Vil ekki !!!

Gat ekki annað en hlegið þegar eftirfarandi atriði átti sér stað fyrir stuttu. Ég bað Alex um að sjá um að hátta Tómas. Ekki alveg sannfærður um að það væri góð hugmynd, fór faðirinn á fund sonarins inni í Tómasarherbergi, og þá heyrðist þetta:

A: Komdu hérna, ég ætla að skipta um föt á þér

T: NEI

A. Jú, komdu

T: NEINEINEINEINEI

A. Jú, komdu

(Svona hélt þetta áfram í smá stund, þangað til ég bara varð að fá að leggja mitt til málana og stakk upp á því við Alex að hann færði sig kannski til Tómasar í staðinn, og reyndi aftur. )

A: Komdu nú úr buxunum, svona já, nei bíddu, ÁI, HEY !!! Bannað að sparka í pabba !!

T: Ljóti pabbi (hleypur berrassaður um alla íbúð og veifar bleyjuni sem hann átti að fara í)

A: (búin að ná í soninn aftur eftir smá eltingarleik og glímu) Svona já, sko, nú skulum við koma í bolinn okkar, nei NEI NEI EKKI SVONA !! EKKI PISSA Á PABBA !!!

(Hér kemur hann fram og segist ekki geta klætt son okkar. Ég segist ekki nenna því, hann verður að sjá um þetta. Hann er uppgefinn. Fer samt aftur inn í herbergið til Tómasar).

T: Pabbi blautur ?

A: Já, þú pissaðir á mig

T: Tómas pissa !! HAHAHAHAHAHHA

A: Já, voða fyndið. Svona, nú skulum við koma í bleyjuna. ÆI, villtu ekki lemja pabba í hausinn ??

T: VIL EKKI FARA Í FÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖT !!!!!!! GARG GARG GARG CRASH CRASH BOOOOM GARG GARG 

Get bætt því við að það endaði með því að Tómas fór þegjandi og hljóðlaust í náttfötin sín. Þegar ég skarst í leikinn. Mama Power !!

Í dag hringdi í mig kona sem heitir Marlene, og hún á son sem heitir Davíð og sá er einn af örfáum börnum með sama sjúkdóm og minn Davíð. Það var bæði gott og sárt að tala við hana, og ég var svolítið þreytt í sálini þegar við kvöddumst. Ég var samt óskaplega fegin að fá að tala við hana, og fá það sem gæti verið smá innsýn í framtíð okkar. Hennar Davíð var skorinn 5 sinnum á sl. ári, en hann er bara með gláku á öðru auganu þar sem minn Davíð er með á báðum. Marlene er að læra blindraletur til að undirbúa sig fyrir það að sonur hennar þurfi að læra það seinna meir, og hún benti mér mjög varfærnislega á að gera það kannski líka. Hennar sonur er eiginlega alveg blindur á slæma auganu sínu. Við töluðum lengi og opinskátt saman um allt sem þessu fylgir, tilfinningar okkar mæðrana og áhyggjur sem við höfum. Eftir að ég kvaddi hana læsti ég að mér inni á baðherbergi til að vera ein með mínar hugsanir og tilfinningar í smá stund. Helst af öllu vildi ég gera einsog Tómas gerir, og henda mér á gólfið og öskra "vil ekki !!!". En þann lúxus hef ég ekki, svo ég þerraði tárin og fór fram til að koma í veg fyrir að Tómas kveikti í gardínunum okkar. 

Nú fer að koma að því að við setjum íbúðina okkar á sölu, í vikuni kom fasteignasali til okkar og hún vill setja ágætis verð á íbúðina, eða næstum því helmingi meira en við keyptum hana á fyrir tæpum 5 árum. Gaman gaman ! Nú er bara smotterí sem þarf að athuga og laga, áður en við auglýsum hana. Svo ætlum við strákarnir að vera heima allan júlímánuð, svo það er margt og mikið sem má hlakka til þessa dagana.

Fréttum lokið, gott kvöld.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erna Lilliendahl

Þú ert órtúlega sterk elsku Maja min, en ekki gleyma að það má alveg sleppa tilfinningunum lausum annars lagið, það er nauðsynlegt fyrir sálina. Annars finnst mér alveg brill að drengurinn hafi "merkt" pabba sinn svona, hann á að líta að þetta sem hrós ;)

Erna Lilliendahl, 30.1.2008 kl. 22:03

2 Smámynd: Einar Indriðason

"merkja" ... kallast þetta ekki að "mynda tengsl" ? :-D

Einar Indriðason, 30.1.2008 kl. 23:03

3 Smámynd: Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl

Þú ert ótrúleg Maja mín og stundum finnst mér mjög erfitt að vera svona langt í burtu frá þér. Ég fæ þó vonandi að bæta þér það upp í júlí . Þú ert hetja elskan mín og ef það er eitthvað sem ég get gert...hvað sem er, þá máttu ekki hika við að tala við mig. Sendi þér stórt faðmlag yfir hafið

Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl, 1.2.2008 kl. 12:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband