Ehhh, hérna, sko, af hverju ertu að tala svona við hann?". Ég vissi í raun ekki alveg hvernig ég átti að svara þessu en sagðist bara tala svona við hann um allt og ekkert, bara til að fylla þögnina og svo að hann heyri í mér, þetta séu okkar samskipti. "Já, en, þú veist, hérna, hann er ekkert að skilja þig" svarar gáfnaljósið. Nei, ég sagðist nú alveg átta mig á því og sagðist ekkert búast við neitt sérstaklega heimspekilegum svörum frá honum, en svona læra nú börnin samt og þó að hann kannski skilji mig ekki þá er hann jú næmur fyrir tóninum og röddinni minni. "Já, þú ert fyndin" bætti Móðir Ársins við, "aldrei að ég tala við mín börn, þau fatta ekkert hvort sem er".

Kannski er ástæða fyrir því að þau skilja ekkert, ef það er aldrei talað við þau? Aumingja börnin....

Svo lennti ég í smá rifrildi á leikskólanum, og þeir sem þekkja mig vita að það er kannski ekkert neitt rosalega óvenjulegt að vita af mér í einhverjum deilum... Þannig er mál með vexti, að á þriðjud. var, var haldinn fundur fyrir alla nýja foreldra á leikskólanum, svona til að fara yfir ýmislegt, og kynnast skólanum, fóstrum og hinum foreldrunum betur. Svaka fínt allt saman, saman safnast 12 mæður (kem aftur að þessu með að bara mæðurnar mættu), og leikskólastjórinn fór yfir reglur, stefnu skólans, og hitt og þetta. Ég er rosalega ánægð með þetta allt saman og hugsa mér að Tómas hljóti að njóta sín vel þarna á daginn. Svo fer hún að segja frá að það sé s.k. drama-herbergi þar sem börnin geta farið í ýmsa búninga og leikið sér, "já, svona prinsessukjóla eða riddarabúninga og þannig" segir hún. Ég er ennþá alveg í skýjunum yfir þessu öllu saman og sé alveg fyrir mér hvað Tuma mínum hljóti að finnast svona drama-herbergi skemmtilegt og að fá að njóta ímyndunaraflsins sem hann hefur ótæmandi.

Þá fara nokkrar mömmurnar að pukra aðeins úti í horni og ókyrrast mikið, og foringi þeirra tekur til málana. Hún er mjög æst á þessu stigi, næstum því hýsterísk, yfir þessu "kynjaflokkunarsjónarhorfi" sem virðist viðgangast þarna. Enginn skilur neitt, en hún er allt of æst til að stoppa núna. Hún heldur þarna þrumu ræðu um það að dóttir hennar á sko nokk ekki að fara í einhverja helv... prinsessukjóla bara af því að hún er stelpa, dóttir hennar getur sko bara alveg eins verið í riddarabúningunum, og dóttir hennar á vísst að vera útí á vellinum að smíða og fara í bíló skildist mér en þarna var farið að frussast frekar mikið, og svo truflaði það mig svo að hinar mömmurnar kinkuðu svo ákaft kolli þarna á bak við þessa æstu að ég hafði áhyggjur af því að þær færu hreinlega að meiða sig. Allavega, dætur þeirra eiga sum sé ALLS EKKI að leika sér að einhverjum djöf... bökunarofnum eða ansk... dúkkum, ó nei, svona kynjahlutverkamiðaldablablablabla hélt hún væri bara til í Miðausturlöndum og ég veit ekki hvað og hvað. Ein músin þarna á bakvið hana sagði stolt frá því að dóttir hennar á sko ekki eina einustu bleika flík, né spangir í hárið, og önnur músin táraðist næstum því þegar hún sagðist hafa bannað (sáuð þið þetta ?? BANNAÐ !!!) dúkkur heima hjá sér því að hennar dóttir átti sko ekki að læra það að það væri hennar hlutverk að sjá um barnið.

Þarna var ég farin að bæla svo niður hláturinn að það var annað hvort að segja eitthvað, eða kafna. Ég talaði.... Byrjaði á því að benda á að á þessum fundi væru bara mömmur, nokkuð sem mér þótti afar athyglisvert þar sem jafnrétti kynjana væri þeim svo mikið mál - hvar eru þá pabbarnir ?? Engin þeirra svaraði, svo ég hélt áfram. Mín skoðun er sú að jafnrétti sé að sjálfsögðu svo sjáfsagt mál að það þurfi ekkert að ræða það neitt frekar akkúrat núna, en ég fer ekki að troða strákunum mínum í bleikar peysur og gefa þeim Barbie dúkkur í jólagjöf fyrir það. Ef þeir vilja dúkkur þá er það hið besta mál, en jafnræði fæst ekki með því að þvinga börnin til að gera eitt né neitt, eða að neita þeim um annað. Þá hófst rifrildið, þar sem ég er greinilega svo gamaldags að þær trúa því varla, þeirra dætur eiga vísst að læra eitthvað sem heitir "hið kynjalausa samfélag" og svo framvegis og svo framvegis.

Eftir frekar langa, háværa og ansi skrautlega umræðu náði aumingja leiskólastjórinn að breyta um umræðuefni en Skessurnar voru ofsalega vondar út í okkur hinar mömmurnar sem vilja leyfa börnunum sínum að vera börn og leika sér að því sem þau vilja.

Mig langar til að koma því til skila að umrædd börn eru tveggja ára. 2 ÁRA !!!

Það fyndna var í raun í dag, þegar ég sótti Tómas því þá stóðu Kynjalausu Skessurnar við hliðið og voru að smala saman nokkrum börnum sem áttu að fá að fara á rólóvöllinn og leika sér saman. Þegar ég gáði sá ég að það voru bara stelpur sem voru í þeim hópi, og ég gat ekki annað en að fella smá athugasemd þess efnis. Það var fátt um svör þegar ég benti á að það væru frekar undarleg skilaboð sem blessaðar dæturnar fengu, þegar engir strákar væru með í vinahópinum.

Byrjar ekki annars jafnrétti heima fyrir ? Læra ekki börnin af okkur foreldrum, ömmum og öfum ? Hvaða skilaboð eru þá þetta, að banna dúkkur en bjóða svo bara stelpum í leikhópana ? Undarleg uppeldisaðferð þetta, að mínu mati. Hvað finnst ykkur ?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erna Lilliendahl

Að tla aekki við börnin sín....konan er greinilega ekki á leið að framleiða næsta Einstein ;) Og ég gæti ekki verið meira sammála þér með kynjaskiptin. Jói minn hefur ávallt getað leikið við stelpur í stelpuleikjum, en verandi strákur, þá nýtur hann sín meira í löggu og bófa.....reyndar eins og ég gerði hér forðum, ekki mikil prinsessa ég.... Hvað ætli svona konum finnist um Hjallastefnuna!!!

Svo lengi sem börnin eru hamingjusöm, skiptir ekki annað máli :)

Erna Lilliendahl, 18.10.2007 kl. 20:44

2 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

María:Þegar ég var í sveitinni í gamladaga (á sjötta áratug 19, aldar) tók ég með mér leikfanga byssurnar mínar en bóndakonan gerði þær upptækar. Hún vildi ekki að við værum að leika ofbeldisleiki. Fallega hugsað en algerlega gagnslaust. Við strákarnir gerðum okkur einfaldlega byssur úr spýtum og sprengjur úr þurrkaðri mold sem við vöfðum inn í pappír. Sjálfur bannaði ég aldrei mínum strákum að leika sér með leikfangavopn eða horfa á "vafasamar" myndir. Þeir eru í dag 16 og 18 ára, afar friðelskandi og sá eldri borðar ekki einu sinni kjöt. Yngri sonurinn var mikill bardagamaður á yngri árum og sveiflaði sér í trjánum 3 ára öskrandi "burn mother fucker, burn!" (talandi um skort á ritskoðun myndefnis af hálfu foreldra - lesist föður). Hann byrjaði 10 ára gamall að sjá sjálfur um allan sinn þvott og þegar hann var 13 ára sá hann ekki bara um allan þvott heimilisins heldur eldaði matinn 2 í viku og tók til á laugardögum. Aldrei lék hann sér með bollastell eða míní eldavélar/þvottavélar. Hann átti hinsvegar ótrúlegt safn vopna frá öllum stigum mannlegrar ómenningar.

Auður: Ég er innilega sammála þér í því að kynin eru oftast ólík bæði á sál og líkama. Annars væri varla markaður fyrir kynskiptiaðgerðir fyrir t.d. þá sem eru svo óheppnir að fæðast með kvenlega sál í karllíkama. Auðvita eru svo til allar varíasjónir á þessari "gender identity matrix", en það er annað mál og nóg til að æra óstöðugan að fara inní þá umræðu.

Ásgeir Rúnar Helgason, 20.10.2007 kl. 10:32

3 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Mér líkar hvað þú ert töff í þessu...láta þær heyra það

Einar Bragi Bragason., 31.10.2007 kl. 21:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband