Grænnefjað skrímsli og fleira

Síðustu vikur hafa verið annasamar, og einkennast helst af ýmisskonar veikindum með tilheyrandi líkamsvökvum sem hér hafa lekið. Það byrjaði um miðjan nóvember, einn dag þegar ég sótti Tómas á leikskólann stóð meterhátt, grænnefjað skrímsli sem mætti mér í anddyrinu á "heimilinu" einsog mamma kallar leikskólann. Mér brá auðvitað við þessa sjón, og vellti því fyrir mér í nokkrar sekúndur hvort þetta ógnarlega monster ætlaði að ráðast á mig eða hvað. Á meðan ég vellti þessu fyrir mér byrjaði veran að gefa frá sér hljóð... Veran reyndist vera barn, og hljóðið sem kom stafaði af nef-uppísogi sem hefði gert Nilfisk ryksugu græna af öfund. Í alvöru, ég held að helmingurinn af skítnum sem lá á gólfinu í andyrinu hafi horfið upp í nefið á barninu. Á tali um grænt, get ég bara látið það nægja að þannig var jukkið sem lak úr Tómasi daginn eftir.... Hálf pirruð á fólki sem setur augljóslega veik börn á leikskóla hélt ég honum heima í tæpa viku.

Að viku liðinni hélt kátur kútur aftur á leikskólann, og öllum var létt. Þegar ég sótti hann þann daginn mætti mér annað skrímsli, en það var ekki grænt nef heldur gul augu... Jepp. daginn eftir var Tómas kominn með augnsýkingu með tilheyrandi gulu jukki í þetta sinn. Vegna þess að það styttist í stóru aðgerðina hjá Davíð, og hversu smitandi þessar sýkingar eru fór ég með Tumaling á fund heimilislæknis sem gaf okkur smyrsl, sem átti að fara INN í augað 4 sinnum á dag. Hann var hin hressasti með smyrsluppákskriftina, en ég vellti því helst fyrir mér hvort þessi maður hefði yfirhöfuð komist í kynni við 2,5 ára barn. Ég meina, hversu auðvelt átti þetta að vera ?? Það sýndi sig vera mikil þraut að koma þessu bévítans smyrsli í augun, en gula jukkið hvarf nú fyrir rest.

Jukkið þýddi auðvitað 5 daga heimaveru, með Tómasi sem var auðvitað ekkert lasinn þannig, svo að hann var jafn hress og uppátækjasamur og venjulega. Ægilega gaman. Þegar ég reyndi að koma einhverju í verk, einsog til dæmis að búa um rúmin stóð hann mér við hlið og ruglaði allt á ný. Ég dundaði mér við að brjóta saman þvott, og þá dundaði hann sér við að rífa hinum fullkomlega og vel frágengnu flíkum aftur niður á gólf. Gasalega gaman allt saman !!

Svo fór síðasta vika í margar læknisheimsóknir vegna Davíðs, og svo var stóra aðgerðin í gær. Þungur dagur að sjálfsöðgu, ekki ófá tárin sem féllu, margir kaffibollar drukknir, og einsog karton af sígarettum fengu að hjálpa til við að komast í gegnum þetta. Læknirinn byrjaði á svo kallaðri klíniskri skoðun, og mældi þá m.a. þennan þrýsting sem er aðal bófinn í þessu öllu saman. Þessi þrýstingur á að vera á milli 8 og 10, en mældist í 22 á hægri hlið og 28 á vinstri.... (10 og 20 fyrir 5 vikum), svo það var ákveðið að drífa sig í því að skera bæði augu. Sagt og gert, og að löngum degi liðnum fórum við heim.

Og viti menn, það ótrúlegasta sem ég hef upplifað beið mín í morgun. Ég vaknaði við að hann lá mér við hlið og raulaði, ég sneri mér við og þar blasti við mér sjón sem ég hef ekki fyrr séð. Litla elsku barnið mitt með galopin augu, skýr og tær, djúpblá og stór. Fallegustu augu sem ég hef séð !!! Nú er að vísu enn viss þoka eftir, en munurinn er ótrúlegur, og hvernig hann horfir í kringum sig er dásamlegt !!! Hann var orðinn að engu, sat bara og horfði í gólfið og reyndi að hlífa sjálfum sér við allri birtu og að horfa upp á við, allur líkaminn var einhvernveginn samandreginn. Það hefur verið svo óskaplega sárt að horfa upp á þetta, og að sjá hann bara sólarhring seinna, þó að hann sé bólginn og marinn og þrýstingurinn alls ekki alveg farinn. Hann situr beinn í baki og horfir með stórum opnum augum í kringum sig. Dásamlegt !!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Indriðason

Frábært að heyra.  (Án þess að vita nákvæmlega hvað er í gangi hjá Davíð, þá heyrist mér þetta hafa gengið vel.)

Og skemmtileg frásögn.  Nú er bara að vona áframhaldandi framhald á góðum fréttum :-)

Einar Indriðason, 8.12.2007 kl. 22:03

2 Smámynd: Erna Lilliendahl

Elsku Maja, mikið er ég glöð að heyra að allt gekk vel og vona að hamingja fylgi ykkur áfram í nýja árið :)

Erna Lilliendahl, 8.12.2007 kl. 23:06

3 Smámynd: María Tómasdóttir

Einar: Davíð fæddist með óskaplega sjaldgjæfan augnsjúkdóm, barnagláku. Nú er fyrstu aðgerðini lokið og það virðist hafa heppnast vel, en enn bíða okkur nokkrar aðgerðir í viðbót. Sem verða vonandi jafn vel heppnaðar!

Erna mín, takk fyrir það ! Og sömuleiðis að sjálfsögðu!

María Tómasdóttir, 9.12.2007 kl. 08:40

4 Smámynd: Einar Indriðason

Óh.... takk.  Breytir því samt í engu hjá mér, að ég óska til lukku með fyrsta áfangann :-)

Og vona að allir næstu áfangar verði eins góðir og hægt er að hafa þá. 

Einar Indriðason, 9.12.2007 kl. 17:45

5 identicon

Frábært að heyra að allt hafi gengið svona vel með Davíð :D Vona að þið hafið það gott á aðventunni, það má guð vita að það er ekkert gott við mína aðventu í augnablikinu

Hlakka til að hitta ykkur aftur

Stína 11.12.2007 kl. 09:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband