Ertu íslensk ?!?

Ég vil byrja þennan pistil á því að þakka fyrir góðar kveðjur sem bárust okkur vegna Davíðs. Allt gekk einsog við bjuggumst við, og meira að segja erfiðir dagar líða að lokum fyrir rest. Því miður þurfum við að endurtaka þennan leik á 4 vikna fresti í ca. ár eða svo, svo að það má alveg halda áfram að hafa stubbinn okkar í huganum.

Annars langaði mig í dag að tala um íslendinginn í mér. Þegar ég var 10 ára gömul fluttu foreldrar mínir til Stokkhólms, og mér var halað hingað í för með þeim. Ekki vildi ég vera hér, nó sör. Mér fannst þetta ömurlegt land, ég hafði allt á hornum mér einsog bara 10 ára stelpuskjáta getur, og var almennt erfið og hudleiðinleg. Íslendingurinn í mér vaknaði, og ég get eftirá viðurkennt að ég skapaði í raun hálfgert skrímsli. Allt var betra á Íslandi, og ég gerði í því að koma því þannig að í umræðum að ég gat stolt sagt frá því að ég sé íslensk. Sama hversu óraunsætt það kannski var, gat ég samt alltaf skotið því inn að ég væri íslensk. Það mátti vera að tala um til dæmis konungsfjölskylduna, þá mátti alveg heyra í mér "já, Victoria krónprinsessa er rosalega fín. En ég veit ekki annars, ég er nefnilega frá Íslandi og þar erum við sko ekki með konungsfjölskyldu". Ég fæ sjálf svolítinn kjánahroll þegar ég hugsa til þessarar þráhyggju sem kvaldi mig svo lengi, en þetta gat nú örugglega verið svolítið skondið stundum.

Það er líka rosalega gaman að vera íslendingur í Svíþjóð, svíarnir eru svo barnalega spenntir fyrir landinu okkar á einstaklega einlægan hátt. Þeir hrópa upp yfir sig af kátínu þegar það kemur í ljós að ég sé frá þessu sögufræga landi, og þeir spyrja mann spjörunum út. Oftast eru þetta nokkuð gáfulegar spurningar, en þó ekki alltaf. Eins get ég varla talið lengur hversu oft ég hef þurft að hlusta á einhvern lítinn svíakjána með bros á vör tjá mér það að hann/hún hafi nú séð "Hrafninn flýgur" svo og svo oft, og þá kemur alltaf þetta: "Ja, jag kan säga ÞUNGUR HNÍFUR", en það er vísst eitthvað rosalega flott sem er sagt í álíka flottu atriði í myndini. Alltaf þarf ég að verða jafn kát yfir kunnáttuni. Og alltaf þarf ég að ljúga því að þetta sé ofsalega flott (maður vill ekki valda vonbrigðum þegar maður sér þessi stoltu bros litlu svíana), og að þetta sé einmitt oft notað á Íslandi. Þungur hnífur já, einmitt.

Svíar vilja helst að Ísland sé ennþá svolítið mikið á Snorraöld. Ég get ekki lengur talið hversu oft ég hef verið spurð um það hvort það sé ekki örugglega eitthvað hræðilegt blóðbað á milli minnar ættar og td. ættarinnar sem á nágrannajörðina. ???????? Hér á ég reyndar smá sögu sem ég segi gjarna frá, og þá kætast þeir enn meira. Ég segi nefnilega frá því að árið 1267 hafi ættmóðir okkar, hún Kringlu-Krá komið að bóndanum á Smára-Lind þar sem hann var í óða önn að stela öllum hestunum þeirra Kringlu-Kráar og manninum hennar, honum Kakó-Malt. Hún varð svo reið að hún náði í heykvísl og drap hann. Ekkert múður á henni Kringlu-Krá. Nú, frúin á Smára-Lind bænum, hún Lækjar-Torg var mjög ósátt við morðið á bóndanum sínum svo að hún drap Kakó-Malt. Síðan eru okkar ættir, Kringlan og Smáralindin, í stríði. Ekki einusinni danski prinsinn, Prins Póló, gat stillt til friðar á milli ættbálkana. Þetta finnst svíum rosalega merkilegt allt saman, og gleypa þessa steypu mína alveg hráa.

Þegar ég var 26 ára bauðst mér tækifæri að flytja heim, og ég gladdist mjög yfir því að fá loksins að finna þann frið sem ég hélt myndi heltaka mig. Mér fannst mig alltaf vanta eitthvað, og á þessum tíma var ég sannfærð um að það væri þessi blessaði íslendingur í mér sem liði svona ílla í útlegðini. Heim ég fór, og uppgötvaði á þriðja degi að ég var alls ekkert heima. Ég vissi ekkert í minn haus og gat alveg eins hafa verið geimvera þarna í kaffinu í vinnuni þegar allt liðið hló sig máttlaust yfir einhverjum Jóni Gnarr sem ég vissi ekkert hver var. Ég vissi ekki neitt um neitt, ég kunni ekki á umgengnisreglur sem öll samfélög hafa, ég þekkti engan og gat aldrei tekið þátt í "já, heyrðu, varstu ekki með honum Óla í bekk, þú veist, bróðir hennar Ástu" umræðunum heldur.

Ein vinkona mín stakk upp á því að við færum í bæinn á kaffihús og bað mig um að sækja sig um átta. Stundvíslega mæti ég, og þá kemur hún til dyra á nærbuxunum, með hárið nýþvegið vel vafið í handklæði á hausnum, ómáluð og bara hress. "Hæ, ég er að taka mig til" segir hún, og ég endaði á því að léttast um ca. 7 kíló þar sem ég svitnaði í úlpuni minni í forstofuni hennar á meðan hún kláraði. "Rosalega mætiru snemma" kallaði hún þar sem hún leitaði að fötum til að fara í. "Snemma?" hugsaði ég, "við sögðum átta!". Svíinn og íslendingurinn ekki alveg að skilja hvorn annan.... Eins var mikið hlegið að mér þegar ég sat á skemmtistað einum og hneyklaðist á hringstiga sem leiddi á milli hæða. "Ég meina, hann er bæði of brattur og þröngur" stundi ég, "hvað ef það kviknar í, þetta er ekki gott mál úr öryggissjónarmiði". Öllum fannst ég afskaplega fyndin, en svíinn í mér meinti þetta alveg, sá var í raun með miklar áhyggjur af því að þessi staður hlyti að vera brjóta einhversskonar öryggislög eða eitthvað. Ég var ekki alveg búin að kynnast "þetta reddast" hugtakinu.... Eins var oft horft undarlega á mig þegar ég dundaði mér við það að raða samviskusamlega á færibandið í kassanum í matvöruverslunini. Ég afturámóti skildi ekki hvernig fólk gat bara hrúgað vörunum sínum svona kæruleysislega, hafði fólkinu ekki verið kennt að maður Á að raða vörunum til að auðvelda fyrir afgreiðslufólkinu ?!?!

Á Íslandi var ég alveg eins mikill útlendingur og hérna í Svíþjóð. Munurinn var kannski sá að ég hafði talið mig vera útlending á vitlausum stað, eftir öll þessi ár átti ég miklu minna sameiginlegt með "mínu" fólki. Ég komst að því að ég er í raun og veru miklu betri íslendingur svona í smá fjarlægð. Ég hef svo gaman af því að vera íslensk, og ég er ofsalega stolt af því að vera frá þessu dásamlega, undarlega, fallega, skrítna og stórkostlega landi.

Í lokin komst ég að því að "að vera heima" þarf ekkert að tengjast neinum landfræðilegum stað, það er hugarástand og tilfinning. Og þá get ég svo sannarlega sagt það að ég sé komin heim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Indriðason

Kringlu-Krá, Smára-lind.... Þetta eru ansi litskrúðugar persónur úr íslendingasögunum... Ég vildi ég hefði tekið betur eftir í kúrsunum um íslendingasögurnar....

En, annars segi ég:  gangi áfram vel með þetta allt saman.

Einar Indriðason, 17.11.2007 kl. 22:02

2 Smámynd: Erna Lilliendahl

Ert og verður frábær penni, Maja mín, og hvar sem þú ert í heiminum, áttu alltaf "Heimili", hér, ekkert á eftir að brjóta úr þér Íslendinginn!!!

Erna Lilliendahl, 19.11.2007 kl. 09:38

3 Smámynd: Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl

Þetta er snilldarfærsla elskan mín, eins og svo oft áður ....ég rek einmitt ættir mínar aftur til Prins Póló...alveg magnaður karakter. Ríkti í Danmörku 1237 - 1255. Dó svo úr offitu.

Annars hef ég mikið hugsað til ykkar elskan mín undanfarið og vona að framhaldið með Davíð verði bara jákvætt. Þú veist hvar ég er ef þú vilt spjalla. Knús til þín elskan

Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl, 20.11.2007 kl. 11:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband