3.1.2008 | 22:11
Fortíð, framtíð og margmenni í rúminu
Gleðilegt 2008 ! Árið sem leið var stórt og atburðaríkt í lífi mínu og fjölskyldunar. Davíð kom til okkar og færði með sér hamingju, gleði og ást sem ég hef ekki áður kynnst. Að verða móðir tveggja unaðslegra drengja var stórt og hefur haft ótrúlega mikil áhrif á mig. Sumarið sem leið var langt og erfitt á tímum, syndandi í hormónum reyndi ég að lifa fyrstu mánuðina af, ein heima með strákana mína í rúma 3 mánuði. Geðheilsan var oft í háska.... 2 vikum eftir að Davíð fæddist barst mér bréf frá konu sem ég hélt væri vinkona mín, og bréfið sem hún kaus að skrifa mér á þessum tilfinningaríka tíma kom mér úr jafnvægi og kom af stað atburðarrás sem særði okkur öll mikið. Ég er enn í dag að gera það upp við mig hvað mér þyki um þetta. Ég á erfitt með að skilja fólk sem er að smjatta á hlutum sem það veit ekkert um, afskiptasemi þar sem það er algjörlega óviðeigandi, kjaftagangur og sögusagnir er nokkuð sem fer óskaplega ílla í mig. Í kringum áramótin fer ég gjarna yfir árið sem leið, hvað vil ég taka með mér, hvað vil ég skilja eftir, hvað vil ég endurtaka og hvað hef ég lært? Þetta er það helsta sem ég vil skilja eftir, vonbrigðin og reiðin færir ekkert og tekur bara pláss.
Árið 2007 færði þvílíkan aragrúa af tilfinningum, háa tinda og djúpa dali. Örvæntingin þegar við áttuðum okkur á umfangi sjúkdómsins hans Davíðs, gleðin eftir þessa fyrstu af mörgum aðgerðum. Tómas er uppspretta ótrúlegrar gleði, það sem honum dettur í hug, leikirnir sem hann leikur og ástríðan í þessum kröftuga litla dreng er stórkostleg gjöf. Tengsl okkar við stjúpson minn og móðurfólk hans hafa verið flókin þetta árið, og ekki byrjaði árið sérstaklega vel hvað það varðar. Við keyptum okkur hús á síðasta ári, sem við munum fá afhent í október á þessu ári, og tilhlökkunin er mikil. Ég fékk að kynnast gamalli vinkonu minni upp á nýtt, og með sér færði hún tvær dásamlegar konur inn í líf mitt og það hefur gert árið mitt miklu ríkara ég vona að þið vitið hverjar þið eruð (2 úr vesturbænum og ein þriggjabarna móðir).
Já, þetta var stórt ár sem ég kvaddi, og mér virðist sem enn stærri ár bíði mín. Þetta er væntanlega síðasta árið sem ég verð heimavinnandi (allavega í bili...) og ég hef lofað sjálfri mér að gera þetta ár að okkar besta hingaðtil. Ég geng allavega inn í þetta nýja ár með jákvæðari hugarfari en ég hef haft í langan tíma.
Þeir eru orðnir þó nokkuð margir karlmennirnir sem halda mér vakandi á næturnar . Nei, engin fantasía sem er að rætast enda held ég að ég gefi ekki frá mér neitt sérstaklega sterka kynstrauma einsog er. Þeir sem sjá um andvökunætur mínar núna eru: Alex sem virðist ætla að kanna hvort hrotur mælist á richterskalanum, Davíð sem er ofdrykkjumaður á næturnar, Tómas sem heldur að hann sé David Beckham og hausinn minn/bakið mitt/maginn minn sé fótbolti (og nei, hann virðist ekki alveg vera að fatta þetta með að sofa heila nótt í sínu eigin rúmi og nei, ég nenni ekki að fara með hann í sitt rúm þegar hann kemur inn á næturnar, og já, ég veit að þetta er væntanlega mér að kenna), og núna seinast um jólin bættist sjálfur Arnaldur Indriðason í hóp karlmannana sem halda fyrir mér vöku. Sem betur fer tókst mér að klára bókina (hvað hélstu? Að Arnaldur Indriðason væri kominn upp í rúmið mitt líka? ) í morgun, og vonandi get ég farið að sofa eitthvað, svona af og til allavega.
Jólin voru ósköp ljúf en alltof fljót að líða, en allir strákarnir (Davíð, Tómas, Alex og Casper) mínir eru heima þangað til á mánudaginn. Eins gaman og það nú er að vera saman í fríi verður líka ágætt þegar hefðbundin rútína byrjar á ný. Það er alveg rosalegt drasl sem fylgir þeim þegar þeir eru allir hérna heima !!! Maður mætti kannski halda að mér þætti það ágætis tilbreyting, og hvíld, að hafa Alex heima svona lengi en þannig er það bara ekki !!! Það er allt á hvolfi hérna, maður er rétt búinn að ganga frá eftir morgunmatinn þegar einhver þeirra kemur inn og tilkynnir að það sé að koma að hádegismat . Þvottakarfan gýs 2. á dag, og gólfið (með nýja parkettinu) er allt í einhverjum klístruðum klessum sem ég veit ekki hverjar eru. Ég hugsa með kvíða til framtíðarinnar, hvernig verður þetta þegar allir 3 eru á táningsárunum? Þegar forstofan er full af einhverjum skóm í stærð 47, þegar þeir eru hættir að geta talað við mann og kvaka bara einhverju af og til, þegar mánaðarinnkaupin í Bónus endast í 4 daga . Æi, það verður bara gaman !
Athugasemdir
Elsku Maja mín. Í fyrsta lagi átt þú aldrei að taka nærri þér orð annarra, ef þau særa lýsir það betur persónunni sem lét þau frá sér en þér. Svona fólk er ekki þess virði að eiga þig að! Árið 2007 var mörgum erfitt, en við lærum líka miklu meira af sorg en gleði, svo við erum öll á réttri leið. Þú ert óheyrilega sterk og munt uppskera vel, ég veit að árið 2008 á eftir að færa þér og þínum mikla hamingju. Þetta er bara spurning um að vita hvað skiptir máli og hvað er ekki þess vert að sóa tíma í. Og með gelgjudómsáhyggjurnar, þá er ég þvílíkt að prísa mig sæla að Jói minn verður 12 ára eftir viku og er enn ekki að sýna neina gelgjutakta...ólíkt villingnum sem ég var ;)
Erna Lilliendahl, 4.1.2008 kl. 00:05
Já, Maja mín. Árið 2007 var vissulega mikil rússíbanaferð, en framundan eru bjartir tímar ...ég efast ekki um það. Ég held að árið 2007 hafi aðallega snúist um að reyna að ná jafnvægi. Það gekk ýmislegt á, en núna er mestu látunum lokið. Ég er búin að hugsa mikið til ykkar og sendi ykkur allan minn styrk. Þú ert bara hetja elsku vinkona. Farðu svo extra vel með þig og slepptu því að ráðast á t.d erlenda þjóðhöfðingja...það minnkar stressið í daglega lífinu. Trust me.
Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl, 4.1.2008 kl. 00:24
Já, og gleðilegt nýtt ár! Og gangi vel með alla pjakkana, stóra sem smáa!
Einar Indriðason, 4.1.2008 kl. 01:04
Erna mín: Það er alveg rétt hjá þér, og ég hef hérmeð ákveðið að grafa bæði særandi orð, persónulega árás, og konuna sem bar ábyrgð á því. Takk fyrir falleg orð í minn garð, og ég vona að árið færi okkur öllum hamingju. Vona að Jói haldi áfram að vera svona rólegur.... Sjálf er ég með einn á litla gelgjualdrinum (Casper er 6 ára) sem er alveg að gera okkur geðveik !!
Erla mín: Ég trúi því að árið 2008 verði eins æðislegt og 2007 var ömurlegt á tímum. Þú ert yndisleg, sterk og klók. Ég dáist að því hvernig þú tókst á við allt sem gekk á. Og hvað þjóðarhöfðingja og pólítíkusa varðar, þá biðst ég bara afsökunar á því hvað okkar tengsl komu þér í mikið klandur....
Einar: Gleðilegt árið sömuleiðis, og takk fyrir öll innlitskvittin !
María Tómasdóttir, 4.1.2008 kl. 23:55
Shit, ég er ekkert að fara að grafa hana, þannig lagað, bara að gleyma því og láta málið vera dautt... Sé það núna að þetta má alveg misskilja.... Eeeeehheeeemmm.....
María Tómasdóttir, 4.1.2008 kl. 23:56
já, ég var einmitt að hugsa að þá gæti ég verið dæmd sem vitorðsmaður...svo við skulum bara "andlega" grafa hana ;)
Erna Lilliendahl, 5.1.2008 kl. 11:00
Jesss, búin að andlega grafa hana (og lemja hana smá líka, en bara andlega).
María Tómasdóttir, 5.1.2008 kl. 11:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.